Lífið

„Þetta eru erfið, viðkvæm og sorgleg mál“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sunna Karen Sigurþórsdóttir er þáttastjórnandi í þáttunum Ummerki sem fara  af stað á Stöð 2 8. nóvember. 
Sunna Karen Sigurþórsdóttir er þáttastjórnandi í þáttunum Ummerki sem fara  af stað á Stöð 2 8. nóvember. 

Sjónvarpsþáttaserían Ummerki hefur göngu sína á Stöð 2 sunnudaginn 8. nóvember næstkomandi. 

Um er að ræða sex þátta seríu sem fjallar um íslensk sakamál í umsjón Sunnu Karenar Sigurþórsdóttur. Þættirnir eru þeir fyrstu sinnar tegundar hér á landi þar sem einblínt er á sakamálin frá sjónarhorni rannsakandans.

„Þættirnir fjalla um sakamál sem hafa átt sér stað hérlendis. Við þræðum atburðarásina og förum meira inn í rannsóknarhliðina en hefur verið gert áður og fáum þannig innsýn inn í störf flest allra sem koma að málunum,” segir Sunna.

„Við heyrum frá sjúkraflutningamönnum sem eru fyrstir á vettvang, rannsóknarlögreglu, förum ofan í réttarmeinafræðina, tölum við sérfræðinga í DNA og blóðferlagreiningum og þannig mætti lengi telja, en við tölum líka við aðstandendur og vitni. Þannig að það er farið yfir málin á mjög víðum grundvelli.”

Hún lofar áhugaverðum þáttum. 

„Þetta eru erfið, viðkvæm og sorgleg mál þannig að það skiptir öllu að vanda vel til verka og vinna þau með virðingu að leiðarljósi. Og vonandi skilar það sér heim í stofu. Þannig að við við lofum, vönduðum, áhugaverðum og spennuþrungnum þáttum öll næstu sunnudagskvöld á Stöð 2.”

Sunna Karen sá um umsjón þáttarins og Lúðvík Páll Lúðvíksson sá um framleiðslu og leikstjórn. Fyrsti þáttur verður sýndur 8. nóvember klukkan 21.40, en stiklur úr honum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Ummerki - sýnishorn
Klippa: Ummerki - sýnishorn 2





Fleiri fréttir

Sjá meira


×