Umfjöllun: Ísland - Danmörk 0-3 | Allt gengur á afturfótunum í Þjóðadeild og gegn Dönum

Ingvi Þór Sæmundsson og Sindri Sverrisson skrifa
Það var vendipunktur í lok fyrri hálfleiks þegar Danir fengu mark dæmt gilt sem líklega hefði ekki átt að standa.
Það var vendipunktur í lok fyrri hálfleiks þegar Danir fengu mark dæmt gilt sem líklega hefði ekki átt að standa. VÍSIR/VILHELM

Ísland hefur tapað öllum sínum leikjum í Þjóðadeildinni frá upphafi og aldrei unnið Danmörku í knattspyrnu karla. Sú er staðan enn eftir 3-0 sigur Dana á Laugardalsvelli í kvöld. 

Danir komust yfir í lok fyrri hálfleiks með marki sem líklega hefði aldrei átt að standa. Christian Eriksen bætti við öðru strax í upphafi seinni hálfleiks og Robert Skove skoraði það þriðja eftir klukkutíma leik.

Fengið á sig flest mörk allra í Þjóðadeildinni

Ísland hefur leikið meðal bestu þjóða Evrópu í A-deild fyrstu tvær leiktíðirnar af Þjóðadeildinni. Liðið tapaði öllum fjórum leikjum sínum fyrstu leiktíðina og hefur tapað fyrri þremur leikjum sínum af sex í haust. Ekkert lið hefur í sögu keppninnar fengið á sig fleiri mörk, eða samtals 22 mörk í sjö leikjum.

Ísland er því illa statt á botni 2. riðils með 0 stig, Danmörk með 4 stig, Belgía 6 og England 7. Neðsta liðið fellur niður í B-deild og ljóst að Ísland þarf helst að vinna Belgíu á miðvikudag til að eiga von um að halda sæti sínu í A-deild. Ísland mætir svo Danmörk og Englandi á útivelli í nóvember.

Alfreð Finnbogason fór meiddur af velli eftir aðeins tólf mínútna leik.Vísir/Vilhelm

Ísland var án Kára Árnasonar vegna meiðsla í kvöld, og kom Sverrir Ingi Ingason inn í byrjunarliðið í hans stað. Rúnar Már Sigurjónsson leysti Jóhann Berg Guðmundsson af hólmi, og kom Jóhann ekkert við sögu í kvöld.

Danir byrjuðu leikinn af nokkrum krafti, héldu boltanum vel og áttu nokkrar fyrirgjafir en sköpuðu þó ekki mikla hættu. Það gerðu Íslendingar hins vegar í sinni fyrstu sókn á tíundu mínútu. Arnór Ingvi Traustason var þá nálægt því að klöngrast í gegnum vörn Dana. Hann missti boltann þó frá sér en Alfreð Finnbogason komst þá inn í skelfilega sendingu Simon Kjær aftur á Kasper Schmeichel, og var ekki langt frá því að lauma boltanum í netið.

Alfreð meiddist hins vegar í sama mund, varð að fara af velli og Jón Daði Böðvarsson kom inn á í hans stað. Svo virtist sem Alfreð hefði tognað aftan í læri og hann gæti því þurft að vera frá keppni næstu vikurnar.

Martraðarmínútur í kringum leikhléið

Danir voru mikið meira með boltann í fyrri hálfleiknum en sköpuðu lítið af færum. Ísland átti tvær góðar skyndisóknir en var annars í eltingaleik við hið vel skipaða lið gestanna. Varnarleikurinn gekk þó afar vel og það var mikið högg fyrir Ísland þegar Danmörk komst yfir rétt fyrir hálfleik, með marki sem líklega hefði aldrei átt að standa.

Hannes Þór Halldórsson gerði þá mistök þegar hann sló skalla frá Kjær út í Rúnar Má, og þaðan fór boltinn á marklínuna. Hannes virtist hafa bjargað sér fyrir horn, því ekki var að sjá að boltinn hefði allur farið yfir línuna, en dómararnir voru á öðru máli og staðan því 1-0 í hálfleik.

Hörður Björgvin Magnússon skallar boltann.VÍSIR/VILHELM

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði fór af velli í hálfleik og Mikael Anderson kom inn á í hans stað.

Hafi fyrri hálfleikur endað illa var byrjunin á seinni hálfleik engu skárri, því Danir fengu þá auðvelt mark eftir að íslenska liðið fjölmennti í vítateig Dana til að nýta langt innkast. Christian Eriksen slapp aleinn nánast frá eigin vítateig, alveg að marki Íslands, og skoraði framhjá Hannesi.

Íslenska liðið var aldrei líklegt til að svara fyrir sig eftir þetta, og hvað þá eftir að Skove skoraði þriðja markið með frábæru skoti af vítateigslínunni.

Eftir stórgóða frammistöðu gegn Rúmeníu mátti íslenska liðið sín lítils gegn Dönum í kvöld. Þessari landsleikjatörn lýkur svo með leik við eitt albesta landslið heims, það besta samkvæmt FIFA, Belgíu á miðvikudag. Breytingar verða á íslenska hópnum fram að því og einhverjir munu fá tækifæri til að sýna að þeir eigi heima í liðinu sem mætir svo Ungverjalandi í úrslitaleik um sæti á EM, 12. nóvember.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira