Sport

„Stígum varlega til jarðar en okkur er mikið í mun að halda úti starfinu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Orri Hlöðversson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks í viðtali.
Orri Hlöðversson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks í viðtali. vísir/skjáskot

Orri Hlöðversson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir að mikið mæði á félaginu næstu vikur að reyna halda úti sem bestu starfi.

Íþróttafélögin hafa mörg hver fellt niður æfingar vegna kórónuveirunnar en Orri segir að Blikarnir munu taka stöðuna á morgun vegna veirunnar.

„Við þurfum eins og aðrir rekstaraðilar að huga að okkar starfsemi. Við gerum það frá degi til dags eins og allir aðrir. Við þurfum klárlega að gera ráðstafanir með okkar ungmenni,“ sagði Orri við Guðjón Guðmundsson í Fífunni í dag.

„Við byrjum morgundaginn á því að slá allar æfingar af og það verður starfsdagur í félaginu þar sem farið verður yfir það hvernig hægt verði að halda þjónustunni uppi í framhaldinu. Síðan verður ástandið metið frá degi til dags eftir því sem líður á vikuna.“

Orri segir að það sé mikilvægt að börnin hafi í eitthvað að leita, sér í lagi ef skólarnir verði með skertu sniði.

„Það er okkur mjög mikilvægt að halda sambandinu við krakkana og það er ekki á það bætandi ef skólahald skerðist að íþróttirnar detti niður líka. Við erum meðvituð um okkar ábyrgð og áhættuna sem því fylgir að gera hlutina ekki rétt.“

„Við erum í einu og öllu að reiða okkur á það sem stjórnvöld eru að segja okkur að gera. Íþróttahreyfingin í Kópavogi er líka í sambandi og við stígum varlega til jarðar en okkur er mikið í mun að halda úti starfinu.“

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Formaður Breiðabliks ræðir um veiruna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×