Tónlist

Siglósveitin sigraði og hlakkar til að mæta í skólann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir áður en þeir stigu á svið og slógu í gegn. Frá vinstri eru þeir Hörður Ingi, Júlíus, Mkael og Tryggvi.
Strákarnir áður en þeir stigu á svið og slógu í gegn. Frá vinstri eru þeir Hörður Ingi, Júlíus, Mkael og Tryggvi. Aðsend

Það er óhætt að segja að íbúar á Tröllaskaga og þá sér í lagi Siglfirðingar séu að rifna úr stolti ef marka má viðbrögð á samfélagsmiðlum. Fulltrúar Menntaskólans á Tröllaskaga komu, sáu og sigruðu í Söngkeppni framhalsskólanna sem fram fór í Ríkissjónvarpinu í kvöld.

Hörður Ingi Kristjánsson, Mikael Sigurðsson og tvíburabræðurnir Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir slógu í gegn með flutningi sínum á lagi John Mayer, I'm gona find another you.

Þeir áttu aldeilis ekki von á sigri í keppninni.

Nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga geta verið stoltir af sínum fulltrúum.Héðinsfjörður.is

„Nei, alls ekki. Þegar var búið að tilkynna þriðja sætið og annað sætið vorum við að fara að leggja frá okkur hljóðfærin,“ segir Tryggvi merkilega yfirvegaður þrátt fyrir rússíbanareið kvöldsins. 

Að neðan má sjá sveitina, sem fékk tímabundið hið minnsta nafnið Ástarpungarnir í kvöld, flytja lagið í Siglufjarðarkirkju á dögunum.

Strákarnir voru þó fljótir að setja aftur á sig hljóðfærin, hendast á svið og flytja sigurlagið aftur eins og hefð er fyrir.

Dagmar Lilja úr Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu hafnaði í öðru sæti. Hún söng lagið The Way We Were eftir Marvin Hamlisch og Alan og Marilyn Bergman. Sigríður Halla úr Menntaskólanum í Reykjavík varð í þriðja sæti. Hún flutti lagið When the Party's Over sem upprunalega var flutt af Billie Eilish.

Engir áhorfendur í sal og minna stress

Tryggvi segir fjórmenningana góða félaga sem kynntust ungir að árum á Siglufirði. Þeir sækja Menntaskólann á Tröllaskaga á Ólafsfirði og hafa spilað mikið saman undanfarin ár. Kom fram hér og þar þótt sviðið í kvöld hafi líklega verið þeirra stærsta til þessa.

Dómarar voru greinilega sáttir við flutninginn og Tryggvi segir hann hafa gengið mjög vel.

„Það hjálpaði örugglega að það voru engir áhorfendur og því minna stress. Það gekk bara allt frábærlega.“

Ýmislegt skemmtilegt með Þorvaldssonum má finna á YouTube, á borð við þessa ábreiðu af Enginn eins og þú.

Gítar í afmælisgjöf

Strákarnir eru allir á sautjánda aldursári og hafa spilað á hljóðfæri síðan þeir byrjuðu í skóla.

„Við höfum allir æft síðan við komumst í snertingu við hljóðfæri,“ segir Tryggvi. Þeir bræðurnir hafi sömuleiðis verið látnir prófa selló en gítar, sem þeir fengu í afmælisgjöf þriggja ára gamlir, hafi heillað þá meira.

Hann lýsir Siglufirði sem miklum tónlistarbæ sem nýtur greinilega góðs af Tónlistarskólanum á Tröllaskaga sem er í bænum.

„Það er mjög mikið tónlistarlíf og hefur alltaf verið. Auðvitað íþróttir líka en tónlistin verður alltaf að vera með.“

Hér syngja Þorvaldssynir Markmiði náð í Músíktilraunum í fyrra.

Vel heppnuð helgarferð

Vinirnir eru aðdáendur tónlistar Johns Mayers og völdu lagið af því vel í aðdraganda keppninnar. Það lá því beint við. Þeir gista í Reykjavík í nótt hjá föður sínum en svo er það bíltúr norður á morgun.

„Þetta er bara helgarferð. Svo er bara skóli á mánudaginn,“ segir Tryggvi. Kórónuveiran tröllríður öllu þessi misserin en á Tröllaskaga geta krakkarnir þó mætt í skólann sem stendur.

„Við fáum að mæta eins og staðan er í dag,“ segir Tryggvi og viðurkennir að það verði líklega skemmtilegra að mæta í skólann þennan mánudaginn en aðra mánudaga.

Hér syngja bræðurnir Líttu sérhvert sólarlag árið 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×