Heimsmarkmiðin

Þrjú ár liðin frá flótta Róhingja frá Mjanmar

Heimsljós
UNICEF/Patrick Brown

Antonío Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir nauðsynlegt að grafast fyrir um rætur átakanna sem leiddu til þess að hundruð þúsunda Róhingja neyddust til að flýja ofbeldi og útskúfun í Mjanmar. Í gær voru þrjú ár liðin frá því flóttamannastraumurinn hófst. Flestir flóttamanna fengu inni í Cox Bazar flóttamannabúðunum í Bangladess þar sem þeir hafa búið við þröngan kost og nýjar áskoranir á tímum kórónuveirunnar. Guterres kallar eftir því að staða Róhingja fái meiri athygli.

„Róhingjar hafa sýnt ótrúlega seiglu í útlegðinni í Bangladess,“ segir Jean Geogh svæðisstjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Suður-Asíu. „Þrátt fyrir ólýsanlega erfiðar aðstæður, sem hafa versnað vegna monsúnrigninga og heimfaraldurs, halda þessar fjölskyldur áfram að kenna okkur hvað styrkur, hugrekki og þrautseigja merkja.“

UNICEF vekur athygli á því að COVID-19 raski lífi rúmlega 460 þúsund Rohingya flóttabarna sem búa flóttamannabúðunum. Skólum hefur verið lokað frá því í mars eins og hvarvetna í Bangladess. Af hálfu UNICEF og fleiri samtaka hefur verið reynt að styðja við heimanám eins og kostur er með hvatningu til foreldra og forráðamanna, auk þess sem náms- og vinnubókum er dreift til barna.

Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að 77% barna höfðu fengið einhverja kennslu heima. Þá hafa sjálfboðaliðar, kennarar úr hópi Róhingja, gegnt aðalhlutverki í sóttvarnafræðslu til íbúa í Cox Bazar.

Um 900 þúsund Róhingjar búa í yfirfullum búðunum í Bangladess, án ríkisfangs, án menntunar, án ferðafrelsis og mjög takmarkaðrar heilbrigðisþjónustu.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×