Körfubolti

Ekkja Kobe Bryant algjörlega niðurbrotin vegna frétta af myndum sem voru teknar á slysstaðnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vanessa Bryant missti eiginmann sinn og þrettán ára dóttur í þyrluslysinu. Hér er hún á minningarhátíðinni um feðginin.
Vanessa Bryant missti eiginmann sinn og þrettán ára dóttur í þyrluslysinu. Hér er hún á minningarhátíðinni um feðginin. Getty/Kevork Djansezian

Vanessa Bryant, ekkja Kobe Bryant og móðir hinnar þrettán ára gömlu Gianni Bryant, fékk enn eitt áfallið þegar fréttist af myndum sem voru teknar á slysstaðnum þar sem þyrla með Kobe, Giönnu og sjö öðrum fórst.  

Vanessa Bryant er sögð algjörlega niðurbrotin yfir þeim fréttum að einhverjir lögreglumenn á staðnum hafi tekið myndir af aðstæðum á slysstað og af fórnarlömbunum eftir slysið. Los Angeles Times sagði frá þessu og að þessir lögreglumennirnir hafi síðan verið uppvísir að því að sýna þessar myndir á börum.

Lögreglan á svæðinu skipaði sínum mönnum að eyða þessum myndum eftir að fréttist af því að borgari hafi kvartað undir að hafa séð þessar myndir hjá einhverjum þeirra á bar.



Gary Robb, lögfræðingur Vanessu Bryant, sagði frá því að skjólstæðingur sinn hafi farið til lögreglunnar 26. janúar, sjálfan slysdaginn, og beðið um það að slysstaðurinn yrði lokaður af og komið í veg fyrir allar myndatökur.

„Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir hana því hún þráði að passa upp á virðingu þeirra sem fórust og þeirra fjölskyldna. Á þeim tíma fullvissaði lögreglustjórinn Alex Villanueva að allt yrði gert til þess að passa upp á einkalíf fjölskyldnanna. Eftir okkar bestu vissu þá vann hann duglega að því að efna þau loforð,“ sagði Gary Robb, lögfræðingur Vanessu Bryant.



Gary Robb sagði enn fremur að sá sem hafi deilt þessum myndum af brotið á ólýsanlegan hátt á velsæmi, virðingu og einkalífi fórnarlambanna og þeirra fjölskyldna.

Hann kallaði eftir því að þeir sem hlut eiga að máli megi þola hörðustu refsingar í boði sem og að þeir verði nafngreindir um leið og að passa upp á það að þessar myndir berist ekki víðar.

Vanessa Bryant hefur stefnt eiganda þyrlunnar sem fórst og tók með sér líf eiginmanns hennar og dóttur. Í þeirri stefnu kemur fram að flugmaðurinn Ara Zobayan af sýnt kæruleysi og vanrækslu með því að fljúga í þoku og hefði átt að hætta við flugi. Zobayan fórst með þyrlunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×