Heimsmarkmiðin

Konur eru ekki frávik frá reglu karlmanna

Heimsljós kynnir
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ætlar að berjast fyrir jafnrétti síðustu tvö árin í embætti.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ætlar að berjast fyrir jafnrétti síðustu tvö árin í embætti.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur heitið því að beita persónulegum áhrifum sínum í þágu jafnréttis kynjanna, þar á meðal til höfuðs lögbundinni kynferðislegri mismunun, fyrir þátttöku kvenna í friðarviðleitni og að tekið verði tillit til ólaunaðra starfa á heimilum í reikningi þjóðarframleiðslu.

Að sögn upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) flutti aðalframkvæmdastjórinn ræðu um þemað „Konur og vald” í háskóla í New York. António Guterres, sem á tvö ár eftir í embætti, kvaðst nota þann tíma til að „dýpka persónulega skuldbindingu mína til þess að vekja athygli á og vinna í þágu jafnréttis kynjanna í öllu okkar starfi.”

Guterres kvaðst persónulega ætla að hafa samband við ríkisstjórnir sem bera ábyrgð á lagasetningu, sem felur í sér mismunun, til að tala máli breytinga.

Einnig kvaðst hann munu beita áhrifum Sameinuðu þjóðanna í því skyni að konur hafi jafn marga fulltrúa og karlar í friðarferlum.

„Þá mun ég beita mér fyrir því að þjóðarframleiðsla taki tillit til velfarnaðar og sjálfbærni og að ólaunuð heimilisstörf verði metin að verðleikum,” sagði Guterres. „Ég er staðráðinn í að binda enda á þá hugsun að karlmaðurinn sé skapalón alls innan Sameinuðu þjóðanna. Við erum samtök sem byggjum mjög á tölfræði og það er þýðingarmikið að gengið sé út frá því að karlar séu ekki reglan og konur frávik.”

Guterres lauk ræðu sinni með því að segja: „Jafnrétti kynjanna snýst um völd; völd sem karlar hafa notið einir um árþúsundir. 21. öldin á að vera öld jafnréttis kvenna. Við skulum öll leggja okkar lóð á vogarskálarnar.“ 

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×