Heimsmarkmiðin

Óttast um líf barna í Simbabve

Heimsljós kynnir
Ljósmynd frá Simbabve.
Ljósmynd frá Simbabve. Save the Children

Lífsbarátta almennings í Simbabve er komin á það stig að samtökin Barnaheill – Save the Children óttast um líf barna. Samtökin segja að mikill matarskortur í landinu hafi leitt til þess að börn fái almennt einungis eina máltíð á dag og mörg þeirra þurfi að ganga klukkustundum saman til að sækja drykkjarvatn. „Án meiriháttar alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar komum við til með að horfa upp á börn deyja eftir því sem fjölskyldur þurfa að leggja harðar að sér til að þrauka,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Að minnsta kosti 7,7 milljónir íbúa landsins, jafnt til bæja og sveita, búa við alvarlegan matarskort, þar af eru 3,8 milljónir sveltandi barna sem þurfi skjótan stuðning. Samkvæmt frétt Save the Children ræða foreldar um að taka börn úr skóla til að vinna eða vegna þess að skólagjöldin eru þeim ofviða. Einnig er rætt um að gefa dætur í hjónaband til efnaðri fjölskyldna. Þá hafa margar fjölskyldur fækkað máltíðum, selt búpeninginn eða aðrar eignir, og sumar hafa tekið sig upp og haldið út í óvissuna til annarra landa.

Af hálfu Save the Children er unnið að greiningu á aðstæðum í landinu til að fá enn greinarbetri mynd af stöðunni. Ljóst er þó að vandinn er víðtækur og sá alvarlegasti frá árinu 2008. Ástæðurnar eru af ýmsum toga, mikill fjárskortur ríkisins, ógnvekjandi skuldir, mikið atvinnuleysi og sífellt hækkandi verð á vörum og þjónustu. Þá er verðbólga hvergi í heiminum hærri en í Simbabve.

Save the Children hvetja framlagsríki og alþjóðasamfélagið til þess að bregðast strax við bágum aðstæðum íbúa Simbabve áður en þær breytast í neyðarástand.

Vefur Barnaheilla   

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×