Tónlist

Hildur Guðnadóttir vann BAFTA-verðlaun

Sylvía Hall skrifar
Hildur Guðnadóttir á rauða dreglinum í kvöld.
Hildur Guðnadóttir á rauða dreglinum í kvöld. Vísir/EPA

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir heldur áfram að sópa til sín verðlaunum. Í kvöld vann hún BAFTA-verðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni um Jókerinn.

BAFTA-verðlaunin eru afhent af bresku kvikmyndaakademíunni og þykja afar eftirsóknarverð. Sigur Hildar í kvöld ýtir enn frekar undir þær vonir að hún beri sigur úr býtum á Óskarsverðlaununum þar sem hún er einnig tilnefnd fyrir tónlist sína í kvikmyndinni. 

Þetta eru þriðju stóru verðlaunin sem Hildur vinnur í ár en hún hefur nú þegar unnið Golden Globe fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker og Grammy-verðlaun fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl. Hún var önnur konan til þess að hljóta Golden Globe-verðlaun fyrir frumsamda kvikmyndatónlist og sú fyrsta til þess að gera það ein.

Líkt og fyrr sagði er Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni um Jókerinn og er þar með sjöundi Íslendingurinn til að fá tilnefningu. Jóhann Jóhannsson fékk tilnefningar árin 2015 og 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario. Jóhann og Hildur unnu mikið saman á sínum tíma.

Óhætt er að segja að Hildur sé á mikilli sigurgöngu um þessar mundir. Fari svo að Hildur vinni Óskarsverðlaun verður hún fyrsti Íslendingurinn til þess að hljóta þann heiður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×