Heimsmarkmiðin

Ákall um aðstoð við 48 milljónir kvenna og stúlkna

Heimsljós kynnir
UNFPA

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) birti í gær ákall til alþjóðasamfélagsins um þörf fyrir rúmlega 87 milljarða króna framlag til að bregðast við brýnni neyð í tengslum við kyn- og frjósemisréttindi 48 milljóna kvenna, stúlkna og ungmenna. Í þeim hópi eru 4 milljónir barnshafandi kvenna á hamfarasvæðum í 57 þjóðríkjum, ýmist vegna vopnaðra átaka eða náttúruhamfara.

Í ákallinu – sem kallast UNFPA´s Humanitarian Action Overview – er því lýst hvernig konur og stúlkur glíma við einstæðan vanda á hamfarasvæðum, ekki síst með tilliti til fylgikvilla á meðgöngu og við fæðingu sem geta orðið banvænir, og aukinnar hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi. Mannfjöldasjóðurinn segir í skýrslunni að á heimsvísu deyi margar konur á hamfarasvæðum í tengslum við meðgöngu og fæðingu, eða um helmingur allra kvenna sem látast af barnsförum. UNFPA hyggst í framhaldi af ákallinu veita lífsbjargandi þjónustu á sviði kyn- og frjósemisréttinda, berjast gegn kynbundnu ofbeldi og veita sálfélagslegan og andlegan stuðning þar sem neyðin er mest.

„Það er dýrkeypt fyrir konur og stelpur að vera í miðju átaka sem þær áttu engan þátt í að valda. Tímabært er að forgangsraða með því að setja réttindi þeirra, öryggi og virðingu í öndvegi í öllum mannúðaraðgerðum. Konur hætta ekki að verða barshafandi og eignast börn þótt hamfarir verði og við verðum að veita þeim þá þjónustu og þann stuðning sem þær þurfa,“ segir Natalia Kanem framkvæmdastjóri UNFPA.

Á þessu ári stendur heimurinn frammi fyrir gífurlegum áskorunum í mannúðarmálum: einn af hverjum 45 jarðarbúum býr á hamfarasvæðum. Talið er á þessari stundu þurfi rúmlega 168 milljónir manna á mannúðaraðstoð að halda. Mannfjöldasjóðurinn er meðal annars að störfum í Bangladess, Venesúela, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Suður-Súdan. Á síðasta ári veitti sjóðurinn 19 milljónum einstaklinga aðstoð í 64 þjóðríkjum.

Utanríkisráðuneytið styrkir starfsemi UNFPA, meðal annars með framlagi til verkefna í Sýrlandi, Jemen og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa um árabil veitt framlög til sameiginlegs verkefnis sjóðsins og UNICEF í baráttunni gegn limlestingum á kynfærum kvenna og stúlkna.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×