Íslenski boltinn

Notuðu ólöglegan leikmann í 7-0 tapi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnlaugur Hlynur Birgisson í leik með Víkingi en hann er ekki búinn að skipta yfir í Þrótt.
Gunnlaugur Hlynur Birgisson í leik með Víkingi en hann er ekki búinn að skipta yfir í Þrótt. Vísir/Bára

Karlalið Þróttar R. var ólöglega skipað í leik gegn Fjölni í Reykjavíkurmóti karla en þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.

Gunnlaugur Hlynur Birgisson lék með Þrótti R. í leiknum en hann er skráður í Víking R.

Félag, sem notar leikmann sem ekki hefur keppnisleyfi með því eða notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni, telst hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3 nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða.

Þróttur tapaði leiknum 7-0 og því standa úrslitin í leiknum. Hallvarður Óskar Sigurðarson (2), Arnór Breki Ásþórsson, Jóhann Árni Gunnarsson, Jón Gísli Ström, Hans Viktor Guðmundsson og Torfi Tímoteus Gunnarsson skoruðu mörk Grafarvogsliðsins

Gunnlaugur Hlynur Birgisson var í byrjunarliðinu hjá Þrótti en hann var tekinn af velli í hálfleik en þá var staðan orðin 2-0 fyrir Fjölnismenn.

Samkvæmt reglum KSÍ um knattspyrnumót segir í grein 40.1:

Lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks og félag sem notar leikmann í leikbanni, telst hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3 nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða. Félag sem notar þjálfara eða forystumann sem er í leikbanni skal sæta sektum og viðkomandi frekara leikbanni í samræmi við ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar. Lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks, skal sæta sekt að upphæð allt að kr. 50.000. Félag, sem notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni, skal sæta sektum að upphæð allt að kr. 300.000 sé brotið framið í meistaraflokki. Sé brotið framið í öðrum flokkum skal sektin vera allt að kr. 50.000.

Í samræmi við ofangreinda reglugerð er Þróttur R sektað um kr. 25 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×