Fernandes sá eini sem kom boltanum framhjá frábærum markverði FCK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes skorar eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
Bruno Fernandes skorar eina mark leiksins úr vítaspyrnu. getty/Federico Gambarini

Bruno Fernandes tryggði Manchester United sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar þegar hann skoraði eina mark leiksins gegn FC Kobenhavn í Köln í kvöld. Markið kom úr vítaspyrnu í upphafi framlengingar.

United fékk nóg af færum í leiknum en Karl-Johan Johnsson, marvörður FCK, átti stórkostlegan leik og varði allt sem á markið kom, nema vítaspyrnu Fernandes.

Danirnir léku vel í fyrri hálfleik sem var frekar bragðdaufur. Mason Greenwood skoraði undir lok hans en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Seinni hálfleikurinn var mun fjörugri. Greenwood og Bruno Fernandes áttu báðir skot í stöng fyrir United og Johnsson varði vel frá Anthony Martial.

Bryan Oviedo fékk fínt færi fyrir FCK eftir stórkostleg tilþrif Rasmus Falk en skot hans fór í Aaron Wan-Bissaka.

United byrjaði framlenginguna af krafti. Martial komst í dauðafæri á 94. mínútu en Johnsson varði vel. Juan Mata, sem var nýkominn inn á sem varamaður, kom svo boltanum á Martial sem féll í teignum og Clément Turpin benti á punktinn. Fernandes skoraði af öryggi úr vítinu, sitt ellefta mark fyrir United.

Skömmu síðar komst Mata í dauðafæri eftir frábæran sprett Martials en Johnsson varði enn eina ferðina. Sænski markvörðurinn varði einnig vel frá Fernandes og aftur frá Mata. Victor Lindelöf átti einnig skot í stöng.

Johnsson varði alls þrettán skot í leiknum á meðan Sergio Romero átti afar náðugan dag í marki United.

Enginn markvörður hefur varið fleiri skot í einum leik í Evrópudeildinni en Johnsson síðan 2009.

Fleiri urðu mörkin ekki og United fagnaði torsóttum sigri og sæti í undanúrslitunum.

United mætir annað hvort Wolves eða Sevilla í undanúrslitunum eftir viku. Þau mætast í Duisburg annað kvöld.

Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Evrópudeildinni á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Köln 21. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira