Lífið

Hollensk Euro­vision-stjarna flutti Husa­vik af inn­lifun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Edsilia Rombley tók þátt í Eurovision fyrir hönd Hollands árið 2007.
Edsilia Rombley tók þátt í Eurovision fyrir hönd Hollands árið 2007. Skjáskot/Youtube

Hollenska Eurovision-stjarnan Edsilia Rombley flutti á dögunum lagið Husavik úr Eurovision-kvikmynd Wills Ferrells á sviði í Rotterdam. Hluti lagsins er á íslensku og fór framburðurinn Rombley nokkuð vel úr hendi.

Lagið Husavik hefur notið mikilla vinsælda eftir að kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var frumsýnd á streymisveitunni Netflix í júní. Lagið er ástaróður til Húsavíkur og er þar meðal annars sungið á íslensku: „Vera með þér, í Húsavík við Skjálfanda, í heimabærinn minn“. Flytjendur lagsins í myndinni eru aðalleikarinn Will Ferrell og hin sænska Molly Sandén, sem ljær karakter Rachel McAdams söngrödd sína.

YouTube-rás Netflix í Hollandi og Belgíu birti í dag myndband af laginu í flutningi Edsiliu Rombley, hollenskrar söngkonu sem tók þátt í Eurovision fyrir hönd þjóðar sinnar árið 2007. Rombley þessi átti jafnframt að vera kynnir keppninnar í Rotterdam nú í maí. Ekkert varð úr kynnastörfunum, að minnsta kosti í bili, þar sem Eurovision var aflýst vegna kórónuveirunnar, líkt og Íslendingum er flestum kunnugt. Framlag Rombley í Eurovision á sínum tíma má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Rombley flytur Husavik af mikilli innlifun á sviðinu í Rotterdam og á ekki í miklum erfiðleikum með íslenska hreiminn, sem hefur hingað til vafist fyrir mörgum sem spreyta sig á laginu. Nokkuð vantar þó upp á framburð hennar á „Skjálfanda“ en í meðförum Rombley verður hann að því sem útleggst gæti sem „Skjaldarna“.

Kröftugan flutning Rombley á laginu Husavik má hlýða á í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Lagahöfundur í Eurovision-myndinni vill senda lag í Söngvakeppnina

Arnþór Birgisson, sem samdi ásamt öðrum lagið Double Trouble, sem flutt var í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, segir það hafa verið tilviljun að sænska söngkonan Molly Sandén, sem syngur fyrir persónu Rachel McAdams í myndinni, hafi verið fengin í hlutverkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.