Atvinnulíf

„Áskorun að skapa sextíu þúsund ný störf“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Margrét Kristín Sigurðardóttir samskiptastjóri Samtaka Iðnaðarins.
Margrét Kristín Sigurðardóttir samskiptastjóri Samtaka Iðnaðarins. Vísir/Vilhelm

Þegar Samtök iðnaðarins (SI) boðuðu í ársbyrjun að árið 2020 yrði helgað nýsköpun, óraði engum fyrir því að heimsfaraldur væri framundan sem á ógnarhraða myndi setja atvinnulífið á hliðina um allan heim. Margrét Kristín Sigurðardóttir samskiptastjóri SI ritstýrði á dögunum tímariti sem samtökin gáfu út og helgað er nýsköpun. Þar er rætt við ýmsa forsvarsmenn nýsköpunar, fjárfesta, frumkvöðla og forstjóra rótgróinna fyrirtækja og fleiri. „Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að skapa sextíu þúsund ný störf hér á landi fram til ársins 2050 líkt og kemur fram í grein aðalhagfræðings SI í tímaritinu þá er ekkert annað í boði en að virkja hugvitið enn frekar og setja meiri kraft í nýsköpun af hvaða toga sem er,“ segir Margrét meðal annars um útgáfuna og þema SI um nýsköpun. Hún segir markmið útgáfunnar að vekja athygli á hvað hægt er að ná fram með nýsköpun, hvort heldur sem er í nýstofnuðum sprotafyrirtækjum eða fyrirtækjum sem hafa verið rekin í marga áratugi.

„Það má segja að Ísland sé á nokkurskonar krossgötum og okkur sýnist að leiðin fram á við sé nýsköpun, því með því að styðja við umgjörð og hvata til nýsköpunar hvort heldur er í nýjum eða rótgrónum fyrirtækjum eflum við samkeppnishæfnina,“ segir Margrét og bætir við „Þó framtíðin sé óskrifað blað getum við haft heilmikil áhrif með þeim ákvörðunum sem við tökum núna og þess vegna finnst okkur mikilvægt að leggja tímaritið fram í umræðuna einmitt á þessum tímapunkti.“

Umrætt tímarit er gefið út í 2.200 eintökum sem dreift var til félagsmanna SI. Í blaðinu eru viðtöl við fólk í nýjum atvinnugreinum eins og tölvuleikjaiðnaði, gagnaversiðnaði og líftækni. Eins er rætt við aðila stunda nýsköpun í rótgrónari iðnaði, líkt og matvælaiðnaði, framleiðsluiðnaði, áliðnaði og byggingariðnaði.

Hvað fannst þér standa upp úr í því sem fram kom hjá viðmælendum blaðsins?

„Það er til dæmis áhugavert viðtalið við Ágústu Guðmundsdóttir hjá líftæknifyrirtækinu Zymetech en fyrirtækið nýtir meltingarensím úr þorski og hefur einkaleyfi á PreCold gegn kvefi og Penzim húð- og snyrtivörum. Ágústa segir að Íslendingar séu í eðli sínu framtakssamir, frjóir í hugsun og skapandi en sumir mikli fyrir sér stofnun fyrirtækis. Hún er þeirrar skoðunar að við eigum að vera óhrædd við að sækja annað með þá þætti sem okkur vantar í nýsköpunarumhverfið til að komast alla leið því aðalatriðið sé jú að ná árangri. Hennar fyrirtæki hefur sem dæmi sameinast sænsku líftæknifyrirtæki en með því varð til þekking til að koma lækningavörunum á alþjóðamarkað og hefur auðveldað hraðari vöxt fyrirtækisins,“ segir Margrét.

Þá nefnir hún áhugaverð sjónarmið Þórðar Magnússonar, stjórnarformanns fjárfestingasjóða Eyris sem eru með um 10 milljarða króna fjárfestingar í 15 ólíkum sprotafyrirtækjum.

Þórður segir hlutverk sjóðanna oft vera hálfgert foreldrahlutverk og að hans reynsla sé sú að frumkvöðullinn sé ekki alltaf endilega best til þess fallinn að leiða fyrirtækið áfram í vexti þó að frumkvöðullinn gegni vitaskuld mikilvægu hlutverki,“ 

segir Margrét og upplýsir að hjá Eyri sé fjárfest í sprotafyrirtækjum þar sem ætlunin er að gera heiminn betri með einhverjum hætti. Eyrir miði þar við sjö þemu sem tengjast breytingum sem eru að eiga sér stað, til dæmis í umhverfisvernd eða lýðheilsu enda samfélög að eldast.

Margrét segir líka áhugavert að heyra í þeim fyrirtækjum sem eru rótgróin en stöðugt í nýsköpun. Nefnir hún þar sem dæmi viðtal við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, en hann segir frá því að verðmætasta vara Ölgerðarinnar sé kolsýrt vatn sem engan óraði fyrir snemma á tíunda áratugnum að yrði. Drykkurinn Kristall kom þá á markað og gefur Andri Þór meðal annars þau ráð í viðtalinu að fyrirtæki sem starfa í nýsköpun og vöruþróun þurfi að þora að taka áhættu og gera sér grein fyrir að stundum verða mistök.

Margrét nefnir líka Hampiðjuna sem dæmi um rótgróið fyrirtæki í nýsköpun en í viðtali við Hjört Erlendsson, forstjóra Hampiðjunnar segir Hjörtur meðal annars að með fjárfestingu í vöruþróun hafi fyrirtæki sem stofnað var árið 1934 náð að vaxa gríðarlega en starfsemi Hampiðjunnar fer nú fram í 15 löndum. Að mati Hjartar er beinn stuðningur við frumkvöðla skilvirkasta leiðin en hann bendir þó á í sínu viðtali að passa þurfi að fjármagnið í sjóðum sem ætlað er nýsköpun, fari í þróun hugmynda en ekki í kostnað vegna utanumhalds sjóðanna.

Margrét segir nýútkomið tímarit SI um nýsköpun ágætis sumarlesningu.Vísir/Vilhelm

En var einhver rauður þráður í máli forsvarsmanna nýsköpunar, til dæmis hvað væri erfiðast eða hverju þyrfti helst að breyta til að virkja nýsköpun?

„Það er mörgum tíðrætt um mikilvægi þess að stjórnvöld skapi þannig umgjörð að það sé hvetjandi að stunda rannsóknir og þróun auk þess sem tryggja þurfi aðgengi að fjármagni á mismunandi vaxtastigum fyrirtækja,“ svarar Margrét og bendir til dæmis á að í viðtali við Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, komi fram hans skoðun á því að ekki eigi að vera þak á endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Það þak var nýlega hækkað í 1,1 milljarð króna en að sögn Hilmars eru stór nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP, Össur og Marel að stunda rannsóknir og þróun fyrir margfalt þá upphæð.

,,Þá er áhugavert sjónarmið Katrínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, sem segir að umhverfi frumkvöðla á Íslandi megi stórlega bæta. Hún nefnir til dæmis að auðvelda þurfi þeim aðgengi að fjármagni og veita þeim stuðning við þróun. Þá finnst hennir að efla eigi samband milli menntastofnana og atvinnulífs og þannig koma góðum hugmyndum í farveg. 

Katrínu finnst samstarfsaðilar og fjármagn það mikilvægasta fyrir frumkvöðla sem eru að hefja sína vegferð því annars sé hætt við að fólk gefist upp á miðri leið og þá geti góðar hugmyndir farið í súginn,“ 

segir Margrét.

Hún bætir líka við áhugaverðum punktum úr viðtali við Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur stofnanda Florealis sem segir að til þess að allt gangi upp þurfi líka „smá dass af heppni“.

„Florealis er gott dæmi um sambland af slíkri heppni og þrautseigju frumkvöðulsins,“ segir Margrét og bætir við „Sömuleiðis segir Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar tveggja stofnanda GeoSilica sem framleiðir náttúruleg fæðubótarefni, að lykillinn að árangri í nýsköpunargeiranum sé þrautseigja, að gefast ekki upp. Þetta sé langhlaup og það sé eðlilegt að fá tíu eða fleiri nei áður en það komi verðskuldað já.“

Margrét segir að ýmislegt sé enn framundan hjá SI í tilefni af Ári nýsköpunar. Til að mynda verður afhending á Vaxtarsprotanum seinna í sumar þar sem sprotafyrirtæki sem ná mestri aukningu í veltu á milli ára fá viðurkenningu. ,,En einnig ætlum við að taka upp þráðinn á Iðnþingi samtakanna í september og fjalla þar um nýsköpun og stöðuna í efnahagslífinu,“ segir Margrét.

Rafræna útgáfu af tímariti SI má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×