Viðskipti innlent

World Class fækkar plássum í hóp­tímum

Atli Ísleifsson skrifar
World Class Laugar og Laugardalslaug.
World Class Laugar og Laugardalslaug. Vísir/Vilhelm

Líkamsræktarkeðjan WorldClass mun fækka þeim plássum sem eru í boði í hóptímum frá og með deginum í dag.

Björn Leifsson, stofnandi og framkvæmdastjóri World Class, segir þessa ákvörðun hafa verið tekna í gærkvöldi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann segir ekki standa til að loka stöðvum, en að sjálfsögðu verði farið að fyrirmælum yfirvalda, komi til samkomubanns.

Norskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að Sats, stærsta líkamsræktarkeðja Norðurlanda, muni loka stöðvum sínum næsta hálfa mánuðinn vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Verji sig svolítið sjálft

Björn segir ástandið nú vera mjög alvarlegt. „Við höfum gripið til ráðstafana eins og með sótthreinsanir, spritt, klúta og annað slíkt. En ég held að þetta verji sig nú svolítið sjálft í stöðvunum hjá okkur þar sem við höfum nú þegar séð 20 prósent fækkun, sem þýðir það að þeir sem eru í áhættuhóp halda sig heima.“

Björn segir að WorldClass muni að sjálfsögðu fara að fyrirmælum yfirvalda, verði komið á samkomubanni. „En við förum ekkert að loka sjálf fyrr en og ef að því kemur.“

Fækka í hóptímum

Björn segir að ákvörðun hafi verið tekin í gærkvöldi að fækka skráningum í tímum. Muni viðskiptavinir taka eftir því á skráningarsíðunni að færri pláss séu til skiptanna. 

„Þannig minnkar til dæmis skráning í venjulegum hóptímasölum úr fimmtíu í niður fjörutíu og annað slíkt. Annars erum við eins og aðrir og fylgjumst bara með og erum á tánum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×