Íslenski boltinn

Segir að liðin fái væntanlega 2-3 vikur til að undirbúa sig fyrir Íslandsmótið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðni afhendir Valskonum Íslandsmeistarabikarinn í fyrra.
Guðni afhendir Valskonum Íslandsmeistarabikarinn í fyrra. vísir/daníel

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vonast til að keppni á Íslandsmótinu í fótbolta geti hafist um miðjan júní. Hann segir að liðin fái væntanlega 2-3 vikur til að undirbúa sig fyrir mótið. 

„Ég held það verði hægt að byrja að spila upp úr miðjum júní, í síðari hluta mánaðarins, að öllu óbreyttu,“ sagði Guðni í Sportinu í dag.

Liðin geta hafið æfingar 4. maí en með talsverðum takmörkunum þó. Guðni segir æskilegt að liðin geti æft skipulega í nokkrar vikur áður en keppni á Íslandsmótinu hefst.

„Það eru misjafnar skoðanir á þessu. Við höfum heyrt allt frá tveimur vikum og upp í fimm vikur. Við þurfum að sýna skilning á stöðunni. Ég held við hljótum að horfa til 2-3 vikna af skipulögðum æfingum þegar allt er komið í gang,“ sagði Guðni.

En hvenær þarf tímabilið að hefjast til hægt verði að spila heilt Íslandsmót og bikarkeppnina að auki?

„Við erum í lagi fram undir og í lok júní. Upp úr miðjum júní er mikilvægt að hefjast handa og geta byrjað mótið,“ sagði Guðni og bætti við að keppni á Íslandsmótinu hæfist í miðjum klíðum og leikjunum sem átti að vera lokið verið bætt aftan við tímabilið eða skotið inn á milli.

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×