Lífið

Ís­lands­vinurinn sem dáðist að tvö­­falda regn­­boganum er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Paul L. Vasquez öðlaðist heimsfrægð eftir að hann birti myndbandið af regnbogunum árið 2010.
Paul L. Vasquez öðlaðist heimsfrægð eftir að hann birti myndbandið af regnbogunum árið 2010. Wikipedia/Gage Skidmore

Paul L. Vasquez, maðurinn sem vakti heimsathygli eftir að hann birti myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann dáðist að tvöföldum regnboga, er látinn. Hann varð 57 ára gamall.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Vasquez, sem kallaði sjálfan sig Yosemite-björninn, hafi andast í Kaliforníu á laugardag.

Ekki liggur fyrir hvað dró Vasquez til dauða, en hann hafði áður sagt frá því að hann hafi látið athuga hvort hann hafi smitast af kórónuveirunni fyrir nokkrum vikum, en þá komist að því að hann glímdi við önnur ótilgreind veikindi.

Vasquez tók upp myndbandið, sem er um þrjár mínútur að lengd, á jörð sinni nálægt Yosemite-þjóðgarðinum og birti á YouTube í janúar 2010. Regnbogarnir voru ekki það sem leiddu til þess að tugir milljóna netverja skoðuðu myndbandið, heldur voru það einlæg viðbrögð hans við það að sjá fyrirbærið. „Hvað þýðir þetta allt saman,“ spurði Vasquez í myndbandinu.

Vasquez kom til Íslands skömmu eftir að hann öðlaðist heimsfrægð en hann hafði þá tekið að sér að verða verndari nemendafélags menntaskólans Hraðbrautar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×