Ferðalög

Perlur Íslands: „Ólýsanleg upplifun að ferðast um þetta svæði á skíðum“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Stórbrotin náttúra og langar skíðabrekkur heilla Þóru Tómasdóttur.
Stórbrotin náttúra og langar skíðabrekkur heilla Þóru Tómasdóttur. Mynd/Þóra Tómasdóttir

Fjölmiðlakonan Þóra Tómasdóttir segir að undanfarna vetur hafi sér þótt skemmtilegast að ferðast um landið á skíðum. 

„Sérstaklega á fjallaskíðum eða svokölluðum ferðaskíðum sem eru breið gönguskíði með stálköntum og gera manni kleift að komast hvert sem er í snjó. Þessi ferðamáti sameinar svo margt sem mér finnst skemmtilegt og veitir mér algjöra frelsistilfinningu. Þannig hefur Snæfellsjökull verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því ég fór hann fyrst á fjallaskíðum. Að horfa yfir hafið, eyjarnar í Breiðafirðinum og hina stórbrotnu náttúru Snæfellsness á leiðinni er alveg magnað. Það er líka svo dásamlegt að vera verðlaunaður með langri skíðabrekku eftir að hafa haft fyrir því að koma sér á toppinn.“

Sá ferðamannastaður sem er í mestu uppáhaldi hjá Þóru Tómasdóttur er Tröllaskaginn og nágrenni Siglufjarðar.Mynd/Þóra Tómasdóttir

Í vetur hefur Þóra verið að Undirbúa sig undir að þvera Vatnajökul einn daginn og því farið mjög víða um á ferðaskíðum.

„Það hefur eiginlega komið mér mest á óvart hve stutt þarf að fara út fyrir bæinn til að komast í meiriháttar náttúruupplifanir á skíðunum. Í samkomubanninu vildi maður ekki ferðast langt og uppgötvaði þá hvað Bláfjallahryggurinn og Hellisheiðin eru mögnuð útivistarsvæði. Það var nánast sama hvert farið var um þessi svæði, mér leið eins og uppi á hálendi. Í algjörri auðn og víðáttu en samt bara í 20 mín akstri frá borginni.“

Þóra segir dásamlegt að vera verðlaunaður með langri skíðabrekku.Mynd/Þóra Tómasdóttir

„Sá staður á landinu sem ég elska samt allra mest, er tvímælalaust Tröllaskaginn og nágrenni Siglufjarðar. Ég held að þetta sé fjallaskíðasvæði á heimsmælikvarða. Það er ólýsanleg upplifun að ferðast um þetta svæði á skíðum. Ekki bara er Siglufjörður sætasti bærinn á landinu með geggjuðum veitingastöðum og frábærri menningu heldur er umhverfið allt skíðaparadís langt fram á sumar. Í ár var snjómesti vetur síðan 1995 og er enn útlit fyrir hægt verði að skíða um Tröllaskagann í margar vikur í viðbót.“

Perlur leynast víða á Íslandi og það er ljóst að sumarið 2020 verða Íslendingar á ferð og flugi um alla landshluta. Vísir verður á flakki með landanum í sumar. Veist þú um perlu sem landsmenn ættu ekki að missa af á ferðalagi? Segðu okkur frá og sendu okkur myndir á netfangið ritstjorn@visir.is. Við birtum valdar frásagnir hér á Vísi.


Tengdar fréttir








×