Bíó og sjónvarp

Hvað ætlaði Finn eiginlega að segja við Rey?

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hér sjást Finn og Rey rétt áður en sá fyrrnefndi kveðst nauðsynlega að þurfa að segja þeirri síðarnefndu svolítið.
Hér sjást Finn og Rey rétt áður en sá fyrrnefndi kveðst nauðsynlega að þurfa að segja þeirri síðarnefndu svolítið. IMDB

JJ Abrams, leikstjóri kvikmyndarinnar Star Wars: The Rise of Skywalker, er sagður hafa staðfest það við aðdáendur hvað Finn, annarri söguhetju myndarinnar, lá svo ógurlega á að segja við hina söguhetjuna, Rey, þegar þau höfðu komið sér í ógöngur í byrjun myndarinnar.

Höskuldarviðvörun: Þeir sem hafa ekki horft á nýjustu Stjörnustríðsmyndina og vilja alls ekkert vita um hana þurfa að hætta að lesa strax!

.

.

.



Margir þeirra, sem hafa gert sér ferð í kvikmyndahús yfir jólin og barið Upprisu geimgengilsins augum, hafa eflaust sett spurningamerki við það sem fór áðurnefndum Finn og Rey á milli rétt áður en þau sukku ofan í kviksyndi í einu af fyrstu atriðum myndarinnar. Er þau sökkva segir Finn, sem John Boyega leikur, við Rey, í túlkun Daisy Ridley, að hann verði að segja henni svolítið.

Sjá einnig: Hand­rit nýjustu Stjörnu­stríðs­myndarinnar endaði á eBay vegna kæru­leysis leikara

Finn vill hins vegar ekki fara nánar út í málið þegar þau eru hólpin og neitar aftur að gera grein fyrir ummælum sínum þegar flugmaðurinn Poe Dameron, sem Oscar Isaac leikur, innir hann eftir þeim undir lok myndarinnar. Áhorfendur fá þannig aldrei að vita hvað það var sem Finn lá á hjarta í kviksyndinu.

Aðdáendur voru fljótir að setja fram hinar ýmsu getgátur, sem leyst gætu málið, og Boyega sjálfur kollvarpaði meira að segja einni slíkri. „Nei… Finn ætlaði ekki að segja „ég elska þig“ áður en hann sökk!“ skrifaði leikarinn á Twitter á Þorláksmessu.

Þá virðist raunar sem ráðgátan hafi verið leyst tveimur dögum áður. Kaila Spencer, blaðamaður sem var viðstödd forsýningu á Star Wars: The Rise of Skywalker skömmu fyrir jól, greindi frá því á Twitter að JJ Abrams, leikstjóri myndarinnar, hefði leyst frá skjóðunni í samtölum við áhorfendur.

Finn hefði viljað tjá Rey að hann fyndi sjálfur fyrir „mættinum“ (e. Force) eftirsótta, sem liðsmenn Jedi- og Sith-reglnanna í Stjörnustríðsheiminum búa yfir. Rey er einn af handhöfum máttarins en Finn hafði ekki sýnt slíka tilburði, að minnsta kosti ekki áberandi. Abrams er jafnframt sagður hafa viljað eftirláta áhorfendum málið opið til túlkunar.

Star Wars: The Rise of Skywalker var frumsýnd 16. desember síðastliðinn og þénaði tæpar fjögur hundruð milljónir Bandaríkjadala yfir frumsýningarhelgina. Hún er jafnframt aðsóknarmesta kvikmyndin á Íslandi um þessar mundir, samkvæmt lista á vefsíðunni Kvikmyndir.is.


Tengdar fréttir

Star Wars olli usla í Fortnite

Gífurlegt álag var á vefþjónum hins vinsæla leiks Fornitne í gær þegar sérstakur Star Wars viðburður átti sér stað og sýnt var atriði úr myndinni Star Wars: The Rise of Skywalker.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×