Jól

Með gleðiraust og helgum hljóm

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kynntist Fréttablaðið/Stefán
Kynntist Fréttablaðið/Stefán
Nokkrir góðir söngvarar voru inntir eftir því hver þeirra eftirlætis jólasálmur væri, að undanskildum Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt, sem gera má ráð fyrir að séu ofarlega í hugum allra. 

Egill Ólafsson

Uppáhalds jólasálmurinn er lag sem ég kynntist 17 ára gamall, í söngtímum hjá Engel Lund í Tónlistarskólanum í Reykjavík, og séra Bjarni Þorsteinsson minnist á í þjóðlagasafni sínu, Með gleðiraust og helgum hljóm. Bjarni, sem kallar lagið „aðal-jólalagið frá gömlu dögunum,“ kynntist laginu ungur á Mýrunum og hann skrifar lagið upp eins og hann lærði það þá.

Lagið er í prhygískri tóntegund, sem er ein kirkjutóntegundanna. Þess háttar tóntegundir nutu mikilla vinsælda á miðöldum eða fram að því að menn fóru að innleiða dúr- og moll-kerfið á 16. öld. Kirkjutóntegundirnar voru þó engu að síður vinsælar hér á Íslandi alveg fram undir 20. öldina. – Í nýrri tónlist á 20. öld er ekki óalgengt að stuðst sé við þessar gömlu tóntegundir, til dæmis eru fáein lög Bítlanna í þessum „modal“ tóntegundum, fyrir utan að þær eru þekktar bæði í djasstónlist og einnig í tónsmíðum margra tónskálda okkar samtíðar og fyrr á 20. öld.

Laglínan er einstaklega falleg – og nýtur sín vel í söng án undirleiks. Þá þykir mér textinn ekki síðri.

Fréttablaðið/Ernir
Guðrún Árný Karlsdóttir

Sjá himins opnast hlið finnst mér alltaf svo fallegur sálmur, bæði lag og texti. Fögur er foldin er líka mjög fallegur en það er bara búið að gera hann sorglegan því hann er oft sunginn við jarðarfarir.

Fréttablaðið/GVA
Jóhann Friðgeir Valdimarsson

Ó, helga nótt er númer eitt hjá mér – það er svo tignarlegt. Einsöngslag í byrjun og svo kemur kór inn í seinni hlutanum.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Helena Eyjólfsdóttir

Ég get svarað því án þess að hika, uppáhaldssálmurinn minn er Í dag er glatt í döprum hjörtum – mér finnst hann svo hátíðlegur.

Fréttablaðið/GVA
Hanna Dóra Sturludóttir

Mig langar að nefna tvo. Það eru reyndar ekki sálmar heldur þjóðlög en þau eru með afbrigðum jólaleg, Með gleðiraust og helgum hljóm og Hátíð fer að höndum ein.






×