Tónlist

Tónlistin er mín ástríða

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Rebekka Blöndal flytur lög Billie Holiday í Hörpu á miðvikudaginn á vegum Múlans Jazzklúbbs.
Rebekka Blöndal flytur lög Billie Holiday í Hörpu á miðvikudaginn á vegum Múlans Jazzklúbbs. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Rebekka Blöndal lauk framhaldsprófi í djasssöng í sumar fimm árum eftir að hún hóf nám. Á sama tíma afrekaði hún að ljúka mastersnámi og eignast tvö börn. Nú stefnir hún á að koma sterk inn í tónlistarlífið á Íslandi.

Rebekka segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á djasstónlist en hún ólst upp við að hlusta á tónlistarfólk eins og Frank Sinatra og Billie Holiday. „Mér finnst djass æðislegur. Ég valdi að læra djasssöng því mér fannst hann veita mér svo mikið frelsi. Sumum finnst þeir vera settir inn í einhvern kassa þegar þeir fara í tónlistarnám. Ég prófaði að læra klassískan söng, þá fyrst fannst mér ég vera sett í kassa en mér fannst ég hafa meira frelsi í djassinum, svo heillaði tónlistin mig líka meira, hún er mér svo hugleikin, ég get alltaf hlustað á þessa tónlist,“ segir Rebekka.

Rebekka segist hafa byrjað að grúska sjálf og leita að tónlist á menntaskólaárunum og þá hafi hún uppgötvað Ellu Fitzgerald og fleira þekkt djasstónlistarfólk. „Djasstónlist er mikið uppáhald hjá mér, þetta eru svo falleg lög og oft fallegir textar líka. Það er einhver hljómblær í þessum lögum sem mér finnst svo dásamlegur.“

Heldur upp á Billie Holiday

Núna á miðvikudaginn 13. nóvember verður Rebekka með tónleika í Björtuloftum í Hörpu á vegum Múlans Jazzklúbbs. Þar mun Rebekka flytja lög Billie Holiday og túlka þau á sinn hátt. „Mér finnst skemmtilegt að vera með ákveðið þema á tónleikunum mínum. Ég var með Ettu James Tribute tónleika í fyrra og aftur núna í ár. En átrúnaðargyðjan hennar Ettu James var Billie Holiday, þannig kviknaði hugmyndin hjá mér um að halda líka tónleika með lögunum hennar. Ég hef líka lengi haft miklar mætur á Billie Holiday. Það eru til upptökur með henni frá ákveðnu tímabili þegar hún byrjar að syngja með Teddy Wilson bandinu sem mér finnst svo heillandi og ég ákvað að mig langaði að skapa mér eitthvað skemmtilegt verkefni út frá henni.“

Rebekka flutti lög Ettu James og Billie Holiday á Jómfrúnni í sumar.
Þetta verður að vísu ekki í fyrsta sinn sem Rebekka flytur lög Billie Holiday á tónleikum en í sumar hélt hún tónleika á Jómfrúnni þar sem hún söng lögin hennar og Ettu James í bland en þetta er í fyrsta sinn sem hún heldur tónleika sem eru bara tileinkaðir Billie Holiday.

„Í júlí á þessu ári voru 60 ár síðan Billie Holiday dó. Mér finnst tengingin milli hennar og Ettu James mjög áhugaverð. Þær voru báðar miklir eiturlyfjafíklar og áttu mjög erfitt líf. Maður heyrir það alveg á túlkun þeirra í söngnum. Billie þykir vera ein sú merkilegasta í djasssögunni hvað varðar túlkun á lögum þannig að það er gaman að tækla hennar tónlist. Það eru alveg ákveðin lög með henni sem mér finnst ég megi ekki taka, Strange Fruit til dæmis, en fólk hefur samt alveg gert ábreiður af því lagi. En ég get allavega lofað því að það verða mörg lög á efnisskránni sem aðdáendur hennar ættu að kannast við,“ segir Rebekka.

Rebekka tekur fram að hljómsveitin sem spilar með henni sé ekki af verri endanum. Með henni spila Kjartan Valdimarsson á píanó, Sigurður Flosason á saxófón, Einar Scheving á trommur og Þorgrímur Jónsson á bassa. „Ég hef verið ótrúlega lánsöm með meðspilara í gegnum tíðina og er það sannarlega líka núna.“

Vill skilja eitthvað eftir sig

Rebekka hefur átt annríkt síðustu ár. Hún hefur stundað tónlistarnám, háskólanám og átt tvö börn. Hún segir að það hafi verið áskorun að púsla saman fjölskyldulífi, skóla, vinnu og tónlistinni. „Eftir að ég útskrifaðist á þessu ári hef gert meira af því að koma fram. Ég útskrifaðist með framhaldspróf í djasssöng í vor en það hefur verið löng fæðing með háskólanámi og tveimur börnum. En núna er ég farin að gera meira og það stendur til að bæta í á nýju ári. Þetta er búið að vera púsl með nýju barni, en þetta er á sama tíma svo gaman og eitthvað sem ég myndi ekki vilja sleppa.“

Eftir tónleikana á miðvikudaginn ætlar Rebekka að taka sér frí frá tónleikum fram yfir áramótin. „Ég kem að vísu fram á styrktartónleikum fyrir BUGL í Grafarvogskirkju 14. nóvember ásamt ýmsum góðum listamönnum, en annars er ég ekki búin að plana fleiri tónleika fyrir jól. Ég átti yngri dóttur mína bara núna í febrúar þannig að ég er nýbúin að klára fæðingarorlofið og farin aftur að vinna, þannig að mig langar að njóta fyrstu jólanna hennar með fjölskyldunni og koma svo sterk inn á nýju ári.“

Rebekka segir erfitt fyrir tónlistarfólk sem er að reyna að koma sér á framfæri að ætla sér að lifa bara á tónlistinni. „Fyrir mig kemur ekkert annað til greina en að vera í dagvinnu en svo sinni ég tónlistinni með. Tónlistin er mín ástríða og ég reyni að gefa henni eins mikinn tíma og ég get. Mig langar svolítið að fara að koma með eitthvað frumsamið. Mig langar að skilja eitthvað eftir mig og ég er að vinna í eigin efni hægt og rólega,“ segir Rebekka að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.