Tíska og hönnun

Fékk innblásturinn í gönguferð um Reykjavík í fæðingarorlofinu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Erna Einarsdóttir, yfirhönnuður og listrænn stjórnandi Geysis.
Erna Einarsdóttir, yfirhönnuður og listrænn stjórnandi Geysis. Myndir/Laimonas Dom Baranauskas
Um helgina frumsýndi Geysir línuna Fýkur yfir hæðir í Hafnarhúsinu. Línan er sú fimmta sem Erna Einarsdóttir hannar fyrir Geysi og er minimalísk og undir áhrifum tísku frá tíunda áratugnum. 

„Innblásturinn kemur að miklu leiti frá verkum Ásmundar Sveinssonar en líka frá Reykjavík, sú upplifun að rölta um borgina í ró og næði og taka hana inn,“ segir Erna, sem er bæði yfirhönnuður og listrænn stjórnandi Geysis, í samtali við Vísi.

„Mér finnst mannlífið, menningin og litirnir í Reykjavík áhugaverðir og veitir mér innblástur reglulega. Upphafið kemur þó frá einum af mínum mörgum gönguferðum um borgina með vagn í fæðingarorlofi þar sem ég sá styttu eftir Ásmund og tengi við hana. Í kjölfarið fór ég að kynna mér verkin hans betur. Línan er þó líka á vissan hátt framhald af því sem við höfum verið að byggja upp hérna í Geysir síðastliðin ár og ég lít svo á að fatnaður okkar og línur tengjast allar innbyrðis og við erum í stöðugu ferðalagi þar sem Geysir þróast og þroskast áfram.“

Frá sýningunni í Hafnarhúsi.Mynd/Laimonas Dom Baranauskas

Kynntu sína fyrstu dragt

Nafnið á línunni kemur frá verkinu „Fýkur yfir hæðir“ eftir Ásmund Sveinsson en sú stytta var á vissan hátt kveikurinn af línunni.

„Hún náði eitthvað til mín, sýnir á svo einlægan og einfaldan hátt móðurástina. Ég tengdi við þetta verk, enda var ég í fæðingarorlofi á þessum tíma með seinni dóttur mína og hugurinn var auðvitað mikið hjá börnunum mínum og alla þá ást sem fylgir því að eignast barn. Ljóð Jónasar Hallgrímssonar „Móðurást“ byrjar einmitt á þessum orðum, „Fýkur yfir hæðir.“ Þetta einfaldlega tengdist allt fyrir mér og veitti mér innblástur í að skoða verk Ásmundar betur.“

Mynd/Laimonas Dom Baranauskas
Erna segir að í línunni sé verið að kynna aðeins víðari snið en áður hefur verið gert hjá Geysi, víðari ermar bæði í peysum og skyrtum.

„Gallabuxur koma líka sterkar inn. Við erum líka að kynna mikið af nýjum prjónuðum peysum bæði á menn og konur en á sama tíma prófa okkur áfram í nýjum fatnaði, til dæmis erum við að kynna fyrstu dragtina okkar.“

Það vakti athygli blaðamanns eftir sýninguna að í þessari línu er notuð lambaull, sem er mun mýkri viðkomu. Þetta hefur ekki verið gert áður hjá Geysi. 

„Þegar við fórum að ræða við Glófa, einn af prjónaframleiðendunum okkar, um framleiðslu á nokkrum vörum fyrir línuna kynntu þau okkur fyrir þessu nýja bandi og mér finnst þetta frábært skref í einhverskonar þróun á okkar góða íslenska ullarbandi. Mig langaði að prófa að nota þetta band enda er það mýkra en klassíska bandið sem við notum líka mikið.“

Stíga inn í nútímann

Fýkur yfir hæðir er fimmta lína Ernu fyrir Geysi og er „Geysiskonan“ að taka stórt skref með þessari nýju línu.

Mynd/Laimonas Dom Baranauskas
„Hún hefur verið mikið í prjónafatnaði hingað til enda myndi ég segja að Geysir sé byggt upp á prjóni og það er í grunninn okkar einkennis fatnaður. En með þessari línu er hún að stíga inn í nútímann og er byrjuð að klæða sig eins og ég sé fyrir mér að konur klæði sig í dag. Ég hugsa hana oft út frá sjálfri mér og konunum í kringum mig. Geysiskonan mun nú geta klætt sig í fallega ullarkápu og gallabuxur, fengið sér skyrtu en áfram getur hún fengið þykkan og góðan Geysis trefil sem er lykil flík í fataskápnum.“

Erna segist annars hanna mikið út frá sjálfri sér og konunum í kringum sig og sér hún Geysiskonuna sem einhverskonar áframhald af því, hvernig hennar konur eru. Á þessari sýningu mátti líka sjá herraklæðnað frá Geysi

„Geysismaðurinn er nútímalegur maður og klæðir sig upp fyrir daginn sem er framundan. Hann er maður konunnar minnar, Geysiskonunnar. Við grínumst oft með það að konan okkar er búin að finna sér mann og þau passa bara svona vel saman. Hann pælir mikið í smáatriðunum og vill ganga beint til verks. Hann vill þægilegan fatnað sem er þó flottur og gerir nokkuð háar kröfur um gæði og vandaðan frágang. Ég sé hann fyrir mér sem mann sem vill koma vel fram í sínu hversdagslega amstri, maður sem þarf að hitta fólk á daginn og er á hlaupunum.“

Draumur að hanna gallabuxur

Á sýningunni voru nokkrar flíkur sem ekki verður hægt að kaupa í verslunum þeirra. Þar á meðal var bronslituð kápa, sem vakti mikla athygli viðstaddra á sýningunni.

Mynd/Laimonas Dom Baranauskas
„Við hönnun línunnar ákváðum við að búa til nokkrar flíkur sem myndu falla vel inn í línuna út frá innblæstrinum, verkum Ásmundar. Mér fannst vanta flotta tengingu við bronslitaðar styttur Ásmundar og úr varð þessi klikkaða bronslitaða kápa með buxur í stíl. Það er þó bara hluti af línunni eins og við sjáum hana sem eina heild og við unnum bara þessa einu kápu, vildum nota hana sem „showpiece“ á sýningunni. Þessi kápa kemur þó í fallega dökkbláum lit og buxur í stíl og er nú þegar komin í verslanir okkar.“

Erna segir að Gallabuxurnar séu klárlega það sem er í uppáhaldi hjá henni sjálfri úr þessari línu.

„Aðallega vegna þess að það hefur alltaf verið draumur minn sem fatahönnuður að hanna mína eigin gallabuxna línu. Ég hef alltaf stefnt á það en ekki verið viss hvort það myndi vera möguleiki. Fyrir tveim árum, eða á sama tíma og við byrjuðum að hanna þessa nýju línu þá tókum við bara ákvörðun um að keyra á nýjar gallabuxur og kynna þær sem hluta af okkar heildarlúkki. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að gallabuxur og falleg prjónuð peysa sé fullkomið hversdagslúkk. Við kynnum á næstunni þrjú snið fyrir konur og að mínu mati eru buxur sem við köllum „Snið Eitt“ í uppáhaldi hjá mér.“

Sýninguna í Hafnarhúsinu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

Klippa: Geysir - Fýkur yfir hæðir

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×