Makamál

Föðurland: Hvað með alla pabbana?

Ætli upplifun feðra af meðgöngu og fæðingum gleymist í umræðunni?
Ætli upplifun feðra af meðgöngu og fæðingum gleymist í umræðunni? Getty
Fyrir rúmum mánuði byrjaði Makamál með nýjan viðtalslið sem ber nafnið, Móðurmál. Viðmælendurnir eru bæði konur sem ganga með barn sem og nýbakaðar mæður og hafa viðtökur lesenda verið mjög góðar. Formið er þannig að viðmælendur fá allir staðlaðar spurningar og er tilgangurinn sá að gefa innsýn inn í það hversu ólíkar upplifanir konur geta átt af þessum stórkostlegu tímamótum.

Makamálum hafa undanfarið borist fleiri en ein ábending frá karlkyns lesendum sem vilja vekja athygli á upplifun feðra á meðgöngu og fæðingu. Umsjónarmaður Makamála viðurkennir fúslega að hafa ekki verið búin að hugsa út í þennan vinkil, þ.e. upplifanir og frásagnir feðra og vekur það upp allskonar hugleiðingar.

Ætli staða og hlutverk feðra á meðgöngu og í fæðingu eigi það til að gleymast í umræðunni?

Ætli þeir fái aðstoð eða stuðning varðandi erfiðar og flóknar tilfinningar sem geta komið við þessi stærstu tímamót hvers einstaklings? 

Bent var réttilega á viðtalið við Sunnu Ben sem var einn af fyrstu viðmælendum Móðurmáls, en hún greinir einlægt frá átakanlegri upplifun af sinni fyrstu meðgöngu. Bæði hún og maðurinn hennar þurftu á áfallahjálp að halda eftir allt ferlið og segir Sunna að meðgangan hafi líklega verið erfiðari fyrir manninn hennar en sig.

Við vorum saman í erfiðri meðgöngu og fæðingu sem var að mörgu leyti erfiðari fyrir manninn minn af því að hann var áhorfandi meðan ég var ógeðslega veik, öskrandi, grátandi og allt í uppnámi. Ég var ógeðslega upptekin og mátti ekkert vera að því að hafa áhyggjur, en hans hlutverk bara að vera til staðar lengi framan af og ég veit að þetta var rosalega erfitt fyrir hann.

Þó að feður gangi ekki með börnin þá eru þeir stór hluti af bæði meðgöngu og fæðingu. Upplifun þeirra getur verið eins ólík og viðkvæm eins og upplifun mæðra og veltir umsjónarmaður Makamála fyrir sér hvort að samfélagið eigi það hreinlega til að gleyma pöbbunum? 

Við gerðum það allavega. 

Makamál kynna því stolt til leiks nýjan viðtalslið sem mun bera nafnið, Föðurland.

Viðtalsformið verður svipað og Móðurmál en viðmælendurnir verða tilvonandi og nýbakaðir feður.

Fyrsta viðtalið mun birtast á næstu dögum. 

Okkur langar líka til að heyra í pöbbunum.

Makamál vilja nota tækifærið og þakka lesendum kærlega fyrir þessa ábendingu og taka fagnandi á móti fleiri ábendingum varðandi umfjöllunarefni eða viðmælendur á netfangið makamal@syn.is


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×