Viðskipti innlent

300 þúsund króna peysa Herra Hnetusmjörs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Herra Hnetusmjör gerði allt vitlaust í Garðpartý Bylgjunnar.
Herra Hnetusmjör gerði allt vitlaust í Garðpartý Bylgjunnar. Vísir/Daníel
„Klárlega besta markaðsstönt ársins,“ segir Bjarni Ákason framkvæmdastjóri um frammistöðu rapparans Herra Hnetusmjörs í Garðpartýi Bylgjunnar á Menningarnótt. 

Herra Hnetusmjör sló botninn í Garðpartýið þetta árið en klæðaburður hans kom á óvart. Rapparinn var klæddur í gula og græna peysu merkta bensínfyrirtækinu Olís.

Samkvæmt heimildum Vísis fékk Herra hnetusmjör 300 þúsund krónur greiddar fyrir að troða upp í peysunni og þannig koma vörumerkinu á framfæri við tónleikagesti í Hljómskálagarðinum og heima í stofu.

Tónleikarnir voru sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi auk þess sem mikill fjöldi fólks naut í miðbænum í fínu veðri.

Klippa: Herra Hnetusmjör - Garðpartý Bylgjunnar 2019


Píratar stungu upp á því í kosningaham á sínum tíma að Herra Hnetusmjör skellti á sig derhúfu með merki flokksins. Svar Herra Hnetusmjör um hæl var 300 þúsund kall. Svo virðist því sem um staðlaða upphæð sé að ræða þegar Herra Hnetusmjör og markaðstengd mál eru annars vegar.

Pipar/TBWA auglýsingastofa hafði milligöngu um markaðssetninguna fyrir Olís sem hefur meðal annars verið til umræðu í Markaðsnördunum á Facebook þar sem Bjarni Ákason tjáði ofannefnda skoðun sína.

Í Tekjublaði Frjálsrar verslunar í ár var í fyrsta skipti tekinn saman flokkurinn áhrifavaldar. Þar var Árni Páll Árnason, Herra Hnetumsjör, sagður hafa verið með 369 þúsund krónur á mánuði sem skilaði honum í níunda sæti listans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×