Heimsmarkmiðin

Enn fjölgar fólki sem lifir við hungurmörk

Heimsljós kynnir
Ljósmynd frá Mósambík.
Ljósmynd frá Mósambík. gunnisal
Þriðja árið röð fjölgar fólki í heiminum sem lifir við hungurmörk. Einn af hverjum níu jarðarbúum býr nú við sult. Alvarlega vannærðum fjölgaði um tíu milljónir milli ára, voru 811 milljónir 2017 en 821 milljón í lok síðasta árs, að því er fram kemur í árlegri stöðuskýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um matvælaöryggi og næringu - The State of Food Security and Nutrition in the World (SOFI).

Þeir sem búa við sult eru á nýjanleik orðnir álíka margir og fyrir áratug en í fjölda ára fækkaði hungruðum ár frá ári. Auk þeirra sem búa við alvarlegan fæðuskort búa milljónir manna við fæðuóöryggi. Samtals lifa því að mati FAO um tveir milljarðar manna í óvissu í fæðumálum. Vaxtarhömlun hrjáir 149 milljónir barna.

Forsíða skýrslunnar.
Skýrsluhöfundar benda á að staðan í dag sýni þá stóru áskorun sem felst í heimsmarkmiði númer tvö, að útrýma hungri fyrir árið 2030. Þróunin sé illu heilli ekki í samræmi við það markmið að útrýma hungri og tryggja öllum jarðarbúum nægan mat.

Hlutfallslega flestir hungraðir í heiminum búa í Afríku, þar er hlutfallið einn á móti hverjum fimm. Hungur færist líka í aukana í vestanverðri Asíu. Vopnuð átök og loftslagsbreytingar ráða mestu um aukið hungur í heiminum.

Í skýrslunni í ár eru sjónum sérstaklega beint áhrifum efnahagslegra niðursveifla. Hungur færist í aukana í mörgum löndum þar sem efnahagsástand hefur verið á niðurleið, einkum í meðaltekjuríkjum. Í skýrslunni er bent á að ógnin sé mest þar sem sameinaðir kraftar eru að verki, eins og átök, loftslagsbreytingar og niðursveifla í efnahagslífinu.

FAO gaf skýrsluna út í dag í sam­starfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Mat­væla­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna (WFP), Alþjóða heil­brigðis­stofn­un­ina (WHO) og Alþjóðasjóð um þróun land­búnaðar (IFAD). 

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×