Íslenski boltinn

Fjórði sigur Fjölnis í síðustu fimm leikjum | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Karl skoraði tvisvar gegn Fram.
Guðmundur Karl skoraði tvisvar gegn Fram. vísir/bára
Fjölnir vann 3-1 sigur á Fram í bráðfjörugum leik í 12. umferð Inkasso-deildar karla í kvöld.

Þetta var fjórði sigur Fjölnismanna í síðustu fimm leikjum. Þeir hafa aðeins fengið á sig tvö mark í þessum fimm leikjum.

Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Fjölni og Jóhann Árni Gunnarsson eitt. Helgi Guðjónsson, næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar, skoraði mark Fram úr vítaspyrnu. Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Fjölnir 3-1 Fram


Fjölnir er með tveggja stiga forskot á toppnum á Gróttu sem vann Þrótt R., 0-1, í Laugardalnum. Þetta var fimmti útisigur Seltirninga í sumar.

Óliver Dagur Thorlacius skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 61. mínútu. Grótta er ósigruð í átta leikjum í röð. Þróttur er í 8. sæti deildarinnar með 14 stig. Liðið hefur tapað þremur af síðustu fimm leikjum sínum.

Sævar Atli Magnússon tryggði Leikni R. sigur á Aftureldingu, 3-2, í Efra-Breiðholtinu.

Sólon Breki Leifsson kom Leiknismönnum yfir á 25. mínútu en Alexander Aron Davorsson jafnaði úr vítaspyrnu tveimur mínútum fyrir hálfleik.

Stefán Árni Geirsson kom Leikni aftur yfir á 54. mínútu en Andri Freyr Jónasson jafnaði á 66. mínútu. Þremur mínútum síðar fékk Mosfellingurinn Arnór Gauti Jónsson sitt annað gula spjald og þar með rautt. Sævar Atli skoraði svo sigurmark Leiknis þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Leiknir er í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en Afturelding í því ellefta og næstneðsta með tíu stig.

Þá lyfti Víkingur Ó. sér upp í 4. sæti deildarinnar með 2-0 sigri á Haukum fyrir vestan. Vidmar Miha og Sallieu Tarawallie skoruðu mörk Ólsara í fyrri hálfleik. Franko Lalic, markvörður Víkings, varði vítaspyrnu Ásgeirs Þórs Ingólfssonar í fyrri hálfleiknum.

Haukar eru í 9. sæti deildarinnar með ellefu stig. Þeir eru án sigurs í síðustu þremur leikjum sínum.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×