Lífið

Attenborough fagnaði plastleysi Glastonbury

Andri Eysteinsson skrifar
Attenborough heilsar áhorfendaskaranum.
Attenborough heilsar áhorfendaskaranum. Getty/Samir Hussein
Nú stendur yfir tónlistarhátíðin Glastonbury í bænum Pilton í Somerset í suðvestur Englandi. Talið er að yfir 200.000 manns hafi sótt hátíðina sem lýkur í kvöld en hófst miðvikudaginn 26. júní og aðalnúmerin voru hljómsveitirnar the Killers, the Cure og rapparinn Stormzy. BBC greinir frá.

Hátíðarhaldarar ákváðu fyrir hátíðina í ár að selja enga drykki í plastflöskum og hvöttu hátíðargesti til þess að forðast notkun á einnota plasti. Það virðist hafa gengið vel því sjónvarpsmaðurinn og umhverfisverndarsinninn David Attenborough steig á svið á aðalsviði hátíðarinnar í dag og þakkaði gestum kærlega fyrir sitt framlag til þess að vernda plánetuna. Attenborough hafði orð á því að yfir milljón flöskur hefðu sparast vegna þessa.

Attenborough sem er 93 ára gamall steig á svið eftir að sýnd hefðu verið myndbrot úr dýralífsþáttum og fengu gestir að hlýða á hvalasöngva. Vel var tekið á móti Attenborough sem uppskar mikið lófatak fyrir það eitt að mæta á svæðið.

Attenborough sýndi þar næst stiklu úr næstu þáttaröð úr hans smiðju sem einblínir á lífverur á landi. Þættirnir munu bera heitið Seven Worlds One Planet.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.