Lífið

Undirbúningur fyrir Secret Solstice 2020 hafinn eftir vel heppnaða hátíð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Undirbúningur fyrir hátíð næsta árs er hafinn.
Undirbúningur fyrir hátíð næsta árs er hafinn. Secret Solstice
Secret Solstice-tónlistarhátíðin sem haldin var um helgina og lauk í gær gekk vel að sögn Jóns Bjarna Steinssonar, upplýsingafulltrúa hátíðarinnar. Gestafjöldi var á því bili sem skipuleggjendur bjuggust við og ríkti almenn ánægja meðal íbúa í nágrenni við hátíðina. Skipuleggjendur kunna lögreglu, slökkviliði og borgarstarfsmönnum sérstakar þakkir fyrir gott samstarf.

„Mér fannst almenn gleði í dalnum. Nágrannarnir virðast vera mjög sáttir miðað við umræður í nágrannagrúbbum. Það er góð tilbreyting,“ segir Jón Bjarni. Síðustu ár, og þá sérstaklega í fyrra, gætti nokkurrar óánægju með hátíðina meðal íbúa Laugardalsins. Hávaði, eiturlyfjaneysla og slæm umgengi voru þá helstu umkvörtunarefni íbúa í grennd við hátíðarsvæðið.

Sjá einnig: Helmingi færri fíkniefnamál og engin hávaðakvörtun

„Við erum bara mjög sátt. Gæslan gekk vel, kannski var hún extra hörð í ár, einhverjir kvörtuðu yfir því en það er bara ágætt. Það eru bara menn að vinna vinnuna sína.“

Gestafjöldi og fjármál í takt við áætlanir skipuleggjenda

Aðspurður segir Jón Bjarni að fjöldi gesta hafi verið einhvers staðar á bilinu tíu til ellefu þúsund manns.

„Það var það sem við áætluðum. Þetta var bara allt eftir bókinni.“

Jón Bjarni Steinsson, upplýsingafulltrúi Secret Solstice.
Þá hafi tekjur hátíðarinnar einnig stemmt við það sem lagt var upp með, miðað við fyrstu tölur. Þó er ekki endanlega búið að gera alla hátíðina upp og því ekki komin nákvæm lokatala á afkomu hátíðarinnar.

„Þetta er bara sirka það sem við áttum von á, það er enn þá verið að gera upp barin og svona. Þetta lítur allavega þannig út að við erum bara í góðum málum,“ segir Jón Bjarni.

Undirbúningur fyrir næsta ár hafinn

Aðspurður hvort Solstice-hátíðin haldi velli og verði sett upp aftur á sama tíma að ári svarar Jón Bjarni því játandi.

„Að sjálfsögðu. Við erum búin að setja tilboð í listamenn til að headline-a þetta [stærstu nöfnin sem koma fram á hátíðinni] næsta sumar. Það er bara allt í gangi,“ segir Jón Bjarni og bætir við að senn fari að koma að miðasölu fyrir Solstice 2020.

„Þetta verður stórt,“ hefur Jón Bjarni að segja um hátíðina á næsta ári.

 

Kann samstarfsaðilum bestu þakkir

Jón Bjarni segir samstarf við alla utanaðkomandi aðila hafa verið til fyrirmyndar.

„Mig langar að þakka sérstaklega fyrir frábært samstarf við borgina, starfsfólk frístundamiðstöðva, lögregluna og slökkviliðið. Þetta er búið að ganga ofboðslega vel. Samstarfið var frábært og mig langar að þakka þessum aðilum sérstaklega fyrir.“


Tengdar fréttir

Helmingi færri fíkniefnamál og engin hávaðakvörtun

Helmingi færri fíkniefnamál hafa komið upp á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í ár en í fyrra og lögreglu hefur ekki borist nein hávaðakvörtun. Lögregla telur hátíðina hafa farið vel fram enda voru færri á svæðinu og mikil gæsla. Tvö fíkniefnamál eru til rannsóknar en í öðrum tilvikum var um neysluskammta að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×