Lífið

Sophie Turner sagði foreldrum sínum ekki frá áheyrnarprufunum fyrir Game of Thrones

Andri Eysteinsson skrifar
Sophie Turner fer nú um heiminn og kynnir nýjustu mynd sína.
Sophie Turner fer nú um heiminn og kynnir nýjustu mynd sína. Getty/Matt Winkelmeier
Leikkonan Sophie Turner, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Sansa Stark í þáttunum Game of Thrones sem vöktu einhverja athygli á sínum tíma, sagði foreldrum sínum ekki frá því að hún hafi farið í áheyrnarprufur fyrir þættina. Turner greindi frá þessu í viðtali við Vogue Paris þar sem hún, ásamt leikkonunni Jessicu Chastain, kynnti stórmyndina X-Men: Dark Phoenix.

Turner sagðist hafa farið ásamt vinkonum sínum í áheyrnarprufur án þess að gera sér neinar vonir um að hreppa hnossið, því hafi hún ekki sagt foreldrum sínum frá.

„Okkur fannst frekar fyndið að fara í prufurnar, en síðan komst ég bara lengra og lengra. Foreldrar mínir komust að þessu þegar ég var ein af sjö sem stóðu eftir. Mamma fríkaði út en pabbi sannfærði hana um að leyfa mér að halda áfram,“ sagði Turner.

Turner sagði einnig frá viðbrögðum móður sinnar þegar í ljós koma að Sophie myndi leika hlutverk Sönsu Stark. „Hún stökk á mig og æpti „Þú fékkst hlutverkið, þú fékkst hlutverkið“ og við fórum beint í sund og borðuðum pizzu, það var frábær dagur,“ sagði Turner sem var ekki nema 13 ára gömul þegar hún var ráðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×