Íslenski boltinn

Þór settist á toppinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ármann Pétur skoraði í dag.
Ármann Pétur skoraði í dag. vísir/bára
Þór tók toppsæti Inkassodeildar karla með öruggum sigri á Leikni í Breiðholtinu í dag.

Gestirnir frá Akureyri komust yfir eftir hálftíma leik þegar Alvaro Montejo skoraði. Það var eina markið sem kom í fyrri hálfleik.

Heimamenn í Leikni voru meira með boltann en vörn Þórs var þétt og gekk Leiknismönnum illa að finna opnanir á henni.

Þórsarar gerðu út um leikinn á tveggja mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik með tveimur mörkum. Alvaro Montejo lagði upp fyrra markið fyrir Ármann Pétur Ævarsson og skoraði svo sitt annað mark, þriðja mark Þórs tveimur mínútum seinna.

Botninn datt nokkuð úr leik Leiknis eftir mörkin og Þór sigldi þægilegum 3-0 sigri heim.

Þór er nú kominn með 15 stig í deildinni og tekur toppsætið af Víkingi Ólafsvík. Víkingar eiga þó leik inni á Akureyringa.

Upplýsingar um úrslit og gang leiksins eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×