Umfjöllun og viðtöl: Völsungur - KR 0-2 | KR-ingar þurftu að hafa fyrir sigrinum á Húsavík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pálmi Rafn lék á sínum gamla heimavelli í dag.
Pálmi Rafn lék á sínum gamla heimavelli í dag. vísir/bára
KR er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir 0-2 sigur á Völsungi á Húsavík í dag.

KR-ingar þurftu að hafa fyrir sigrinum gegn baráttuglöðum Völsungum sem eru í 2. sæti 2. deildar.

Staðan í hálfleik var markalaus og allt fram á 64. mínútu þegar Alex Freyr Hilmarsson kom gestunum yfir. Hann fylgdi þá eftir skoti Atla Sigurjónssonar sem Inle Valdes Mayari, markvörður Völsungur, missti frá sér.

KR fékk fjölmörg tækifæri til að bæta við forystuna en annað markið kom ekki fyrr en í uppbótartíma.

Það gerði varamaðurinn Tobias Thomsen úr vítaspyrnu sem Björgvin Stefánsson fiskaði. Guðmundur Óli Steingrímsson var rekinn af velli fyrir að brjóta á Björgvini.

Lokatölur 0-2, KR í vil sem er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins líkt og Grindavík, Víkingur R., Njarðvík og ÍBV.

Af hverju vann KR?

KR-ingar eru með miklu betra lið og voru sterkari aðilinn í dag. Völsungar börðust og gerðu gestunum erfitt fyrir en voru sjálfir ekki líklegir til að skora.

KR var miklu meira með boltann og skapaði sér ágætis skotfæri framan af leik. Skotin voru hins vegar slök og þau sem fóru á markið varði Inle. Hann gerði sig hins vegar sekan um slæm mistök þegar hann missti skot Atla frá sér. Þessi einu mistök hans í leiknum reyndust dýrkeypt.

Eftir fyrsta markið fengu KR-ingar nokkur dauðafæri og hefðu átt að klára leikinn fyrr en þeir gerðu. Það kom þó ekki að sök.

Hverjir stóðu upp úr?

Atli var mjög sprækur í liði KR og var þeirra mest skapandi maður í dag. Kennie Chopart átti góðan leik í stöðu hægri bakvarðar og Gunnar Þór Gunnarsson var vel á verði í vörninni.

Inle var í yfirvinnu í marki Völsungs og átti góðan leik fyrir utan mistökin í fyrsta markinu. Hann varði t.a.m. frábærlega skalla frá Björgvini undir lokin. Bergur Jónmundsson var einnig ólseigur í stöðu vinstri bakvarðar.

Hvað gekk illa?

Lítið púður var í sóknarleik Völsungs og Akil Rondel Dexter De Freitas var afar einmana í fremstu víglínu.

KR-ingar voru slakir framan af seinni hálfleik, eða allt þar til Alex Freyr skoraði. Eftir það færðist meiri ró og yfirvefgun yfir leik þeirra.

Björgvin hefði hæglega getað skorað 3-4 mörk í leiknum í dag en fór illa með færin sín.

Hvað gerist næst?

Völsungur hefur lokið leik í Mjólkurbikarnum þetta tímabilið. Liðið er hins vegar í toppbaráttu í 2. deildinni og næsti leikur þess er gegn Víði í Garðinum á sunnudaginn.

Næsti leikur KR er gegn KA á Meistaravöllum í 7. umferð Pepsi Max-deildarinnar á sunnudaginn.

Jóhann Kristinn: Dómarinn átti mjög erfitt með sig

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs, kvaðst stoltur af sínum mönnum eftir tapið fyrir KR, 0-2, í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í dag. Hann var hins vegar allt annað en sáttur með frammistöðu dómara leiksins, Sigurðar Hjartar Þrastarsonar, og sakaði hann um hroka í garð sinna leikmanna.

„Það hvernig þessi leikur fór kom dómaranum ekkert við en ég ætla að biðja hann afsökunar á að þurfa að draga hann hingað í leik. Hann var ekki stemmdur í það og átti mjög erfitt með sig, að þurfa að koma alla leið hingað og dæma hjá liði á þessu getustigi,“ sagði Jóhann.

„Það kristallaðist í því að hann kallaði leikmenn okkar aumingja. Það var ljótt að sjá en hann átti ekki sök á tapinu. En þegar við komumst nálægt markinu þeirra var hann tilbúinn með flautuna.“

Jóhann var sáttur með frammistöðu sinna manna þótt úrslitin hafi ekki verið honum að skapi.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Ég vil óska KR til hamingju með sigurinn sem þeir þurftu að hafa mikið fyrir. Allt tal um að þeir hafi spilað illa er tilkomið vegna þess hvernig við spiluðum,“ sagði Jóhann.

„Við erum ósáttir að hafa ekki komist áfram. Mér fannst strákarnir gera þetta gríðarlega vel. Það er leiðinlegt að ná ekki að skora.“

Jóhann segist hafa lagt upp með að setja meiri pressu á KR-ingana en það hafi ekki tekist.

„Við ætluðum að pressa meira á þá en þetta er frábært lið. Við lágum meira til baka og vörðum markið okkar. Þeir fengu ekki mörg frábær færi en komust yfir með þessu skítamarki,“ sagði Jóhann.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var sáttur með sigurinn á Húsavík en fannst spilamennska sinna manna ekkert sérstök.

„Ég er mjög ánægður en þetta var mjög erfiður leikur. Mér fannst við lélegir og kærulausir. Þótt við höfum talað um að vera ekki kærulausir smaug það inn í hausinn á mönnum. Við vorum slakir og ætluðum að gera flókna hluti í staðinn fyrir þá einföldu,“ sagði Rúnar eftir leik.

Rúnar setti fyrirliðann Óskar Örn Hauksson inn á í hálfleik og snemma í seinni hálfleik kom Tobias Thomsen inn á sem varamaður.

„Ástbjörn [Þórðarson] fékk gult spjald í fyrri hálfleik og svo aðvörun og ég vildi ekki hætta á að missa hann út af. Við tókum því skynsama ákvörðun í hálfleik. Svo vildum við auka sóknarþungann með því að setja Tobias inn á.“

KR-ingar eru komnir áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Rúnar gaf ekkert upp hvaða liði hann vildi mæta næst.

„Ég á mér engan draumamótherja. Við viljum fá heimaleik. Þetta er alltaf sama spurningin og alltaf sama svarið,“ sagði Rúnar hlæjandi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira