Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - Stjarnan 3-4 | Stjarnan hafði betur í markaleik

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára
Stjarnan vann Víking 4-3 á útivelli í fjórðu umferð Pepsi Max deildar karla í kvöld. Leikurinn var algjört góðgæti fyrir augun en Stjörnumenn voru sáttir að komast heim með öll stigin þrátt fyrir að hafa komist 4-1 og 3-0 yfir. 

 

Víkingar voru mikið meira með boltann fyrsta hálftímann en náðu ekki að skapa sér nein  almennileg færi út úr því. Stjörnumenn voru að verjast vel neðarlega á vellinum en héldu ekkert boltanum fyrsta hálftímann. Þeir vita hinsvegar að fótbolti er engin fegurðarsamkeppni og skoruðu fyrsta mark leiksins eftir rúman hálftíma. Hilmar Árni Halldórsson skoraði markið eftir sendingu frá Guðjóni Baldvinssyni.

 

Gestirnir fóru að finna sig betur eftir markið og fóru að ógna meira að markinu. Stjörnumenn voru ekki lengi að bæta við en Guðjón Baldvinsson skoraði eftir sendingu frá Hilmar Árna. Góður endir á fyrri hálfleik setti Víkinga í erfiða stöðu fyrir seinni hálfleikinn. 

 

Þorsteinn Már Ragnarsson gerði gríðarlega vel í upphafi seinni hálfleiks þegar hann spilaði Guðjón Baldvinsson dauðafrían en Guðjón þakkaði traustið og ok forystu gestanna í 3-0. Víkingar héldu þó alltaf áfram og sýndu mikinn karakter allan leikinn. Ágúst Hlynsson minnkaði muninn fljótlega eftir og gerði leikinn aftur spennandi. Því miður fyrir Víkinga var Alex Þór Hauksson á skotskónum fyrir með tæplega hálftíma eftir af leiknum og kom forystunni þá aftur upp í 3 mörk. 

 

Júlíus Magnússon minnkaði muninn í 4-2 með tæplega 20 mínútur eftir. Markið kom eftir sendingu frá Haraldi Björnssyni markmanni Stjörnunnar sem gaf beint í lappir á Júlíusi fyrir utan teig Stjörnunnar. Víkingar fundu þá að þeir gátu náð stiginu og blésu til sóknar undir lokinn. Þeir áttu nokkur góð skot sem rötuðu ekki í markið á lokakorterinu. Það var aftur á móti skalli frá Sölva Geir Ottesen sem minnkaði muninn í 4-3. Því miður fyrir Víkinga dugði það ekki til og gátu Garðbæingar tekið 3 stig með heim í pokanum.

 

 

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan er með mikil gæði fram á við og þeir sýndu það í kvöld. Varnarleikur Víkinga var óagaður á köflum og gestirnir nýttu sér það til fulsl. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Fremstu 3 hjá Stjörnunni voru frábærir í kvöld. Þorsteinn Már, Guðjón Baldvinsson og Hilmar Árni. Þorsteinn Már var alveg stórhættulegur þegar hann fékk pláss til að keyra á vörnina og var gaman að fylgjast með honum í kvöld. Þessir drengir búa yfir miklum gæðum eins og alþjóð veit og minntu á það í kvöld. 

 

Miðjan hjá Víkingum var flott í kvöld. Ágúst Hlynsson og Guðmundur Andri voru sérstaklega duglegir að sækja og þrátt fyrir að það hafi ekki endilega alltaf skilað sér er þessi ákveðni og þetta sjálfstraust eitthvað sem er líklegt til að skapa fleiri mörk á móti lakari liðum deildarinnar. Júlíus Magnússon og Mohamed Didé Fofana voru góðir að halda boltanum á miðjunni og dreifa spilinu. Ef þeir geta verið aðeins beittari á seinasta á þriðjungnum hefði niðurstaðan mögulega verið önnur í kvöld. 

 

Hvað gekk illa? 

Varnarleikur Víkings var á köflum hræðilegur, eða barnalegur eins og Arnar orðaði þetta. Þeir eru auðvitað að sækja á mörgum mönnum sem skilur þá eftir berskjaldaða en þeir verða vinna návígin til að Þórður sé ekki að sækja boltann í netið allan leikinn. Halldór Smári og Dofri vinstra megin í vörninni áttu sérstaklega erfitt uppdráttar í kvöld en þeir voru að litu ekki vel út í nokkrum af mörkunum. 

 

Haraldur Björnsson átti annað mark Víkinga alveg sjálfur sýndist mér þegar hann gefur boltann á Júlíus. Síðan er spurning með fyrsta mark Víkinga sem var skorað úr frákasti en hann er heppinn að hans menn skoruðu nóg í kvöld til að þessi mistök skiptu ekki máli.

 

Hvað gerist næst?

Víkingar spila í fyrsta skipti á tímabilinu á móti liði sem var ekki spáð topp 5. Þeir fara til Eyja og spila við lærisveina Pedro. Stjarnan fær KA í heimsókn í leik sem ættu að vera stál í stál.

 

Arnar: Þetta var hálf barnalegt allt saman

„Frammistaðan var bara geggjuð. Margir sem sáu ekki leikinn halda að Stjarnan hafi verið með algjöra yfirburði í stöðunni 4-1. Svo var ekki. Við réðum yfir leiknum frá A til Ö,” sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings um frammistöðuna eftir leik kvöldsins. 

 

Víkingar voru miklu meira með boltann í fyrri hálfleik en voru þó undir 2-0. Stjörnumenn gerðu vel úr færum sínum og refsuðu Víkingum þegar þeir gerðu mistök. 

 

„Ég sagði við strákana í hálfleik að það sem Stjarnan hefur fram yfir okkur er bara gríðarlega reynsla og klókindi. Þeir eru með ákveðin gæði til þess að klára leiki. Guð minn almáttugur hvað við gáfum þeim leik í dag, við gáfum þeim virkilega erfiðan leik. Við pressuðum þá stíft, við héldum boltanum mjög vel en okkur vantaði bara smá heppni og meiri kænsku á réttum augnablikum í leiknum.” 

 

Varnarleikurinn var vægast sagt klaufalegur í mörkunum sem Stjarnan skoraði í kvöld. Arnar vill samt taka fram að Víkingar leggja áherslu á varnarleik á sínum æfingum. 

 

„Þetta var hálf barnalegt allt saman. Ég á eftir að skoða þetta betur. Hvert einasta skipti sem Stjarnan komst í einhverja hálf sénsa þá lá boltinn inni sem var mjög svekkjandi. Trúðu því eða ekki þá leggjum við mikla áherslu á að spila vörn og að verjast á fáum mönnum.” 

 

„Við erum frekar opnir þegar við sækjum. Vörnin byrjar alltaf á fremsta manni og við vorum aðeins að gefa þeim rosalega ódýr mörk sem að beit okkur í rassgatið í lokin.” 

 

Víkingar voru með boltann fyrsta hálftímann en náðu ekki að brjóta niður vörn Stjörnunnar. Þeir voru ekki með lausnir við þessari þéttu og skipulögðu Stjörnuvörn.

 

„Þeir eru með klókt lið og þeir þéttu vel tilbaka. Við fengum bara hálf færi og skot fyrir utan teig en okkur vantaði að setja þetta fyrsta mark til að sýna að yfirburðirnir voru réttmætir. Síðan skora þeir.” 

 

„Okkar strákar eiga skilið hrós fyrir að efast aldrei. Við héldum bara áfram okkar leik. Ég sagði í hálfleik að við ættum mjög góðan séns. Við héldum bara áfram þrátt fyrir að það komi eiginlega strax 3-0. Þetta var ansi tæpt í lokin að við náðum ekki að jafna.” 

 

Guðmundur Andri Tryggvason gekk til liðs við Víking í gær frá Start í Noregi. Guðmundur Andri var mættur í byrjunarliðið í kvöld þrátt fyrir að hafa bara náð einni æfingu. 

 

„Hann náði heillri æfingu. Hann fékk skyndinámskeið í leikfræði liðsins. Hann kom bara inn og stóð sig vel. Hann var óragur og tók vel á. Auðvitað er hann ekki kominn í fullkomið leikstand en þetta eru allt toppstrákar og þeir stóðu sig allir hrikalega vel í kvöld.” 

 

Var hann þá svona frábær á þessari æfingu að hann fór beint í byrjunarliðið?

 

„Já beint í byrjunarliðið hann var frábær á þessari æfingu,” sagði Arnar léttur fyrst.  

 

„Nei það er oft gott fyrir þessa stráka að koma bara beint inn og fá ekki allt of mikinn tíma til að hugsa. Hann þarf tíma til að kynnast liðinu þannig að ég sá ástæðu til þess að hrista aðeins upp í liðinu og henda honum inn í djúpu laugina, ” sagði Arnar síðan með aðeins meiri alvara.

 

„Við eigum ÍBV á útivelli næst og svo er bara KR. Þetta er bara geggjað. Það er geggjað að vera í þessari deild, þetta eru allt hörkuleikir og við erum búnir með svaka prógram. Ég er ánægður með að við gáfum öllum þessum toppliðum mjög erfiðan leik, þeir þurftu að hafa fyrir þessu,” sagði Arnar um næstu leiki Víkinga en þeir eru búnir að eiga gríðarlega erfitt prógram í upphafi móts. Þrátt fyrir ágætis frammistöður eru þeir bara með 2 stig eftir 4 leiki.  

 

 

Rúnar: Mikilvægast er að við fengum 3 stig

„Víkingur eru með gott lið. Þeir eru bara vel spilandi og maður var skíthræddur í lokin að þeir myndu jafna þetta, það var bara þannig. Það fór ekkert vel um mig en mikilvægast er auðvitað að fá 3 stig, það sýnir styrk,” sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar aðspurður um lokakaflann þar sem Víkingur náði að minnka muninn í eitt mark. 

 

 

Guðjón Baldvinsson talaði um í viðtali eftir leik að það hafi verið eins og stífla hafi brostið í kvöld. Rúnar var svo sem sammála því en ekki of upptekin af því.

 

„Mikilvægast er að við fengum 3 stig í kvöld. Við getum alltaf skorað mörk við höfum sýnt það í gegnum tíðina. Það var ekkert stress hjá okkur og engin stífla í mínum hugsa en það var gott að skora þessi 4 mörk. Ég hefði helst viljað vinna þetta 4-1 en það óþarfa stress hérna í lokin.” 

 

Rúnar vill meina að sínir menn hafi fallið of mikið tilbaka í seinni hálfleik þegar þeir komust yfir með þremur mörkum. Hann var ánægður með byrjunina á seinni hálfleik og fannst áætlunin ganga vel en síðan misstu þeir aðeins tökin á leiknum. 

 

„Við féllum alltof aftarlega og gáfum þeim mikin tíma. Við gáfum okkur tíma í fyrri hálfleik og þá uppskárum við tvö góð mörk. Við þjálfararnir ákváðum hérna í hálfleik að falla aðeins niður í seinni hálfleik. Við vildum þétta varnarleikinn og bíða eftir að þeir opnuðu sig. Við skoruðum reyndar tvö mörk í framhaldið af því en síðan var óþarfi að hleypa þeim svona inn í leikinn með glórulausu marki þar sem Halli gerir mistök. Við megum ekki bjóða upp á þetta.” 

 

Rúnar var ánægður með hversu framarlega Stjörnumenn voru á vellinum í fyrri hálfleik. Honum fannst þeir allvega spila ofar á vellinum en í seinni.

 

„Við vorum í ágætis hápressu í fyrri hálfleik. Þeir náðu að spila sig ágætlega út úr því fyrsta korterið en síðan náðum við að læsa á það. Þá opnaðist vörnin hjá þeim sem skapaði þessi tvö mörk sem við skoruðum.” 

 

Stjarnan gerði 4 breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leik kvöldsins. Það kom ekki að sök og sýnir það hversu mikil breiddin í Stjörnuliðinu er.

 

„Við erum bara með gott lið. Þegar ég tala um lið þá er ég að tala um allan hópinn okkar. Við getum gert breytingar á liðinu á milli leikja, líka þegar þétt er spilað. Við fórum þá leiðina að reyna að hvíla þá sem hafa spilað mikið og hafa verið tæpir. Vildum ekki taka neinar óþarfar áhættur með þá. Við stillum upp mjög sterku liði í kvöld og sömuleiðis á móti HK seinasta föstudag. Það er bara svoleiðis, við getum gert breytingar og leikmennirnir eru meðvitaðir um það.” 

 

„Næsti leikur leggst gríðarlega vel í mig. Heimaleikur á sunnudaginn á móti sterku liði KA. Þar ætlum við að taka 3 stig,” sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar aðspurður um næsta leik liðsins. 

 

 

 

Guðjón:Það brást ákveðin stífla í dag 

„Mér fannst við stýra leiknum vel. Við gleymum okkur í stöðunni 3-0 og 4-1. Ég verð nú bara að hrósa þessu Víkingsliði. Ef það er einhver leikur sem ég myndi vilja borga mig inná þá væri það með þessu liði. Þetta er skemmtilegt lið og strákarnir þora að spila fótbolta. Það er erfitt að mæta þeim. Mér fannst við gera okkar vel en vorum sjálfur okkur verstir í þessum stöðum þegar við gerum þetta spennnandi,” sagði Guðjón Baldvinsson leikmaður Stjörnunnar eftir leik um leikinn.

 

Guðjón skoraði ekki í fyrstu þrem leikjum Stjörnunnar á leiktíðinni. Þar af leiðandi var hann auðvitað glaður að hafa komið boltanum tvisvar í netið í dag.

 

„Þeir sem þekkja mig vita að mér þykir vænt um að skora mörk. Þetta er bara gott að menn séu byrjaðir að skora, ekki bara ég. Það brást ákveðin stífla í dag.” 

 

Stjörnumenn voru mjög beittir í þeim sóknaraðgerðum sem þeir fóru í í kvöld. Guðjón telur sóknina vera gott veganesti inn í næstu leiki en vill bæta vörnina. 

 

„Það er gott fyrir okkur að skapa færi og skora mörk. Við erum búnir að vera að verjast vel í síðustu leikjum og það er kannski eitthvað sem við hefðum kannski getað gert aðeins betur í dag.” 

 

Ágúst: Hefðum átt að vinna þennan leik

„Vörnin var bara ekki alveg að detta með okkur í dag. Mér fannst við samt spila mjög fínan leik. Mér fannst að við hefðum átt að vinna þennan leik, ” sagði Ágúst Eðvald Hlynsson leikmaður Víkings eftir leik um frammistöðuna.  

 

Ágúst skoraði í kvöld sitt fyrsta mark fyrir Víking. Hann var samt ekki að spá of mikið í því þar sem hann veit að stigasöfnunin er það sem skiptir máli.

 

„Ég er mjög ánægður að hafa skorað mitt fyrsta mark fyrir Víking. Ég er hinsvegar mjög svekktur að hafa tapað þessum leik í dag.” 

 

Víkingar áttu langa kafla þar sem þeir héldu boltanum lengi en komu sér þó ekki í mikið af færum. Ágúst var þó heilt yfir ánægður með framlag Víkinga sóknarlega. 

 

„Það vantaði kannski bara smá heppni með okkur. Við skoruðum samt 3 mörk í dag en mér finnst að við hefðum getað skorað fleiri mörk, ef þetta hefði kannski dottið aðeins meira fyrir okkur í dag.” 

 

Guðmundur Andri Tryggvason bættist í hópinn í gær og spilaði í kvöld. Hann er einn af mörgum leikmönnum Víkings sem eru undir tvítugt og stemningin í liðinu en stemningin í liðinu er mjög samkvæmt Ágústi.

 

„Þetta er mjög gaman. Andri var flottur í dag. Það er mjög gaman að spila í þessu liði og það eru margir ungir strákar með reynsluboltum í bland. Ég sé bara fram á að þetta verði bara skemmtilegt sumar.” 

 

Næsti leikur er í Eyjum, hvernig lýst þér á hann?

 

„Ég er mjög spenntur að fara til Vestmanneyja. Ég hef aldrei spilað þar, nema kannski á Shell-mótinu í 6. flokki.” 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira