Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Þvílíkt einbeitingarleysi í þessum mörkum

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson vísir/bára
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar var svekktur eftir tap sinna manna gegn KA í dag. Hann sagði einbeitingarleysi hafa orsakað tapið í dag.

„Mjög svekkjandi. Við missum þennan leik niður á einhverjum 10 mínútna kafla og það er hrikalega dapurt hjá okkur og þetta er þvílíkt einbeitingarleysi í þessum mörkum. Við ráðum nánast öllum leiknum og við missum einbeitinguna, ég skil eiginlega ekki hvað gerist í þessum 2 mörkum en það gerir það að verkum að við töpum hér í dag.”

„Við vorum með gífurlegan sóknarþunga bæði í fyrri hálfleik og seinni hálfleik á KA-mönnum sem vörðust gríðarlega vel. En við þurfum að nýta færin okkar betur.”

Hann segir það visst áhyggjuefni hjá sínum mönnum þessi sofandaháttur í byrjun seinni hálfleiks.

„Já þetta er áhyggjuefni. Við töluðum um það í hálfleiknum að koma klárir en við stjórnum leiknum og þegar lið stjórna leikjum þá er oft hætta að fá á sig mörk úr skyndisóknum þegar menn eru værukærir og það er það sem gerðist hjá okkur í dag.”

Það gekk lítið upp hjá Stjörnumönnum en þeir settu boltann tvisvar í slánna og einu sinni í stöngina. Rúnar var sammála því að þetta hafi verið óheppnisdagur og lítið gengið upp en sagði að menn þurfa bara að fara upp með hausinn og gera betur í næsta leik gegn Skagamönnum.

„Eigum við ekki bara að segja það? Neinei nú er það bara upp með hausinn og næsti leikur. Við töpum eins og önnur lið og við þurfum bara að sjá hvernig við tökumst á við það. Erfiður leikur framundan í næsta leik gegn öflugu Skagaliði,” sagði Rúnar Páll að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×