Íslenski boltinn

Tæplega 60 prósent leikja Pepsi Max-deildarinnar á gervigrasi?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fylkismenn fengu gervigras um mitt sumar í fyrra.
Fylkismenn fengu gervigras um mitt sumar í fyrra. vísir/vilhelm
Svo gæti farið að ríflega helmingur liðanna í Pepsi Max-deild karla í fótbolta spili á gervigrasi á næstu leiktíð sem hefst 26. apríl með Reykjavíkurslag Íslandsmeistara Vals og Víkings á Origo-vellinum.

Nú þegar er ljóst að helmingur liðanna í deildinni spila sína leiki á gervigrasi og þar af leiðandi verða 66 leikir af 132 eða helmingur allra leikja deildarinnar á gervigrasi.

Valur, Stjarnan, Fylkir og HK eru klár með sína velli en Breiðablik og Víkingur eru að koma sér upp gervigrasvelli. Víkingar spila framan af móti á gervigrasvelli Þróttara í Laugardalnum.

Nú vilja KA-menn bætast við gervigrashópinn en Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, staðfestir við Fótbolti.net að Akureyrarfélagið vill spila sína heimaleiki á gervigrasinu við KA-heimilið í sumar.

KA-menn eru búnir að óska eftir því við KSÍ og Akureyrarbæ að flytja völlinn upp á KA-svæðið en þar þurfa KA-menn að byggja bráðabirgðastúku sem fengi undanþágu í tvö ár. Einnig þurfa þeir að koma upp fjölmiðlaaðstöðu. Þetta vilja gulir gera.

Bætist KA í gervigrashópinn verða sjö félög á gervigrasi í sumar og fer fjöldi leikja á gervigrasi upp í 77 sem gerir 58 prósent allra leikja Pepsi Max-deildarinnar.

Sé horft aðeins tvö ár aftur í tímann voru aðeins tvö félög með gervigras í efstu deild en það voru Valur og Stjarnan. Þá fóru aðeins 22 leikir fram á gervigrasi eða tæplega 17 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×