Heimsmarkmiðin

„Ég var svo spennt þegar ég fékk fyrstu launagreiðsluna!"

Heimsljós kynnir
Aleeza Hafeez
Aleeza Hafeez UN Women
„Frá því ég man eftir mér hefur faðir minn stritað dag og nótt til að geta haldið fjölskyldunni uppi en samt nægðu tekjur hans ekki til að láta enda ná saman. Öll systkini mín eru yngri en ég og mig langaði að leggja mitt af mörkum,“ segir Aleeza Hafeez sem hlaut starfsþjálfun hjá UN Women í Pakistan á vegum verkefnis sem miðar að því að styrkja stöðu kvenna sem starfa í fataverksmiðjum. Í dag hefur hún umsjón með tveimur deildum innan verksmiðjunnar og notar tekjurnar til að sjá fyrir fjölskyldu sinni ásamt föður sínum.

Þegar hún byrjaði að leita sér að vinnu var hún óviss um að hún fyndi eitthvað við hæfi þar sem hún hafði enga starfsreynslu. Hún sótti starfsþjálfun á vegum UN Women og fékk lærlingsstöðu í fataverksmiðju.

„Ég var fljót að læra og bæta við mig kunnáttu. Að þjálfun lokinni var mér falin umsjón yfir tveimur deildum. Ég var svo spennt þegar ég fékk fyrstu launagreiðsluna mína! Að þéna rúmar 12.000 rúpíur (um 20.000 kr.) á mánuði var draumi líkast. Á þessum tíma hef ég öðlast mikið sjálfsöryggi.“

Í starfsþjálfuninni hlaut Aleeza fræðslu um réttindi kvenna á vinnumarkaði. „Nú er ég meðvituð um lögbundinn rétt minn til ýmiss konar vinnutengdra fríðinda á borð við félagsbætur, matarpening, eftirlaun og fleira. Þessi atriði eru gríðarlega mikilvæg fyrir konur á vinnumarkaði. Ef fleiri konur öðlast vitneskju um þessi réttindi mun það auka öryggi okkar á vinnumarkaði og styrkja stöðu okkar innan heimilisins“.

Þátttaka Aleezu í verkefninu hefur umbylt stöðu hennar innan fjölskyldunnar. Nú hefur faðir Aleezu hana ávallt með í ráðum þegar kemur að því að taka ákvarðanir varðandi heimilisrekstur en áður var sá ákvörðunarréttur alfarið hjá karlkyns meðlimum fjölskyldunnar.

UN Women er í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á heimsvísu. Hún er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu að jafnrétti kynjanna, en stofnunin hefur þríþætt hlutverk. Hún starfar á vettvangi, sinnir samræmingarhlutverki meðal stofnana SÞ og er leiðandi í stefnumótun SÞ á alþjóðavettvangi um málaflokkinn. Ísland leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna á heimsvísu og utanríkisráðuneytið hefur veitt framlög til stofnunarinnar frá því hún var sett á laggirnar árið 2011.

Saga Allezu er sögð á vef Landsnefndar UN Women.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×