Menning

Flakk á milli ólíkra tíma

Kolbrún Berþórsdóttir skrifar
Í vídeóverki sem gert er við verk Einars, Alda aldanna, vinna listakonurnar Olga Bergmann og Anna Hallin með hugmyndina um listsköpun og upphafningu á afar sérstæðan og skemmtilegan hátt.
Í vídeóverki sem gert er við verk Einars, Alda aldanna, vinna listakonurnar Olga Bergmann og Anna Hallin með hugmyndina um listsköpun og upphafningu á afar sérstæðan og skemmtilegan hátt. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Andsetning er heiti á sýningu sem stendur yfir í Listasafni Einars Jónssonar, en þar sýna Anna Hallin og Olga Bergmann vídeó verk og hljóðmyndir.

„Þegar okkur bauðst tækifæri til að sýna í safninu þá ákváðum við strax að koma ekki þangað inn með eitthvað þrívítt og efnismikið. Þarna inni er þéttofinn heimur listaverka og okkur fannst henta best að vinna með ljós og hljóð. Við sýnum sjö sjálfstæð vídeóverk sem mynda nokkurs konar heild og hljóðmynd sem hljómar undir og leikur um húsið,“ segir Olga. „Verkin eru samtal við verk Einars. Við höfum sótt innblástur í ákveðnar hugmyndir sem hann hreifst af og við tengjum við og svo höfum við einnig leyft verkum hans að vekja upp hugmyndir og tengsl hjá okkur. Við vildum gera verk í okkar anda en vera um leið í samspili við verk Einars. Það má segja að hér eigi sér stað ákveðið f lakk á milli ólíkra tíma og viðhorfa.“

Listsköpun og upphafning

„Verk Einars standa mörg upp við vegg, þau eru þung og massamikil og við vildum skapa hreyfingu og ljós,“ segir Anna. „Við vildum líka huga að andlegu hliðinni. Þegar Einar eltist fékk hann áhuga á dulspeki og sótti meðal annars mjög í kenningar sænska 17. aldar guðspekingsins Emanuel Swedenborg.“ Eitt vídeóverka listakvennanna er endurgerð á verki Einars Alda aldanna sem Einar kallaði fyrst Skýstrokkurinn en þar sést fólk svífa upp á öldu. „Síðari tíma túlkun er sú að fólkið sem svífi upp öldufaldinn sé að ná einhverjum æðri þroska. Í vídeóinu ákváðum við að vinna með hugmyndina um listsköpun og upphafningu,“ segir Olga.

Í vídeóinu sjást konur, myndlistarkonur, flestar tengdar Myndhöggvarafélaginu, lyfta höndum og svífa til himins.



Verk hlaðin táknum

Einar Jónsson var andlega leitandi og Anna og Olga eru spurðar hvort það eigi við um þær. „Þegar Einar hóf sinn feril þá hafði hann þá hugmynd að listamaðurinn væri eins konar æðri vera, nánast ofurmenni. Síðan breyttust hugmyndir hans í þá átt að listamaðurinn stæði nálægt Guði, væri eiginlega handbendi Guðs. Ég held að fáir myndlistarmenn á Íslandi upplifi sig þannig. Sem listamenn viljum við hafa áhrif á fólk og vekja það til umhugsunar,“ segir Olga.

Þær eru spurður um viðhorf sitt til hinna voldugu verka Einars. „Það er ekki annað hægt en að dást að lífsverkinu og allri vinnunni sem í því felst,“ segir Anna. Olga bætir við: „Það var farið í skólaheimsókn í þetta hús þegar ég var átta ára. Sú heimsókn hafði mikil áhrif á mig og ég man að ég varð dálítið skelkuð við að sjá þessi verk. Verkin eru hlaðin táknum og vísunum í allar mögulegar áttir, í trúarbrögð, symbólisma. Þau eru kannski ekki mjög aðgengileg en eftir því sem ég hef eytt meiri tíma með þeim því vænna hefur mér farið að þykja um þetta safn og mörg þessara verka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.