Lífið

Gillette kallar eftir hugarfarsbreytingu karlmanna í nýrri auglýsingu

Sylvía Hall skrifar
Auglýsingin hefur hlotið mikið lof.
Auglýsingin hefur hlotið mikið lof. Skjáskot

Ný auglýsing frá rakvélaframleiðandanum Gillette hefur vakið mikla athygli en auglýsingin vekur athygli á samfélagsmótun ungra drengja. Í auglýsingunni er spurt hvort þetta sé það besta sem karlmenn geti orðið. 

Í auglýsingunni er snert á málum líkt og #MeToo-hreyfingunni, einelti og þeirri frægu fullyrðingu að „strákar verði alltaf strákar“.

Þá má einnig sjá þegar leikarinn Terry Crews tjáði sig um kynferðislega áreitni sem hann varð fyrir af hálfu annars karlmanns og kallaði í kjölfarið eftir því að karlmenn færu að láta aðra karlmenn bera ábyrgð á gjörðum sínum. 

„Við getum ekki falið okkur frá því, þetta hefur verið í gangi alltof lengi. Við getum ekki bara hlegið að því, komið með sömu afsakanirnar,“ segir þulur auglýsingarinnar á meðan myndbrot af einelti, hlutgervingu kvenna og kynferðislegri áreitni eru sýnd. 

Þá er breytingu á tíðarandanum fagnað og segir í auglýsingunni að nú sé ekki aftur snúið vegna þess að „við trúum á það besta í karlmönnum“. Margir karlmenn séu farnir að hvetja aðra karlmenn til þess að breyta til hins betra en það þurfi fleiri til þar sem drengirnir sem fylgist með í dag séu karlmenn morgundagsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×