Viðskipti innlent

Krónan veiktist annað árið í röð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Raungengi krónunnar er þó enn tiltölulega hátt þrátt fyrir að hún hafi veikst tvö ár í röð.
Raungengi krónunnar er þó enn tiltölulega hátt þrátt fyrir að hún hafi veikst tvö ár í röð. Vísir/Stefán
Gengi krónunnar veiktist um 6,4 prósent sé horft á breytingu milli upphafs og loka síðasta árs. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans en þar segir að þetta sé annað árið í röð sem krónan veiktist þar sem hún veiktist lítillega árið 2017, eða um 0,7 prósent. Raungengi krónunnar er þó enn tiltölulega hátt.

Síðustu fjögur árin þar á undan hafði krónan styrkst á hverju ári og hafði þannig styrkst um 18,4 prósent yfir árið 2016. Var það mesta styrking gjaldmiðilsins í íslenskri hagsögu en Seðlabankinn hóf að birta útreikning á gengisvísitölum árið 1992.

Í hagsjánni segir að gjaldmiðlar allra helstu viðskiptalanda Íslands styrktust gagnvart íslensku krónunni á liðnu ári.

„Af einstökum gjaldmiðlum styrktist gengi japanska jensins mest gagnvart krónunni, eða um 13,9%. Styrking Bandaríkjadollars var næstmest, eða 11,4% en þar á eftir kom svissneski frankinn með 10,4% styrkingu.

Minnst var styrking sænsku krónunnar (2,4%) og Kanadadollars (2,6%). Mismunandi styrking gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni endurspeglarað langmestu leyti verðbreytingar þeirra gagnvart hverjum öðrum.

Þannig má t.d. sjá að bæði sænska krónan og Kanadadollar gáfu eftir gagnvart japanska jeninu og Bandaríkjadollar,“ segir í hagsjánni sem lesa má í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×