Tónlist

Ævintýraland Hjaltalín snýr aftur

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hjaltalín snýr aftur eftir langa en merkingarþrungna þögn.
Hjaltalín snýr aftur eftir langa en merkingarþrungna þögn. Mynd/Kári Björn
Hjaltalín snýr aftur eftir langa þögn. Það eru liðin þrjú ár frá því að hljómsveitin gaf síðast út og heil sjö ár frá síðustu breiðskífu. Í dag breytist það og sveitin sendir frá sér lag með myndbandi og tilkynnir um tónleika í Eldborg, en þeir eru á dagskrá þann 7. september næstkomandi. Það gæti líka verið plata í bígerð.

Högni, af hverju snúið þið aftur akkúrat núna, tengist það ártalinu eitthvað?

„Jú, einmitt – 2019, það eru sjö ár síðan að síðasta langplata kom út, þó að það hafi komið út lög í millitíðinni: það er vissulega eitthvert gullinsnið í tölunni sjö. En annars, án þess að vera með einhverjar yfirlýsingar, þá er mikil saga í þögninni – það eru þrjú ár síðan að við gáfum síðast út og það er mikil saga sem býr í þeirri þögn sem þarna ríkti. Við viljum dvelja í þeim heimi sem enn er ósagður og viljum leyfa þögninni að skapa einhverja tilfinningu og finna þennan tíma þegar eitthvað gott getur vaxið – og nú er sá tími kominn,“ segir Högni.

Högni segir alla meðlimi sveitarinnar hafa verið ákaflega skapandi á meðan á þessum tíma stóð, eins og vitað er – hann sjálfur verið að ferðast um allar trissur að boða fagnaðarerindi sitt, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar gera garðinn frægan á öllum trúarhátíðum auk þess sem Guðmundur er auðvitað bassafantur borgarinnar, eins og Högni orðar það. Hjörtur Ingvi vinnur við Þjóðleikhúsið og Viktor Orri vann með Jóhanni Jóhannssyni undir það síðasta. Nú koma þau öll saman, sterkari og reyndari.

„Þetta er dásamlegt lag. Sigga syngur þarna elegíu barónessu sem horfir yfir líf sitt og reynir að lesa úr því. Hún gerir þetta með ákveðinni eftirsjá og melankólíu. Það er mikil von og kraftur í þessu lagi en ég vil ekki segja of mikið því að þetta er á tilfinningasviðinu. Þetta er lagstúfur sem hann Hjörtur samdi og úr honum sprettur þessi heimur. Þetta er okkar ævintýraland. Að búa til músík með Hjaltalín er alltaf svolítið eins og að stíga inn í ævintýri.“

Þessu fylgir auðvitað myndband sem er leikstýrt af Andreu Björk Andrésdóttur.

„Þetta er myndband þar sem performansinn og þokkinn fá að njóta sín.“

Hjaltalín spilaði á gífurlega vel heppnuðum tónleikum í Eldborg árið 2014 og hyggst hljómsveitin endurtaka leikinn í haust á þessu sama sviði.

„Okkur langar til að halda aðra fallega tónleika í Eldborg og vonandi verðum við búin að finna tíma fyrir plötuna eða jafnvel gefa hana út þá. Fyrir mig persónulega er ekkert sem jafnast á við að syngja þessi sönglög með hljómsveitinni minni, ég tala nú ekki um að syngja með henni Siggu. Og bara að gera þessa orku sem góð hljómsveit gerir – það er alltaf mjög erfitt að endurskapa það. Sem sóló-artisti er það erfitt. Mér finnst alltaf eitthvað sérstakt gerast þegar Hjaltalín­ kemur saman, enda höfum við gengið í gegnum margt saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.