Viðskipti innlent

Varað við alvarlegum galla í Harley Davidson-hjólum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hjól af gerðunum Softail, Touring , Trike , CVO og Police, sem innköllunin nær til, gætu verið í umferð á Íslandi.
Hjól af gerðunum Softail, Touring , Trike , CVO og Police, sem innköllunin nær til, gætu verið í umferð á Íslandi. Getty/Antoine Antoniol
Ráðist hefur verið í innköllun á rúmlega 238 þúsund Harley Davidson-mótorhjólum um víða veröld vegna mögulegs leka í vökvakúplingu hjólanna. Lekinn er talinn geta orðið til þess að Harley Davidson-hjól af gerðunum Softail, Touring , Trike , CVO og Police festist í gír.

Ef marka má Safety Gate, samevrópskt neytendaverndarkerfi, þá er áhættustig vegna gallans talið alvarlegt og líklegt þykir að hann geti leitt til meiðsla ökumanna. Gallans varð fyrst vart í Þýskalandi og hefur hann jafnframt fundist í Harley Davidson-hjólum á götum Króatíu, Svíþjóðar og Hollands.

Neytendastofa bendir á að þrátt fyrir að umrædd mótorhjól séu ekki með eiginlegan þjónustuaðila á Íslandi gætu þau engu að síður hafa verið flutt til landsins af einstaklingum. Stofnunin hvetur bifhjólaeigendur til að kanna hvort þeirra hjól kunni að falla undir innköllunina og hvort að þörf sé á að skipta um kúplingsþræl hjólanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×