Viðskipti innlent

Sjávarútvegsfyrirtæki eigi erindi á markað

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgaði úr þremur í 24 á árunum 1992 til 1999, en árið 1997 var virði hlutafjár skráðra sjávarútvegsfyrirtækja ríflega 40 prósent af heildarstærð hlutabréfamarkaðarins.
Skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgaði úr þremur í 24 á árunum 1992 til 1999, en árið 1997 var virði hlutafjár skráðra sjávarútvegsfyrirtækja ríflega 40 prósent af heildarstærð hlutabréfamarkaðarins. vísir/vilhelm
Skráning íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkað getur veitt aðgang að sveigjanlegri fjármögnun á tímum hækkandi lánskjara og þannig skapað greininni frjóan jarðveg til frekari vaxtar og nýsköpunar. Ljóst er að áhugi fjárfesta er til staðar og að fyrirtæki í sjávarútvegi uppfylla kröfur og væntingar fjárfesta.

Þetta segir Ásmundur Gíslason, sérfræðingur hjá fyrirtækjaráðgjöf Arion banka, í samtali við Markaðinn. Á tíunda áratug síðustu aldar fjölgaði sjávarútvegsfyrirtækjum í Kauphöllinni ört. Skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgaði úr þremur í 24 á árunum 1992 til 1999, en árið 1997 var virði hlutafjár skráðra sjávarútvegsfyrirtækja ríflega 40 prósent af heildarstærð hlutabréfamarkaðarins.

„Það lætur nærri að í hverjum firði og hverri vík hafi verið skráð sjávarútvegsfyrirtæki. Kauphöll Íslands var nokkurs konar sjávarútvegskauphöll. Á þessum tíma nýttu félög í sjávarútvegi og tengdri starfsemi kosti kauphallar við innri og ytri vöxt og skráð félög leiddu yfirtökur í greininni,“ segir Ásmundur. Þróunin snerist við um aldamótin og var fjöldi félaga skráður af markaði á næstu árum. Ásmundur nefnir nokkrar ástæður sem geta hafa legið að baki.

„Svo virðist sem áhugi fjárfesta á sjávarútvegsfyrirtækjum hafi dvínað á árunum eftir aldamótin og markaðsgreinendur gáfu þeim minni gaum. Sjávarútvegsfyrirtækin féllu í skuggann af fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum, eins og fjármálageiranum, sem sýndu betri ávöxtun,“ segir Ásmundur. Hann bætir við að lítil velta hafi verið með bréf í félögunum og verðmyndunin því mögulega verri en skyldi. Gott aðgengi að lánsfjármagni hafi síðan greitt götuna fyrir yfirtökur og afskráningar af markaði.

Sem stendur eru tvö íslensk sjávarútvegsfyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað; HB Grandi og Iceland Seafood International. Sé horft til félaga sem stunda veiðar og vinnslu þá er HB Grandi þó eina félagið sem stendur almennum fjárfestum til boða sem fjárfestingarkostur. Hlutdeild félagsins í heildaraflamarki er um 10 prósent og þannig má segja að það hlutfall endurspegli tækifæri almennra fjárfesta til að taka þátt í fjárfestingum í félögum sem stunda veiðar og vinnslu á Íslandi.

Hlutdeild sjávarútvegsins í heildar EBITDA-framlegð íslenskra fyrirtækja hefur breyst samhliða aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Árið 2017 nam þessi hlutdeild tæpum 10 prósentum en árið 2002 var þetta sama hlutfall um 27 prósent.

„Hvað sem tímabundnum sveiflum í afkomu líður og breyttri hlutdeild greinarinnar í útflutningstekjum þá er fyrirséð að hlutdeild greinarinnar verður alltaf veruleg og mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf. Það má segja að þátttaka fjárfesta í fjármögnun greinarinnar í dag sé í litlu samhengi við mikilvægi greinarinnar og stærð.“

Öll fjármögnun frá bönkum komin

Íslensku bankarnir eru langsamlega stærsti fjármögnunaraðili langtímaskulda greinarinnar með um 80 prósenta hlutdeild á móti erlendum bönkum sem eru með um 20 prósenta hlutdeild. Íslenskur skuldabréfamarkaður hefur ekki að neinu marki verið nýttur sem fjármögnunarleið fyrir greinina. Sjávarútvegsfyrirtækin hafa notið hagstæðra kjara hjá lánastofnunum vegna góðrar afkomu greinarinnar en rekstrartölur frá síðasta ári benda hins vegar til þess að rekstrarumhverfið sé að versna. Þá geta aðrir fjármögnunarkostir orðið ákjósanlegir.

„Það eru miklar fjárfestingar að baki í greininni og skuldsetning hefur hækkað. Skráning á markað skapar tækifæri til að renna styrkari stoðum undir reksturinn í umhverfi hækkandi lánskjara,“ segir hann.

Ásmundur nefnir einnig að nýleg kaup Iceland Seafood International á Solo Seafood, sem voru fjármögnuð með útgáfu nýrra hluta í Iceland Seafood International, sé gott dæmi um hvernig hlutabréfamarkaðurinn geri félögum kleift að vaxa.

„Hlutabréfamarkaðurinn getur veitt aðgang að sveigjanlegri fjármögnun og það má segja að þolinmótt fjármagn hlutabréfamarkaðarins sé vel til þess fallið að styðja við nýsköpun og vöxt innan greinarinnar.“

Hækka megi kvótaþak

Aukin samþjöppun hefur einkennt sjávarútveginn á síðustu árum. Hlutfall af heildar þorskígildum í eigu 20 stærstu útgerðanna er 71 prósent í dag, samanborið við 58 prósent um síðustu aldamót, en sjávarútvegsfyrirtæki mega þó að hámarki aðeins eiga 12 prósent af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda. Ásmundur segir að krafa um dreifðara eignarhald geti farið saman með aukinni samþjöppun.

„Það má færa rök fyrir því að hækka megi kvótaþakið ef samhliða verður gerð krafa um dreift almennt eignarhald þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem í hlut eiga. Slíkt dreift eignarhald er best tryggt með skráningu félaga á almennan hlutabréfamarkað,“ segir Ásmundur. Þá geti dreift eignarhald einnig leitt af sér meiri og almennari sátt um gjaldtöku af nýtingu auðlindarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×