Fílar í Þjórsárdal Stefán Pálsson skrifar 26. nóvember 2018 10:35 Í október 1979 var franski kvikmyndaleikstjórinn Jean-Jacques Annaud staddur á Íslandi. Það var ekki til að vera viðstaddur frumsýningu myndar hans „Svart og hvítt í lit“ (fr. Noir et blancs en couleur), sem þó var sýnd í Háskólabíói um sama leyti. Sú kvikmynd var raunar þriggja ára gömul og frumraun leikstjórans, en hafði hlotið Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin og komið listamanninum rækilega á kortið sem einhverjum efnilegasta leikstjóra í heimi. Erindi Annauds var annað og áhugaverðara en að kynna byrjendaverk sitt. Hann var mættur til Íslands á vegum Twentieth Century Fox-kvikmyndafélagsins til að leita að tökustöðum fyrir næstu mynd sína, sem verða skyldi alþjóðlegt stórvirki. Íslensk náttúra átti að vera í veigamiklu hlutverki og til greina kom að ráða fjölmarga íslenska leikara. „Ég held að hér sé um að ræða langstærstu landkynningu sem nokkurn tíma hefur rekið á okkar fjörur,“ sagði íslenskur framkvæmdastjóri verkefnisins og lét þess getið að þegar væri búið að selja sýningarréttinn til 100 sjónvarpsstöðva um allan heim. Annaud var á faraldsfæti haustið 1979 í leit að tökustöðum. Fyrir lá að hluti myndarinnar yrði tekinn í þjóðgörðum í Kenýa, en leikstjórinn var einnig á höttunum eftir berangurslegum norðurslóðum og fór í því skyni bæði til Noregs og Finnlands. Blaðamaður Helgarpóstsins lýsti leitinni svo: „Það sem Annaud er m.a. að leita að, er hellir eða hellisskúti sem snýr út að eyðilegu landslagi. Ef hann finnur slíkan helli hér, gerir hann ráð fyrir að verða hér við kvikmyndatöku í fimm eða sex vikur, annars ekki nema í tvær til þjár vikur, því hér segist hann hafa fundið landslag, sem ekki sé hægt að finna annars staðar.“ Ástæða þess að íslenska landslagið hentaði svo vel til myndatöku var sú að sagan átti að gerast fyrir um 80 þúsund árum, meðal steinaldarfólks þegar ísöld ríkti á Jörðinni. „Leitin að eldinum“ (fr. La Guerre du feu) byggði á geysivinsælli samnefndri skáldsögu frá árinu 1911. Bókin var belgísk og höfundur hennar sagður J. H. Rosny, en það var skáldanafn tveggja bræðra sem teljast í dag brautryðjendur á sviði vísinda- og fantasíuskáldskapar – ekki hvað síst vegna bóka sinna sem gerast áttu á forsögulegum tíma.Hver er sjálfum sér næstur Leitin að eldinum segir frá frumstæðum ættbálki steinaldarmanna sem náð hafa að tileinka sér eldinn, en kunna þó ekki að kveikja hann sjálfir. Þegar samfélag þeirra verður fyrir árás Neanderdalsmanna slokknar eldurinn sem hellisbúasamfélagið hafði staðið vörð um mann fram af manni. Í kjölfarið eru þrjú úr hópnum send út af örkinni til að endurheimta eldinn dýrmæta. Þau lenda í æsilegum ævintýrum, enda lífsbaráttan grimm og hættur við hvert fótmál. Að lokum komast þau í kynni við fólk á hærra menningarstigi og læra ekki aðeins að tendra eld, heldur öðlast dýpri skilning á ýmsu í lífinu, uppgötva ástina og unaðsemdir kynlífs svo dæmi sé tekið. Þótt stórt bandarískt kvikmyndafyrirtæki stæði að myndinni ætlaði leikstjórinn franski sér svo sannarlega ekki að búa til neina Hollywood-mynd. Í viðtölum fór hann hraklegum orðum um nútímakvikmyndagerð sem heilalausa afþreyingu. Verk hans yrði sálfræðilegt, fjallaði um sammannlegar tilfinningar og lýsingin á samfélagi steinaldarfólksins yrði eins raunsönn og frekast yrði unnt. Í því skyni fékk hann til liðs við sig óþekkta leikara, sem fyrst og fremst voru valdir út frá útliti og líkamsburðum. Sem fyrr segir kom vel til greina að ráða íslenska leikara í ýmis aukahlutverk og fengu framleiðendur skrá frá Leikarafélaginu um alla félagsmenn þeirra ásamt ljósmyndum. Var þar sérstaklega horft til þess að leikararnir væru sterkbyggðir, en þó ekki í miklum holdum, enda lágu steinaldarmenn ekki í vellystingum. Þá var það talinn kostur ef leikararnir bæru ör eða einhver líkamslýti, sem útbreidd voru í tíð forfeðranna. Samið var við nokkra íslenska leikara og var til þess tekið að þeir þættu hraustari en franskir kollegar þeirra. Ekki kom til mála að láta ísaldarfólkið mæla á reiprennandi ensku eða frönsku, heldur var breski rithöfundurinn og málvísindamaðurinn Anthony Burgess fenginn til að semja sérstakt tungumál fyrir myndina. Burgess er kunnastur fyrir skáldsögu sína A Clockwork Orange og hafði samið sérstakt slangurmál fyrir þá sögu, sem jafnframt var notað í kvikmyndagerð hennar árið 1971. Að þessu sinni skóp hann heildstætt tungumál sem samanstóð af hundrað orðum og flóknu bendingakerfi sem leikararnir þurftu að læra.Fílabúgarður á hálendinu En það þurfti meira en gróðurvana fjöll og eyðisanda til að minna á ísaldartímann. Forsögulegt dýralíf var einnig í aðalhlutverki í sögunni um leitina að eldinum og þá einkum loðfílar. Í dag myndu leikstjórar vafalítið grípa til tölvutækninnar, en um 1980 var fátt slíkt í boði. Þess í stað yrðu loðfílarnir leiknir af venjulegum fílum sem klæddir væru í nokkurs konar loðkápur með hárlímingum. Hlutverk sverðtígrisdýrs í sögunni var svo í höndum ljóna með gervitennur og ámálaðar rákir. Sérstakur ráðunautur kvikmyndagerðarfólksins þegar kom að dýralífinu var hinn kunni breski líffræðingur Desmond Morris, sem öðlast hafði heimsfrægð rúmum áratug fyrr fyrir bók sína „Nakta apann“ (e. The Naked Ape). Tökustaðir myndarinnar hér á landi voru flestir ákveðnir í Þórsmörk og Þjórsárdal, en á síðarnefnda staðnum var komið upp heljarmikilli girðingu fyrir fimmtán fíla, auk þess sem áætlað var að flytja inn tvö tígrisdýr og skógarbjörn. Verkefnið var unnið í náinni samvinnu við embætti yfirdýralæknis, til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. Samið var við flutningafyrirtæki um að koma skepnunum til landsins og tryggðu framleiðendur sér mikið magn af lélegu heyi til að fóðra fílana á, en að mati sérfræðinga var venjulegt íslenskt hey of kjarngott fyrir ferfætlingana ferlegu. Allt var því til reiðu að hefja kvikmyndatökur sumarið 1980 og gera náttúru Þórsmerkur ódauðlega á hvíta tjaldinu. En aldrei kom tökuliðið og engir fílar voru geymdir innan girðingarinnar í Þjórsárdal. Ástæðan var verkfall í Hollywood. Leikaraverkfallið 1980 er það næstlengsta í sögu stéttarinnar í Bandaríkjunum og varði í þrjá mánuði. Það raskaði áætlunum fjölmargra kvikmynda- og sjónvarpsfyrirtækja, þar sem framleiðsla fjölda mynda og sjónvarpsþáttaraða komst í uppnám. Þótt ætla mætti að verkfall í Bandaríkjunum hefði lítil áhrif á kvikmyndaverkefni á Íslandi frestuðust tökur og þar sem einungis var hægt að vinna að myndinni björtustu og hlýjustu mánuði ársins varð fljótlega ljóst að ekkert yrði úr komu Annauds og hans fólks sumarið 1980. Þótt opinberlega væri hér aðeins um eins árs frestun að ræða, fór kvikmyndafyrirtækið fljótlega að svipast um eftir öðrum kostum. Niðurstaðan varð sú að velja nýja tökustaði í Skotlandi, sem féllu ekki alveg eins vel að hugmyndum leikstjórans um ísaldarlandslag en voru mun ódýrari og kölluðu á minna umstang. Íslendingar misstu því af frábærri landkynningu og urðu sömuleiðis af talsverðum tekjum, enda hafði því verið haldið á lofti að kostnaðurinn við myndina næmi um tveimur skuttogurum – sem var alvanaleg mælieining á verðmæti á þessum árum. Myndin var tekin á tæplega einu ári og frumsýnd í lok árs 1981. Hún sópaði til sín verðlaunum á evrópskum kvikmyndahátíðum og hreppti ein Óskarsverðlaun, fyrir bestu búninga. Aðalleikararnir vöktu verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína og hafa sum þeirra öðlast glæstan feril, þótt leikarinn Ron Perlman sé vafalítið kunnastur í dag. Hann hefur lýst áhuga sínum á að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2020. Það skyldi þó aldrei fara svo að við fáum næstum-því-Íslandsvin í Hvíta húsið eftir nokkur misseri? Saga til næsta bæjar Mest lesið Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Harry fær afsökunarbeiðni Lífið Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Í október 1979 var franski kvikmyndaleikstjórinn Jean-Jacques Annaud staddur á Íslandi. Það var ekki til að vera viðstaddur frumsýningu myndar hans „Svart og hvítt í lit“ (fr. Noir et blancs en couleur), sem þó var sýnd í Háskólabíói um sama leyti. Sú kvikmynd var raunar þriggja ára gömul og frumraun leikstjórans, en hafði hlotið Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin og komið listamanninum rækilega á kortið sem einhverjum efnilegasta leikstjóra í heimi. Erindi Annauds var annað og áhugaverðara en að kynna byrjendaverk sitt. Hann var mættur til Íslands á vegum Twentieth Century Fox-kvikmyndafélagsins til að leita að tökustöðum fyrir næstu mynd sína, sem verða skyldi alþjóðlegt stórvirki. Íslensk náttúra átti að vera í veigamiklu hlutverki og til greina kom að ráða fjölmarga íslenska leikara. „Ég held að hér sé um að ræða langstærstu landkynningu sem nokkurn tíma hefur rekið á okkar fjörur,“ sagði íslenskur framkvæmdastjóri verkefnisins og lét þess getið að þegar væri búið að selja sýningarréttinn til 100 sjónvarpsstöðva um allan heim. Annaud var á faraldsfæti haustið 1979 í leit að tökustöðum. Fyrir lá að hluti myndarinnar yrði tekinn í þjóðgörðum í Kenýa, en leikstjórinn var einnig á höttunum eftir berangurslegum norðurslóðum og fór í því skyni bæði til Noregs og Finnlands. Blaðamaður Helgarpóstsins lýsti leitinni svo: „Það sem Annaud er m.a. að leita að, er hellir eða hellisskúti sem snýr út að eyðilegu landslagi. Ef hann finnur slíkan helli hér, gerir hann ráð fyrir að verða hér við kvikmyndatöku í fimm eða sex vikur, annars ekki nema í tvær til þjár vikur, því hér segist hann hafa fundið landslag, sem ekki sé hægt að finna annars staðar.“ Ástæða þess að íslenska landslagið hentaði svo vel til myndatöku var sú að sagan átti að gerast fyrir um 80 þúsund árum, meðal steinaldarfólks þegar ísöld ríkti á Jörðinni. „Leitin að eldinum“ (fr. La Guerre du feu) byggði á geysivinsælli samnefndri skáldsögu frá árinu 1911. Bókin var belgísk og höfundur hennar sagður J. H. Rosny, en það var skáldanafn tveggja bræðra sem teljast í dag brautryðjendur á sviði vísinda- og fantasíuskáldskapar – ekki hvað síst vegna bóka sinna sem gerast áttu á forsögulegum tíma.Hver er sjálfum sér næstur Leitin að eldinum segir frá frumstæðum ættbálki steinaldarmanna sem náð hafa að tileinka sér eldinn, en kunna þó ekki að kveikja hann sjálfir. Þegar samfélag þeirra verður fyrir árás Neanderdalsmanna slokknar eldurinn sem hellisbúasamfélagið hafði staðið vörð um mann fram af manni. Í kjölfarið eru þrjú úr hópnum send út af örkinni til að endurheimta eldinn dýrmæta. Þau lenda í æsilegum ævintýrum, enda lífsbaráttan grimm og hættur við hvert fótmál. Að lokum komast þau í kynni við fólk á hærra menningarstigi og læra ekki aðeins að tendra eld, heldur öðlast dýpri skilning á ýmsu í lífinu, uppgötva ástina og unaðsemdir kynlífs svo dæmi sé tekið. Þótt stórt bandarískt kvikmyndafyrirtæki stæði að myndinni ætlaði leikstjórinn franski sér svo sannarlega ekki að búa til neina Hollywood-mynd. Í viðtölum fór hann hraklegum orðum um nútímakvikmyndagerð sem heilalausa afþreyingu. Verk hans yrði sálfræðilegt, fjallaði um sammannlegar tilfinningar og lýsingin á samfélagi steinaldarfólksins yrði eins raunsönn og frekast yrði unnt. Í því skyni fékk hann til liðs við sig óþekkta leikara, sem fyrst og fremst voru valdir út frá útliti og líkamsburðum. Sem fyrr segir kom vel til greina að ráða íslenska leikara í ýmis aukahlutverk og fengu framleiðendur skrá frá Leikarafélaginu um alla félagsmenn þeirra ásamt ljósmyndum. Var þar sérstaklega horft til þess að leikararnir væru sterkbyggðir, en þó ekki í miklum holdum, enda lágu steinaldarmenn ekki í vellystingum. Þá var það talinn kostur ef leikararnir bæru ör eða einhver líkamslýti, sem útbreidd voru í tíð forfeðranna. Samið var við nokkra íslenska leikara og var til þess tekið að þeir þættu hraustari en franskir kollegar þeirra. Ekki kom til mála að láta ísaldarfólkið mæla á reiprennandi ensku eða frönsku, heldur var breski rithöfundurinn og málvísindamaðurinn Anthony Burgess fenginn til að semja sérstakt tungumál fyrir myndina. Burgess er kunnastur fyrir skáldsögu sína A Clockwork Orange og hafði samið sérstakt slangurmál fyrir þá sögu, sem jafnframt var notað í kvikmyndagerð hennar árið 1971. Að þessu sinni skóp hann heildstætt tungumál sem samanstóð af hundrað orðum og flóknu bendingakerfi sem leikararnir þurftu að læra.Fílabúgarður á hálendinu En það þurfti meira en gróðurvana fjöll og eyðisanda til að minna á ísaldartímann. Forsögulegt dýralíf var einnig í aðalhlutverki í sögunni um leitina að eldinum og þá einkum loðfílar. Í dag myndu leikstjórar vafalítið grípa til tölvutækninnar, en um 1980 var fátt slíkt í boði. Þess í stað yrðu loðfílarnir leiknir af venjulegum fílum sem klæddir væru í nokkurs konar loðkápur með hárlímingum. Hlutverk sverðtígrisdýrs í sögunni var svo í höndum ljóna með gervitennur og ámálaðar rákir. Sérstakur ráðunautur kvikmyndagerðarfólksins þegar kom að dýralífinu var hinn kunni breski líffræðingur Desmond Morris, sem öðlast hafði heimsfrægð rúmum áratug fyrr fyrir bók sína „Nakta apann“ (e. The Naked Ape). Tökustaðir myndarinnar hér á landi voru flestir ákveðnir í Þórsmörk og Þjórsárdal, en á síðarnefnda staðnum var komið upp heljarmikilli girðingu fyrir fimmtán fíla, auk þess sem áætlað var að flytja inn tvö tígrisdýr og skógarbjörn. Verkefnið var unnið í náinni samvinnu við embætti yfirdýralæknis, til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. Samið var við flutningafyrirtæki um að koma skepnunum til landsins og tryggðu framleiðendur sér mikið magn af lélegu heyi til að fóðra fílana á, en að mati sérfræðinga var venjulegt íslenskt hey of kjarngott fyrir ferfætlingana ferlegu. Allt var því til reiðu að hefja kvikmyndatökur sumarið 1980 og gera náttúru Þórsmerkur ódauðlega á hvíta tjaldinu. En aldrei kom tökuliðið og engir fílar voru geymdir innan girðingarinnar í Þjórsárdal. Ástæðan var verkfall í Hollywood. Leikaraverkfallið 1980 er það næstlengsta í sögu stéttarinnar í Bandaríkjunum og varði í þrjá mánuði. Það raskaði áætlunum fjölmargra kvikmynda- og sjónvarpsfyrirtækja, þar sem framleiðsla fjölda mynda og sjónvarpsþáttaraða komst í uppnám. Þótt ætla mætti að verkfall í Bandaríkjunum hefði lítil áhrif á kvikmyndaverkefni á Íslandi frestuðust tökur og þar sem einungis var hægt að vinna að myndinni björtustu og hlýjustu mánuði ársins varð fljótlega ljóst að ekkert yrði úr komu Annauds og hans fólks sumarið 1980. Þótt opinberlega væri hér aðeins um eins árs frestun að ræða, fór kvikmyndafyrirtækið fljótlega að svipast um eftir öðrum kostum. Niðurstaðan varð sú að velja nýja tökustaði í Skotlandi, sem féllu ekki alveg eins vel að hugmyndum leikstjórans um ísaldarlandslag en voru mun ódýrari og kölluðu á minna umstang. Íslendingar misstu því af frábærri landkynningu og urðu sömuleiðis af talsverðum tekjum, enda hafði því verið haldið á lofti að kostnaðurinn við myndina næmi um tveimur skuttogurum – sem var alvanaleg mælieining á verðmæti á þessum árum. Myndin var tekin á tæplega einu ári og frumsýnd í lok árs 1981. Hún sópaði til sín verðlaunum á evrópskum kvikmyndahátíðum og hreppti ein Óskarsverðlaun, fyrir bestu búninga. Aðalleikararnir vöktu verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína og hafa sum þeirra öðlast glæstan feril, þótt leikarinn Ron Perlman sé vafalítið kunnastur í dag. Hann hefur lýst áhuga sínum á að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2020. Það skyldi þó aldrei fara svo að við fáum næstum-því-Íslandsvin í Hvíta húsið eftir nokkur misseri?
Saga til næsta bæjar Mest lesið Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Harry fær afsökunarbeiðni Lífið Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira