Granna ber að garði Stefán Pálsson skrifar 10. nóvember 2018 15:00 Á árunum milli fyrri og síðari heimsstyrjaldanna var Alþjóðadómstóllinn starfræktur í hollensku borginni Haag. Dómstóllinn, sem að mörgu leyti varð fyrirrennari Alþjóðamannréttindadómstólsins sem nú starfar í sömu borg, var stofnaður árið 1920 og rekinn í tengslum við Þjóðabandalagið. Gríðarlegar væntingar voru bundnar við dómstól þennan, enda höfðu stjórnmálaspekingar í margar aldir látið sig dreyma um stofnun sem gæti skorið á sanngjarnan hátt úr deilumálum ríkja og afstýrt þannig blóðugum styrjöldum. Þegar ófriðarskýin tóku að hrannast upp í Evrópu um miðjan fjórða áratuginn fjaraði undan Alþjóðadómstólnum og færri mál rötuðu á borð hans. Á árunum í kringum 1930 hafði dómstóllinn hins vegar veigamiklu hlutverki að gegna og leysti úr fjölda mála. Þar á meðal deilunni um Land Eiríks rauða eða Eirik Raudes Land, eins og það nefndist á norsku. Deilan snerist um landsvæði á Grænlandi. Danir gerðu tilkall til fullra yfirráða á Grænlandi, en höfðu þó lítt amast við umsvifum norskra hvalveiðimanna norðarlega á Austur-Grænlandi, á slóðum sem höfðu verið að mestu óbyggðar að öðru leyti. Árið 1921 freistuðu dönsk stjórnvöld að banna öll umsvif útlendinga á Grænlandi, sem olli árekstrum milli þeirra og Norðmanna, uns samkomulag náðist á árinu 1924 um að þeim síðarnefndu væri heimilt að koma sér upp veiði- og rannsóknaraðstöðu norðan tiltekinnar breiddargráðu. En karpið um aðstöðuna á austurströndinni í byrjun þriðja áratugarins varð til þess að þjóðernispólitík hljóp í málið. Metnaðarfullir Norðmenn tóku að rifja upp söguna og komust að þeirri niðurstöðu að ef til vill hefði Grænland átt að fylgja með þegar Norðmenn klufu sig frá Dönum. Svipuð sjónarmið tóku að láta á sér kræla á Íslandi, þar sem lítill hópur manna talaði fyrir landakröfum á Grænlandi. Norsk stjórnvöld tóku dræmt í allar hugmyndir um landnám á Grænlandi og vildu síður efna til fjandskapar við Dani. Sumarið 1931 ákvað því hópur norskra ævintýramanna að taka málið í sínar eigin hendur og þann 27. júní drógu þeir norska fánann að húni og lýstu yfir stofnun Lands Eiríks rauða, sem lúta skyldi norskri stjórn. Tilkynning þessa efnis var samstundis send á alla helstu fjölmiðla. Yfirlýsingin vakti hrifningu almennings og þorði ríkisstjórnin í Ósló ekki öðru en að gera kröfurnar að sínum fáeinum dögum síðar. Skipti þar vafalítið máli að þótt ráðherrar stjórnarinnar hefðu sumir hverjir litla trú á þessu ævintýri, var Hákon konungur sannfærður um að málstaður Noregs væri sterkur. Sem fyrr segir lauk þessu Grænlandsævintýri Norðmanna þó fyrir dómstólnum í Haag tveimur árum síðar. Nýtt landnám Helsta röksemd Norðmanna í deilunni um Austur-Grænland var sú að Danir hefðu fyrirgert rétti sínum til stórs hluta austurstrandarinnar með því að nýta hana ekki að neinu marki. Í því ljósi bæri að líta á landsvæðið sem ónumið og að Noregur væri raunar með hálfgerðan hefðarrétt á því nú þegar. Þótt Alþjóðadómstóllinn hafnaði að endingu þessum rökum, höfðu þau valdið Dönum nokkrum áhyggjum um talsvert skeið. Það var einmitt í tengslum við tilraunir þeirra til að styrkja yfirráðaréttinn á austurströndinni sem Ísfirðingar fengu merkilega heimsókn sumarið 1925. Það ár réðst danska nýlendustjórnin í að flytja tólf fjölskyldur, alls 89 manns – þar af um helmingurinn börn – frá Tasilaq á Suður-Grænlandi til Scoresbysunds, sem í dag nefnist Ittoqqortoormiit. Svæðið var óbyggt, þótt finna mætti minjar um búsetu inúíta þar fyrr á öldum. Það var jafnframt auðugt að veiðidýrum og reyndist því auðvelt að finna sjálfboðaliða til að flytjast þangað, en hagur íbúanna í Tasilaq fór um þessar mundir versnandi vegna offjölgunar og þröngra landkosta. Grænlandsfarið Gustav Holm flutti fjölskyldurnar til sinna nýju heimkynna, en á leiðinni hafði það viðkomu á Ísafirði. Önnur ástæða heimsóknarinnar var hversdagsleg, þar sem taka þurfti vistir og vetrarforða fyrir hina fyrirhuguðu byggð. Hin var óvenjulegri: til að koma á laggirnar nýju samfélagi þurfti kirkju og prest. Prestinn þurfti að vígja og það skyldi gert í Ísafjarðarkirkju. Heimsóknin vakti gríðarlega athygli landsmanna, en þó einkum Ísfirðinga sjálfra sem þrátt fyrir nálægðina við Grænland höfðu fæstir haft nokkuð af Grænlendingum að segja. Rithöfundurinn Gunnar M. Magnúss fylgdist grannt með heimsókninni og skrifaði síðar nákvæma ferðasögu, en jafnframt var mikið um hana fjallað í héraðsblöðum og raunar einnig í dagblöðunum fyrir sunnan. Gustav Holm kom í Ísafjarðarhöfn þriðjudaginn 25. ágúst, um það bil í lok vinnudags. Allir sem vettlingi gátu valdið þustu því niður að höfn til að berja aðkomufólkið augum. Óvenjumargt aðkomumanna úr næstu sveitum var í bænum, margir hverjir gagngert mættir í þeim tilgangi að sjá Grænlendingana. Lýsti Gunnar M. Magnúss gestunum á þann hátt að þeir væru ekki „…frændalegir ásýndum. Þeir voru þó næsta líkir því, sem landsmenn höfðu gert sér í hugarlund eftir myndum og frásögnum: lágvaxnir, kviklegir í hreyfingum, kinnbeinamiklir og skammleitir með mongólasvip til augnanna, svarthærðir og stríhærðir.“ Um borð í skipinu var öll búslóð fólksins sem flytja skyldi á nýja staðinn, þar á meðal hvers kyns veiðarfæri, skíði, tjöld, sextán húðkeipar auk minni báta, 10 hundasleðar með aktygjum og 77 sleðahundar. Daginn eftir buðu Ísfirðingar til skemmtiferðar inn í Tungudal, þangað sem fjöldi heimamanna og stærstur hluti Grænlendinganna mættu, nutu veitinga og tóku lagið. Var þar vel veitt af kaffi og kökum, en ekki hvað síst tóbaki. Fengu gestirnir hina fínustu vindla „með magabelti“, sem féllu afar vel í kramið. Bar fréttariturum saman um að aðkomufólkið hafi skemmt sér konunglega og var sérstaklega tiltekið hversu merkilegt þeim hafi þótt að sjá hesta í fyrsta sinn, sem þau hafi raunar talið risavaxna hunda. Þó kom Íslendingum nokkuð á óvart hversu lítil undrunarmerki Grænlendingarnir hefðu sýnt við öllum þeim nýjungum sem fyrir augu bar. „Vottar það visku og hóglæti“, skrifaði fréttaritari blaðsins Skutuls. Góðar gjafir Ísfirðingar voru kátir eftir sveitaferðina, en þó fannst mörgum miður að ekki hefðu allir gestirnir tekið þátt í henni. Komst sá kvittur á kreik að danskir skipverjar Gustav Holm hafi ekki viljað hleypa þeim sem fátæklegast voru búnir frá borði. Hvað svo sem sannleiksgildi þeirrar sögu líður voru Íslendingar til í að trúa öllu illu upp á dönsk yfirvöld og tóku Ísfirðingar nú að streyma niður á höfn með hvers kyns gjafir til grænlensku fjölskyldnanna – staðráðnir í að sýna fram á íslenska gestrisni en gera í leiðinni gömlu herraþjóðinni skömm til. Á fimmtudeginum var sjálf prestvígslan í Ísafjarðarkirkju. Danskur prófastur, sem var með í för, sá um að vígja prestsefnið Seier Abelsen að nafni. Til viðbótar voru sjö íslenskir prestar viðstaddir í fullum skrúða, þar á meðal sóknarprestur Ísfirðinga, séra Sigurgeir Sigurðsson, síðar biskup. Með þessu storkuðu guðsmennirnir óvart eða viljandi gamalli spásögn þess efnis að Gleiðarhjalli myndi steypast yfir Ísafjarðarbæ og kirkjuna ef sjö prestar stæðu þar fyrir altari. Ekki fórst Ísafjarðarbær á meðan á messunni stóð og í kjölfarið var slegið upp nýrri veislu, að þessu sinni í bíóhúsi bæjarins – með kvikmynd, fimleikasýningu, kaffiþambi og vindlareykingum sem fyrr. Í þakklætisskyni við hinn góða viðurgjörning ákváðu Grænlendingarnir að efna til sýningar á kajakróðri og skotfimi á Pollinum. Reru þeir bátum sínum fram og aftur með ógnarhraða, hvolfdu þeim og réttu við á víxl. Jafnframt beittu þeir skutlum sínum af mikilli snilld. Engan sel var raunar að finna á Pollinum, en þess í stað tókst veiðimönnunum að hitta fugla á flugi og uppskáru lof áhorfenda. Grænlenski hópurinn yfirgaf Ísafjörð að morgni 29. ágúst. Skipið hreppti mikið óveður, en að lokum komst það til Scoresbysunds eftir viku útivist. Ekki bárust Ísfirðingum frekari fregnir af afdrifum gesta sinna, enda Grænland í raun lokað land þaðan sem sáralitlar fregnir bárust. Snemma árs 1928 flutti þó Bjarmi, blað Kristinboðssambandsins stutta fregn af samfélaginu við Scoresbysund. Blaðið hafði fjallað ítarlega um vígslu Seiers Abelsen og farið fögrum orðum um trúrækni Grænlendinganna, sem ritstjóranum þótti augljóslega að væri mun meiri og hreinni en Íslendinga. Birti blaðið frásögn úr riti danska trúboðsfélagsins þar sem fram kom að margir íbúanna hafi átt við sjúkdóma að stríða og þar af hafi fjórir fullorðnir látist, að sögn séra Abelsens. Hefði þar slæmum húsakosti verið um að kenna. Veikindin hefðu leitt til mikilla þrenginga og hafi hluti fólksins neyðst til að leggja sér gömul tjaldskinn til munns og einn veiðimaðurinn orðið að slátra tveimur hunda sinna til að seðja hungur barna sinna. Lét presturinn þess getið að samfélagið hefði orðið enn verr úti ef ekki hefðu komið til veglegar fatagjafir Ísfirðinga sumarið 1925. Tók hann þó fram að hópurinn væri kominn yfir erfiðasta hjallann, enda átti byggðin við Scoresbysund eftir að eflast og dafna næstu áratugina, þótt kveikjan að henni – landaþrætur við Norðmenn – væri löngu fyrir bí. Birtist í Fréttablaðinu Grænland Saga til næsta bæjar Mest lesið Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Lífið Siðlaus maður étur skít og öðlast samkennd Lífið Fegurðardrottning fékk nýtt herbergi Lífið Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Lífið Galvaskar Gucci gellur á galakvöldi Tíska og hönnun Breiðholtsskóli og Hagaskóli áfram í Skrekk Lífið Sunneva nefndi son Jóhönnu Lífið Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Lífið Segist aldrei myndu deita Depp Lífið „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menning Fleiri fréttir „Ef við erum ekki að fara fá matareitrun núna þá er ekki hægt að fá matareitrun“ Siðlaus maður étur skít og öðlast samkennd Fegurðardrottning fékk nýtt herbergi Breiðholtsskóli og Hagaskóli áfram í Skrekk Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Segist aldrei myndu deita Depp Tjáði sig óvænt um sína fyrrverandi Sunneva nefndi son Jóhönnu Tanja Ýr og Ryan fengu að vita kynið á sjöttu viku Meirihluti er haldinn loddaralíðan Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Tapaði miklum peningum í vínbransanum Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Stjörnulífið: Hrekkjavaka og seiðandi kroppar Quincy Jones er látinn Dawson's Creek leikari með krabbamein Kom út úr skápnum er hún lýsti yfir stuðningi við Harris Margot Robbie orðin mamma Syndir sex kílómetra með kayak í eftirdragi Mennirnir sem allir eru að tala um: Hverjir eru Costco-gæjarnir og Rizzlerinn? Krakkatían: Vatnsmelónur, fótbolti og grænn froskur Myndaveisla: Snjórinn féll á bjórþyrsta borgara Afmæliskaka hinnar sönnu raunveruleikastjörnu? Bestu hrekkjavökubúningar stjarnanna Hlutir sem skapa notalega stemningu á heimilinu Stefnir að því að gera mömmu sína að stjörnu Dó í 33 mínútur og 3 sekúndur Fréttatía vikunnar: Kosningasvik, náttúruhamfarir og sorg Bjarni Ben orðinn tvöfaldur afi Hollywood stjarna til liðs við Laufeyju Sjá meira
Á árunum milli fyrri og síðari heimsstyrjaldanna var Alþjóðadómstóllinn starfræktur í hollensku borginni Haag. Dómstóllinn, sem að mörgu leyti varð fyrirrennari Alþjóðamannréttindadómstólsins sem nú starfar í sömu borg, var stofnaður árið 1920 og rekinn í tengslum við Þjóðabandalagið. Gríðarlegar væntingar voru bundnar við dómstól þennan, enda höfðu stjórnmálaspekingar í margar aldir látið sig dreyma um stofnun sem gæti skorið á sanngjarnan hátt úr deilumálum ríkja og afstýrt þannig blóðugum styrjöldum. Þegar ófriðarskýin tóku að hrannast upp í Evrópu um miðjan fjórða áratuginn fjaraði undan Alþjóðadómstólnum og færri mál rötuðu á borð hans. Á árunum í kringum 1930 hafði dómstóllinn hins vegar veigamiklu hlutverki að gegna og leysti úr fjölda mála. Þar á meðal deilunni um Land Eiríks rauða eða Eirik Raudes Land, eins og það nefndist á norsku. Deilan snerist um landsvæði á Grænlandi. Danir gerðu tilkall til fullra yfirráða á Grænlandi, en höfðu þó lítt amast við umsvifum norskra hvalveiðimanna norðarlega á Austur-Grænlandi, á slóðum sem höfðu verið að mestu óbyggðar að öðru leyti. Árið 1921 freistuðu dönsk stjórnvöld að banna öll umsvif útlendinga á Grænlandi, sem olli árekstrum milli þeirra og Norðmanna, uns samkomulag náðist á árinu 1924 um að þeim síðarnefndu væri heimilt að koma sér upp veiði- og rannsóknaraðstöðu norðan tiltekinnar breiddargráðu. En karpið um aðstöðuna á austurströndinni í byrjun þriðja áratugarins varð til þess að þjóðernispólitík hljóp í málið. Metnaðarfullir Norðmenn tóku að rifja upp söguna og komust að þeirri niðurstöðu að ef til vill hefði Grænland átt að fylgja með þegar Norðmenn klufu sig frá Dönum. Svipuð sjónarmið tóku að láta á sér kræla á Íslandi, þar sem lítill hópur manna talaði fyrir landakröfum á Grænlandi. Norsk stjórnvöld tóku dræmt í allar hugmyndir um landnám á Grænlandi og vildu síður efna til fjandskapar við Dani. Sumarið 1931 ákvað því hópur norskra ævintýramanna að taka málið í sínar eigin hendur og þann 27. júní drógu þeir norska fánann að húni og lýstu yfir stofnun Lands Eiríks rauða, sem lúta skyldi norskri stjórn. Tilkynning þessa efnis var samstundis send á alla helstu fjölmiðla. Yfirlýsingin vakti hrifningu almennings og þorði ríkisstjórnin í Ósló ekki öðru en að gera kröfurnar að sínum fáeinum dögum síðar. Skipti þar vafalítið máli að þótt ráðherrar stjórnarinnar hefðu sumir hverjir litla trú á þessu ævintýri, var Hákon konungur sannfærður um að málstaður Noregs væri sterkur. Sem fyrr segir lauk þessu Grænlandsævintýri Norðmanna þó fyrir dómstólnum í Haag tveimur árum síðar. Nýtt landnám Helsta röksemd Norðmanna í deilunni um Austur-Grænland var sú að Danir hefðu fyrirgert rétti sínum til stórs hluta austurstrandarinnar með því að nýta hana ekki að neinu marki. Í því ljósi bæri að líta á landsvæðið sem ónumið og að Noregur væri raunar með hálfgerðan hefðarrétt á því nú þegar. Þótt Alþjóðadómstóllinn hafnaði að endingu þessum rökum, höfðu þau valdið Dönum nokkrum áhyggjum um talsvert skeið. Það var einmitt í tengslum við tilraunir þeirra til að styrkja yfirráðaréttinn á austurströndinni sem Ísfirðingar fengu merkilega heimsókn sumarið 1925. Það ár réðst danska nýlendustjórnin í að flytja tólf fjölskyldur, alls 89 manns – þar af um helmingurinn börn – frá Tasilaq á Suður-Grænlandi til Scoresbysunds, sem í dag nefnist Ittoqqortoormiit. Svæðið var óbyggt, þótt finna mætti minjar um búsetu inúíta þar fyrr á öldum. Það var jafnframt auðugt að veiðidýrum og reyndist því auðvelt að finna sjálfboðaliða til að flytjast þangað, en hagur íbúanna í Tasilaq fór um þessar mundir versnandi vegna offjölgunar og þröngra landkosta. Grænlandsfarið Gustav Holm flutti fjölskyldurnar til sinna nýju heimkynna, en á leiðinni hafði það viðkomu á Ísafirði. Önnur ástæða heimsóknarinnar var hversdagsleg, þar sem taka þurfti vistir og vetrarforða fyrir hina fyrirhuguðu byggð. Hin var óvenjulegri: til að koma á laggirnar nýju samfélagi þurfti kirkju og prest. Prestinn þurfti að vígja og það skyldi gert í Ísafjarðarkirkju. Heimsóknin vakti gríðarlega athygli landsmanna, en þó einkum Ísfirðinga sjálfra sem þrátt fyrir nálægðina við Grænland höfðu fæstir haft nokkuð af Grænlendingum að segja. Rithöfundurinn Gunnar M. Magnúss fylgdist grannt með heimsókninni og skrifaði síðar nákvæma ferðasögu, en jafnframt var mikið um hana fjallað í héraðsblöðum og raunar einnig í dagblöðunum fyrir sunnan. Gustav Holm kom í Ísafjarðarhöfn þriðjudaginn 25. ágúst, um það bil í lok vinnudags. Allir sem vettlingi gátu valdið þustu því niður að höfn til að berja aðkomufólkið augum. Óvenjumargt aðkomumanna úr næstu sveitum var í bænum, margir hverjir gagngert mættir í þeim tilgangi að sjá Grænlendingana. Lýsti Gunnar M. Magnúss gestunum á þann hátt að þeir væru ekki „…frændalegir ásýndum. Þeir voru þó næsta líkir því, sem landsmenn höfðu gert sér í hugarlund eftir myndum og frásögnum: lágvaxnir, kviklegir í hreyfingum, kinnbeinamiklir og skammleitir með mongólasvip til augnanna, svarthærðir og stríhærðir.“ Um borð í skipinu var öll búslóð fólksins sem flytja skyldi á nýja staðinn, þar á meðal hvers kyns veiðarfæri, skíði, tjöld, sextán húðkeipar auk minni báta, 10 hundasleðar með aktygjum og 77 sleðahundar. Daginn eftir buðu Ísfirðingar til skemmtiferðar inn í Tungudal, þangað sem fjöldi heimamanna og stærstur hluti Grænlendinganna mættu, nutu veitinga og tóku lagið. Var þar vel veitt af kaffi og kökum, en ekki hvað síst tóbaki. Fengu gestirnir hina fínustu vindla „með magabelti“, sem féllu afar vel í kramið. Bar fréttariturum saman um að aðkomufólkið hafi skemmt sér konunglega og var sérstaklega tiltekið hversu merkilegt þeim hafi þótt að sjá hesta í fyrsta sinn, sem þau hafi raunar talið risavaxna hunda. Þó kom Íslendingum nokkuð á óvart hversu lítil undrunarmerki Grænlendingarnir hefðu sýnt við öllum þeim nýjungum sem fyrir augu bar. „Vottar það visku og hóglæti“, skrifaði fréttaritari blaðsins Skutuls. Góðar gjafir Ísfirðingar voru kátir eftir sveitaferðina, en þó fannst mörgum miður að ekki hefðu allir gestirnir tekið þátt í henni. Komst sá kvittur á kreik að danskir skipverjar Gustav Holm hafi ekki viljað hleypa þeim sem fátæklegast voru búnir frá borði. Hvað svo sem sannleiksgildi þeirrar sögu líður voru Íslendingar til í að trúa öllu illu upp á dönsk yfirvöld og tóku Ísfirðingar nú að streyma niður á höfn með hvers kyns gjafir til grænlensku fjölskyldnanna – staðráðnir í að sýna fram á íslenska gestrisni en gera í leiðinni gömlu herraþjóðinni skömm til. Á fimmtudeginum var sjálf prestvígslan í Ísafjarðarkirkju. Danskur prófastur, sem var með í för, sá um að vígja prestsefnið Seier Abelsen að nafni. Til viðbótar voru sjö íslenskir prestar viðstaddir í fullum skrúða, þar á meðal sóknarprestur Ísfirðinga, séra Sigurgeir Sigurðsson, síðar biskup. Með þessu storkuðu guðsmennirnir óvart eða viljandi gamalli spásögn þess efnis að Gleiðarhjalli myndi steypast yfir Ísafjarðarbæ og kirkjuna ef sjö prestar stæðu þar fyrir altari. Ekki fórst Ísafjarðarbær á meðan á messunni stóð og í kjölfarið var slegið upp nýrri veislu, að þessu sinni í bíóhúsi bæjarins – með kvikmynd, fimleikasýningu, kaffiþambi og vindlareykingum sem fyrr. Í þakklætisskyni við hinn góða viðurgjörning ákváðu Grænlendingarnir að efna til sýningar á kajakróðri og skotfimi á Pollinum. Reru þeir bátum sínum fram og aftur með ógnarhraða, hvolfdu þeim og réttu við á víxl. Jafnframt beittu þeir skutlum sínum af mikilli snilld. Engan sel var raunar að finna á Pollinum, en þess í stað tókst veiðimönnunum að hitta fugla á flugi og uppskáru lof áhorfenda. Grænlenski hópurinn yfirgaf Ísafjörð að morgni 29. ágúst. Skipið hreppti mikið óveður, en að lokum komst það til Scoresbysunds eftir viku útivist. Ekki bárust Ísfirðingum frekari fregnir af afdrifum gesta sinna, enda Grænland í raun lokað land þaðan sem sáralitlar fregnir bárust. Snemma árs 1928 flutti þó Bjarmi, blað Kristinboðssambandsins stutta fregn af samfélaginu við Scoresbysund. Blaðið hafði fjallað ítarlega um vígslu Seiers Abelsen og farið fögrum orðum um trúrækni Grænlendinganna, sem ritstjóranum þótti augljóslega að væri mun meiri og hreinni en Íslendinga. Birti blaðið frásögn úr riti danska trúboðsfélagsins þar sem fram kom að margir íbúanna hafi átt við sjúkdóma að stríða og þar af hafi fjórir fullorðnir látist, að sögn séra Abelsens. Hefði þar slæmum húsakosti verið um að kenna. Veikindin hefðu leitt til mikilla þrenginga og hafi hluti fólksins neyðst til að leggja sér gömul tjaldskinn til munns og einn veiðimaðurinn orðið að slátra tveimur hunda sinna til að seðja hungur barna sinna. Lét presturinn þess getið að samfélagið hefði orðið enn verr úti ef ekki hefðu komið til veglegar fatagjafir Ísfirðinga sumarið 1925. Tók hann þó fram að hópurinn væri kominn yfir erfiðasta hjallann, enda átti byggðin við Scoresbysund eftir að eflast og dafna næstu áratugina, þótt kveikjan að henni – landaþrætur við Norðmenn – væri löngu fyrir bí.
Birtist í Fréttablaðinu Grænland Saga til næsta bæjar Mest lesið Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Lífið Siðlaus maður étur skít og öðlast samkennd Lífið Fegurðardrottning fékk nýtt herbergi Lífið Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Lífið Galvaskar Gucci gellur á galakvöldi Tíska og hönnun Breiðholtsskóli og Hagaskóli áfram í Skrekk Lífið Sunneva nefndi son Jóhönnu Lífið Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Lífið Segist aldrei myndu deita Depp Lífið „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menning Fleiri fréttir „Ef við erum ekki að fara fá matareitrun núna þá er ekki hægt að fá matareitrun“ Siðlaus maður étur skít og öðlast samkennd Fegurðardrottning fékk nýtt herbergi Breiðholtsskóli og Hagaskóli áfram í Skrekk Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Segist aldrei myndu deita Depp Tjáði sig óvænt um sína fyrrverandi Sunneva nefndi son Jóhönnu Tanja Ýr og Ryan fengu að vita kynið á sjöttu viku Meirihluti er haldinn loddaralíðan Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Tapaði miklum peningum í vínbransanum Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Stjörnulífið: Hrekkjavaka og seiðandi kroppar Quincy Jones er látinn Dawson's Creek leikari með krabbamein Kom út úr skápnum er hún lýsti yfir stuðningi við Harris Margot Robbie orðin mamma Syndir sex kílómetra með kayak í eftirdragi Mennirnir sem allir eru að tala um: Hverjir eru Costco-gæjarnir og Rizzlerinn? Krakkatían: Vatnsmelónur, fótbolti og grænn froskur Myndaveisla: Snjórinn féll á bjórþyrsta borgara Afmæliskaka hinnar sönnu raunveruleikastjörnu? Bestu hrekkjavökubúningar stjarnanna Hlutir sem skapa notalega stemningu á heimilinu Stefnir að því að gera mömmu sína að stjörnu Dó í 33 mínútur og 3 sekúndur Fréttatía vikunnar: Kosningasvik, náttúruhamfarir og sorg Bjarni Ben orðinn tvöfaldur afi Hollywood stjarna til liðs við Laufeyju Sjá meira