Umfjöllun: Belgía - Ísland 2-0 | Þjóðadeildin ekki kvödd með söknuði Tómas Þór Þórðarson skrifar 15. nóvember 2018 22:30 Strákarnir okkar töpuðu öllum leikjunum í Þjóðadeildinni. Vísir/epa Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í fótbolta vilja væntanlega sem fyrst gleyma þessari blessuðu Þjóðadeild sem Heimir Hallgrímsson var búinn að gera þjóðina svo spennta fyrir. Fjórir leikir, fjögur töp, eitt mark skorað, þrettán fengin á sig. Skelfilegt. Lokaleikurinn tapaðist á móti Belgíu í kvöld, 2-0. Meiðslin hafa sett strik í reikninginn en ekki í einum einasta leik hefur Erik Hamrén náð að stilla upp sterkasta liði Íslands og árangurinn eftir því. 350.000 manna þjóð má ekki við svona meiðslum og hvað þá þegar að tíu menn eru frá fyrir leik á móti Belgíu, besta landsliði heims. Áföllin héldu áfram að dynja á íslenska liðinu. Alfreð Finnbogason meiddist í upphitun. Ellefu meiddir menn fyrir leik á útivelli á móti Belgíu. Þetta er náttúrlega löngu hætt að vera fyndið, en svona er fótboltinn. Þeir ellefu sem byrjuðu leikinn geta verið stoltir af framlaginu á vellinum og frammistöðunni í heild sinni. Okkar menn lögðu allt í sölurnar og voru skipulagðir og duglegir í nýju 5-3-2 kerfi Hamrén. Það var bara ekki nóg.Aron Einar var frábær í kvöld.vísir/gettyEinbeitingarleysi Það er eitt að verjast í 90 mínútur eins og íslenska liðið hefur gert fimlega á móti bestu liðum heims í nokkur ár og náð ótrúlegum úrslitum. Það er svo annað að halda einbeitingu í 90 mínútur plús á móti svona liðum sem bíða eins og gammar eftir því að litlu liðin slökkvi á sér og geri mistök. Einn helsti styrkleiki íslenska liðsins hefur verið þessi einbeiting. Strákarnir eru duglegir, fórnfúsir, hjálpsamir í varnarleiknum og berjast fyrir málstaðinn en nú er að koma enn betur í ljós hversu miklu máli þessi einbeiting skipti þegar okkar menn voru að fella risa úti um alla Evrópu. Í leiknum á móti Belgíu í kvöld var flest til staðar sem skapar vanalega góð úrslit fyrir íslenska liðið. Allt nema einbeiting í 90 mínútur. Hörður Björgvin, sem hefur átt erfiða daga í Þjóðadeildinni, gleymdi sér í eina sekúndu og bamm, 1-0. Hannes gerði svo sjaldséð mistök og bamm, 2-0. Leik lokið og frammistaðan skilaði engu. Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson töluðu endalaust um þessi litlu atriði. Ekki fá gul spjöld fyrir heimskulega hluti, vera vakandi, litlu hlutirnir munu skila okkur langt. Sem og þeir gerðu. Þetta þarf að endurvekja. Svona aulamörk eru ekki boðleg lengur.Albert Guðmundsson fær stærra hlutverk á næstu árum.vísir/epaFramtíðarmenn Það er nú þannig í fótbolta að sama hversu margir eru meiddir þarf að stilla upp ellefu manna liði. Þó svo að maður komi ekkert í manns stað þarf samt maður að koma í manns stað. Svona tímar eins og íslenska liðið er að upplifa núna býr til tækifæri fyrir menn eins og Arnór Sigurðsson og Albert Guðmundsson sem byrjuðu saman frammi í kvöld eftir að Alfreð meiddist í upphitun. Þar mættu inn tveir algjörlega óhræddir strákar fæddir 1997 og 1999. Það hefði verið auðvelt fyrir þá að hverfa bara inn í þokuna á King Badoin-vellinum og skýla sér á bak við það að Belgar eru svo góðir í fótbolta. Það gerðu þeir ekki. Albert Guðmundsson er eintak. Alvöru eintak. Hann virðist ekki gera greinarmun á því hvort hann sé í sokkabolta heima með systrum sínum eða að spila á móti besta landsliði heims. Fótbolti er bara fótbolti fyrir honum. Svægið er ótakmarkað og hæfileikarnir miklir. Þegar að hann fékk boltann dansaði hann stundum í kringum Belgana en vissulega ætlaði hann sér stundum um of. Arnór Sigurðsson óttaðist heldur ekki neitt. Hann sýndi hversu háa fótboltagreind hann býr yfir með góðum hlaupum og flottum ákvörðunum. Því miður skilaði þessi frumraun hans og flott frammistaða engu í kvöld. En, það verður að horfa til framtíðar.Hamrén hefur margt að hugsa um fram að undankeppni EM 2020.vísir/gettyFimm mánuðir til að hugsa Íslenska liðið vinnur ekki mótsleik árið 2018. Það er ljóst. Skrítin tilhugsun í ljósi þess að allir hafa reynt að komast að því undanfarin ár hvert leyndarmálið er í íslenska fótboltanum. Leikurinn gegn Sviss var ömurlegur, Belgíu heima skárri, Sviss heima að mörgu leyti fínn og frammistaðan í kvöld sömuleiðis ágæt. Fínt og ágætt er ekki nóg til að vinna Belgíu og Sviss. Svo einfalt er það. Í myrkri síðustu mánaða hafa sést ljósglætur. Ein þeirra í kvöld var að fá fyrirliðann aftur inn. Ísland er ekki Ísland án Arons Einars. Reyndustu umferðalögreglumenn öfunda norðanmanninn af getu hans til að stýra öllu í kringum sig og leikmönnum líður betur með hann inn á. Kári Árnason virðist hvergi slá slöku við og hver veit nema íslenska liðið fer að beita þessu 3-5-2 kerfi oftar. Frammistaðan í heildina í Þjóðadeildinni hefur alls ekki verið nóg góð en nú þarf bara að henda þessu hausti í ruslið og horfa til undankeppni EM 2020. Bestu mennirnir okkar eru rétt um þrítugt og við virðumst vera að fá unga og spennandi leikmenn inn í þetta til að breikka hópinn enn frekar með fjölda og gæðum. Við kveðjum Þjóðadeildina ekki með söknuði heldur vonumst við til þess að sjá íslenska liðið sem við þekkjum og elskum aftur eftir fimm mánuði þegar undankeppni EM 2020 fer af stað. Þjóðadeild UEFA
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í fótbolta vilja væntanlega sem fyrst gleyma þessari blessuðu Þjóðadeild sem Heimir Hallgrímsson var búinn að gera þjóðina svo spennta fyrir. Fjórir leikir, fjögur töp, eitt mark skorað, þrettán fengin á sig. Skelfilegt. Lokaleikurinn tapaðist á móti Belgíu í kvöld, 2-0. Meiðslin hafa sett strik í reikninginn en ekki í einum einasta leik hefur Erik Hamrén náð að stilla upp sterkasta liði Íslands og árangurinn eftir því. 350.000 manna þjóð má ekki við svona meiðslum og hvað þá þegar að tíu menn eru frá fyrir leik á móti Belgíu, besta landsliði heims. Áföllin héldu áfram að dynja á íslenska liðinu. Alfreð Finnbogason meiddist í upphitun. Ellefu meiddir menn fyrir leik á útivelli á móti Belgíu. Þetta er náttúrlega löngu hætt að vera fyndið, en svona er fótboltinn. Þeir ellefu sem byrjuðu leikinn geta verið stoltir af framlaginu á vellinum og frammistöðunni í heild sinni. Okkar menn lögðu allt í sölurnar og voru skipulagðir og duglegir í nýju 5-3-2 kerfi Hamrén. Það var bara ekki nóg.Aron Einar var frábær í kvöld.vísir/gettyEinbeitingarleysi Það er eitt að verjast í 90 mínútur eins og íslenska liðið hefur gert fimlega á móti bestu liðum heims í nokkur ár og náð ótrúlegum úrslitum. Það er svo annað að halda einbeitingu í 90 mínútur plús á móti svona liðum sem bíða eins og gammar eftir því að litlu liðin slökkvi á sér og geri mistök. Einn helsti styrkleiki íslenska liðsins hefur verið þessi einbeiting. Strákarnir eru duglegir, fórnfúsir, hjálpsamir í varnarleiknum og berjast fyrir málstaðinn en nú er að koma enn betur í ljós hversu miklu máli þessi einbeiting skipti þegar okkar menn voru að fella risa úti um alla Evrópu. Í leiknum á móti Belgíu í kvöld var flest til staðar sem skapar vanalega góð úrslit fyrir íslenska liðið. Allt nema einbeiting í 90 mínútur. Hörður Björgvin, sem hefur átt erfiða daga í Þjóðadeildinni, gleymdi sér í eina sekúndu og bamm, 1-0. Hannes gerði svo sjaldséð mistök og bamm, 2-0. Leik lokið og frammistaðan skilaði engu. Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson töluðu endalaust um þessi litlu atriði. Ekki fá gul spjöld fyrir heimskulega hluti, vera vakandi, litlu hlutirnir munu skila okkur langt. Sem og þeir gerðu. Þetta þarf að endurvekja. Svona aulamörk eru ekki boðleg lengur.Albert Guðmundsson fær stærra hlutverk á næstu árum.vísir/epaFramtíðarmenn Það er nú þannig í fótbolta að sama hversu margir eru meiddir þarf að stilla upp ellefu manna liði. Þó svo að maður komi ekkert í manns stað þarf samt maður að koma í manns stað. Svona tímar eins og íslenska liðið er að upplifa núna býr til tækifæri fyrir menn eins og Arnór Sigurðsson og Albert Guðmundsson sem byrjuðu saman frammi í kvöld eftir að Alfreð meiddist í upphitun. Þar mættu inn tveir algjörlega óhræddir strákar fæddir 1997 og 1999. Það hefði verið auðvelt fyrir þá að hverfa bara inn í þokuna á King Badoin-vellinum og skýla sér á bak við það að Belgar eru svo góðir í fótbolta. Það gerðu þeir ekki. Albert Guðmundsson er eintak. Alvöru eintak. Hann virðist ekki gera greinarmun á því hvort hann sé í sokkabolta heima með systrum sínum eða að spila á móti besta landsliði heims. Fótbolti er bara fótbolti fyrir honum. Svægið er ótakmarkað og hæfileikarnir miklir. Þegar að hann fékk boltann dansaði hann stundum í kringum Belgana en vissulega ætlaði hann sér stundum um of. Arnór Sigurðsson óttaðist heldur ekki neitt. Hann sýndi hversu háa fótboltagreind hann býr yfir með góðum hlaupum og flottum ákvörðunum. Því miður skilaði þessi frumraun hans og flott frammistaða engu í kvöld. En, það verður að horfa til framtíðar.Hamrén hefur margt að hugsa um fram að undankeppni EM 2020.vísir/gettyFimm mánuðir til að hugsa Íslenska liðið vinnur ekki mótsleik árið 2018. Það er ljóst. Skrítin tilhugsun í ljósi þess að allir hafa reynt að komast að því undanfarin ár hvert leyndarmálið er í íslenska fótboltanum. Leikurinn gegn Sviss var ömurlegur, Belgíu heima skárri, Sviss heima að mörgu leyti fínn og frammistaðan í kvöld sömuleiðis ágæt. Fínt og ágætt er ekki nóg til að vinna Belgíu og Sviss. Svo einfalt er það. Í myrkri síðustu mánaða hafa sést ljósglætur. Ein þeirra í kvöld var að fá fyrirliðann aftur inn. Ísland er ekki Ísland án Arons Einars. Reyndustu umferðalögreglumenn öfunda norðanmanninn af getu hans til að stýra öllu í kringum sig og leikmönnum líður betur með hann inn á. Kári Árnason virðist hvergi slá slöku við og hver veit nema íslenska liðið fer að beita þessu 3-5-2 kerfi oftar. Frammistaðan í heildina í Þjóðadeildinni hefur alls ekki verið nóg góð en nú þarf bara að henda þessu hausti í ruslið og horfa til undankeppni EM 2020. Bestu mennirnir okkar eru rétt um þrítugt og við virðumst vera að fá unga og spennandi leikmenn inn í þetta til að breikka hópinn enn frekar með fjölda og gæðum. Við kveðjum Þjóðadeildina ekki með söknuði heldur vonumst við til þess að sjá íslenska liðið sem við þekkjum og elskum aftur eftir fimm mánuði þegar undankeppni EM 2020 fer af stað.