Lífið

Reyndist vel að lenda á milli tannanna á fólki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Áslaug Arna er yngsti alþingismaður landsins.
Áslaug Arna er yngsti alþingismaður landsins. vísir/vilhelm
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er 27 ára alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Áslaug er ungur þingmaður sem hefur náð mjög langt á stuttum tíma en hún er fjórði gestur Einkalífsins á Vísi. Í þáttunum er rætt við fólk sem skarar fram úr á sínu sviði. Þegar Áslaug var aðeins 21 árs féll móðir hennar frá eftir baráttu við erfið veikindi.

„Það var ótrúlega erfitt. Það er svo margt eftir sem þú varst búinn að ímynda þér. Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg en það sem kemur á eftir er þessi mikla sorg yfir því sem hefði átt að vera,“ segir Áslaug Arna um móðurmissinn.

„Að hún sé ekki með manni á þessum stóru stundum, hvort sem það er þegar ég varð ritari Sjálfstæðisflokksins eða þegar ég útskrifaðist úr laganáminu og það sem framtíðin ber í skauti sér, eins og ef maður eignast börn eða giftir sig. Það er þessi sorg sem býr alltaf held ég innra með fólki sem missir foreldri. Maður sér annað fólk upplifa þessi augnablik með foreldrum sínum.“

Hefur tileinkað sér jákvæðni móður sinnar

Áslaug segist búa vel af því hvernig uppeldi hún fékk.

„Mamma var rosalega jákvæð og kenndi mér mjög margt að líta björtum augum á þau verkefni sem koma og ég hef reynt að tileinka mér það. Það gagnast mér rosalega mikið í dag, hvernig ég náði að vinna úr þessu,“ segir Áslaug sem hefur reynt að nýta sér þessa lífsreynslu til að hjálpa öðrum sem lenda í því sama.

„Mér fannst þessi reynsla líka nýtast mér þegar ég vann sem lögreglumaður, því þar kemur mannlegi þátturinn inn, að geta sett sig í spor fólks í erfiðum aðstæðum.“

Í þættinum ræðir Áslaug einnig um einstakt samband hennar við systur sína, aldursfordóma inni á Alþingi, hvernig Metoo byltingin breytti Alþingi, bakstursáhugan mikla og þann þykka skráp sem maður verður að hafa sem þingmaður. Margir muna eftir stóra humar- og hvítvínsmálinu en hún segir að það hafi í gegnum tíðina reynst henni vel að vera á milli tannanna á fólki.

Hér að neðan má sjá fjórða þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi.


Tengdar fréttir

Árin án móður sinnar í Rússlandi voru lærdómsrík

Katrín Lea Elenudóttir var krýnd Miss Universe í ágúst en hún mun taka þátt í 67. Miss Universe keppninni í Bangkok í desember. Katrín er í fullum undirbúningi fyrir keppnina og er hún þriðji gestur Einkalífsins á Vísi.

„Það erfiðasta sem ég hef gert“

Leikkonan Kristín Þóra Haraldsdóttir fer á kostum í kvikmyndinni Lof mér að falla en þar leikur hún sprautufíkil sem hefur misst öll tök á lífi sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.