Lífið

Birti afsökunarbeiðni mannsins sem áreitti hann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leikarinn Terry Crews.
Leikarinn Terry Crews. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn Terry Crews segist hafa tekið afsökunarbeiðni Adams Venits gilda eftir að sá síðarnefndi hætti störfum hjá umboðsskrifstofunni WME á dögunum. Crews sakaði Venit um að hafa gripið um kynfæri sín án samþykkis í samkvæmi árið 2016 og kærði atvikið til lögreglu í nóvember í fyrra.

Sjá einnig: Joe Biden þakkar Terry Crews fyrir umræðu um kynferðisofbeldi

Crews birti afsökunarbeiðni Venits í heild á Twitter-reikningi sínum í dag. Hann sagði að bréfið hefði borist sér 22. mars síðastliðinn en að hann hafi ekki tekið afsökunarbeiðnina gilda fyrr en 10. september, daginn sem Venit hætti alfarið störfum hjá umboðsskrifstofunni WME. Vemit steig til hliðar sem yfirmaður kvikmyndadeildar WME eftir að Crews sakaði hann um áreitnina en hélt áfram öðrum störfum hjá fyrirtækinu. Með afsögninni segir Crews að Venit sé að taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Venit játar þó ekki fullum fetum að hafa gerst sekur um umrætt athæfi í bréfinu sem hann ritar Crews en biður hann þó afsökunar.

„Ég veit að þú baðst ekki um neitt af þessu. Enn og aftur, ég ber ábyrgð á því að við erum í þessari stöðu, saman. Mér þykir fyrir þessu öllu.“

WME hóf rannsókn á atvikinu þegar Crews steig fram en féllst ekki á að Venit hefði orðið uppvís að neinu sakhæfu. Þá stefnir allt í að málinu, sem Crews höfðaði gegn Venit á sínum tíma, muni ljúka með sáttum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.