Það er álitamál hvort að Búsáhaldabyltingin hafi verið friðsæl mótmæli á heildina litið eður ei. Prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands sem rannsakað hefur mótmælin segir að þau hafi á endanum verið ótrúlega friðsæl. Fáir hafi til dæmis meiðst, en Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sá sem stýrði aðgerðum lögreglunnar í Búsáhaldabyltingunni, kveðst ekki líta svo á að um friðsöm mótmæli hafi verið að ræða. Þannig hafi reiði mótmælenda beinst að lögreglunni og framganga mótmælenda hafi komið á óvart. Þúsundir manna komu saman á Austurvelli haustið 2008 og í janúar 2009 til að mótmæla ríkisstjórninni, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og ástandinu almennt í samfélaginu eftir fall bankanna í október. Arnar Rúnar segir lögregluna hafa séð í hvað stefndi eftir mótmælin við Hótel Borg á gamlársdag 2008. Þannig hafi lögregluyfirvöld átt von á fjölmennum mótmælum þegar þing kom saman á ný þann 20. janúar 2009 og aldrei verið með meiri viðbúnað en þá. Þurftu að hætta útsendingu vegna skemmdarverka sem unnin voru á tæknibúnaði Á gamlársdag 2008 kom til átaka á milli mótmælenda annars vegar og lögreglu og starfsliðs Stöðvar 2 hins vegar. Mótmælendur höfðu komið saman við Hótel Borg vegna þess að þar voru forystumenn stjórnmálaflokkanna samankomnir fyrir hinn árlega þátt Stöðvar 2, Kryddsíldina. Á meðal þeirra sem voru inni á hótelinu var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Formaður hins ríkisstjórnarflokksins, Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, komst hins vegar ekki inn á Hótel Borg vegna mótmælanna en hann var seinna á ferð en aðrir formenn stjórnmálaflokkanna því hann hafði nýlokið við að taka upp áramótaávarp sitt. Mótmælin urðu til þess að beinni útsendingu Kryddsíldarinnar var hætt eftir að mótmælendur skemmdu útsendingarbúnað Stöðvar 2. Hópur þeirra hafði komist inn í anddyri salarins þaðan sem útsendingin var send. Forsíða Fréttablaðsins 9. október 2008. Erfitt fyrir lögreglu að sjá mynstur í mótmælunum „Við vorum alltaf að reyna að sjá eitthvað mynstur í þessu þannig að við vorum að ákveða hvernig við myndum bregðast við, hvað við þyrftum að hafa mikinn mannskap og annað slíkt. Það var svolítið erfitt að sjá mynstrin í þessu. Þegar það voru búin að koma ein hörkumótmæli, ofbeldi og eitthvað slíkt, þá kom oft eitthvað rólegt á milli. En svo smám saman var að aukast krafturinn í þessu. Við sáum í hvað stefndi eftir Kryddsíldina og áttum alveg von á þessu að þetta myndi gerast þarna við þingsetninguna og höfum aldrei verið með meiri viðbúnað en þá,“ segir Arnar Rúnar. Á heildina litið voru ekki margir sem mótmæltu í desember 2008. Þeir sem mótmæltu höfðu hins vegar mjög hátt og voru áberandi í fjölmiðlum að sögn Jóns Gunnars Bernburg, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem hefur rannsakað Búsáhaldabyltinguna ítarlega. Hann segir róttæku hópana hafa skipulagt sig og verið með rosaleg læti. Það eru fáir að mótmæla en þeir sem eru að mótmæla, hafa mjög hátt. Þeir eru í fjölmiðlum, lögreglan er að fást við þá, þannig að þeir halda mótmælunum svolítið lifandi, segir Jón Gunnar. Bubbi boðaði til mótmæla Fyrir áramót náði hins vegar fjöldi mótmælenda ákveðnu hámarki um miðjan nóvember en mótmælin hófust strax í október 2008 og það í sömu viku og neyðarlögin voru sett. Þannig boðaði tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens til mótmælafundar miðvikudaginn 8. október 2008 og sagði á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir að hátt í þúsund manns hefðu mætt á Austurvöll. Tíu dögum síðar, eða þann 18. október, boðaði svo hópur undir forystu Harðar Torfasonar, Kolfinnu Baldvinsdóttur, Dr. Gunna, Birgis Þórarinssonar og Andra Sigurðssonar til mótmæla á Austurvelli þar sem þess var krafist að Davíð Oddssyni, sem þá var seðlabankastjóri, yrði vikið frá störfum. Var talið að nokkur hundruð hefðu komið saman á þeim mótmælum. Sólveig Anna Jónsdóttir er í dag formaður Eflingar en hún tók virkan þátt í Búsáhaldabyltingunni á sínum tíma.vísir/vilhelm Reiðin ekki drifkrafturinn heldur löngunin til að breyta Sólveig Anna Jónsdóttir, sem kjörin var formaður Eflingar fyrr á þessu ári, tók virkan þátt í Búsáhaldabyltingunni og var með alveg frá byrjun. „Ég var bara að fara sem manneskjan ég af því að mér fannst þetta vera bara mjög mikilvægt og líka vegna þess að ég var kannski með svolítið uppsafnaða þörf frá dvöl minni í Bandaríkjunum til þess að mótmæla af því að ég hafði orðið mjög svona pólitískt meðvituð þar undir viðbjóðslegri stjórn George W. Bush og hans glæpahyskis. Ég hafði líka upplifað mjög sterkt hvað stéttaskiptingin og kapítalisminn var rosalega skaðlegur samfélaginu. Ég var líka búin að velta fjármálavæðingunni og því öllu fyrir mér þannig að ég var bara svona mjög tilbúin til þess að mótmæla því sem ég sá, svona kerfisbundið vandamál orsakað af kapítalismanum, nýfrjálshyggjunni og fjármálavæðingunni,“ segir Sólveig Anna. Aðspurð hvort hún muni hvernig henni leið þarna fyrstu vikurnar í október segir Sólveig Anna að hún hafi verið rosalega spennt. „Ég man mjög vel eftir því að hafa bæði verið á einhverri rosalegri hraðferð að reyna að setja mig inn í allt sem var að gerast. Ég var bæði náttúrulega bara að vinna og að sinna heimili en svo var ég líka að reyna að setja mig inn í hlutir sem voru flóknir og ég hafði ekkert verið að fylgjast neitt mjög vel með áður. En ég man svona mest eftir því að hafa verið spennt. Kannski ekki einu sinni svo rosalega áhyggjufull þó að vissulega hafi ég verið áhyggjufull og svo þegar maðurinn minn missti vinnuna stuttu seinna þá dýpkuðu þær áhyggjur mjög mikið.“ Hún segist ekki hafa verið sorgmædd. „Auðvitað fann ég oft til reiði en ég myndi segja að fyrst og fremst var ég bara mjög mótiveruð í það að taka þátt og reiðin var ekki drifkrafturinn fyrst og fremst heldur löngunin til þess að sjá hvort það væri kannski hægt að breyta einhverju.“ Ólíkir hópar komu saman til að mótmæla Jón Gunnar segir að það veki verulega athygli að aktívistar hafi strax í upphafi hrunsins byrjað að skipuleggja mótmæli. Þau hafi hins vegar ekki verið mjög fjölmenn. „Þannig að það sem gerist í október og nóvember er að smám saman eykst fjöldi mótmælenda á þessum laugardagsfundum, borgarafundum, og nær hámarki seinni part nóvember. Þá eru þessir fundir orðnir risastórir og þar eru ólíkir hópar að koma saman. Það eru umhverfisverndarsinnar, femínistar, anarkistar, en líka nýjar raddir sem eru að tala um lýðræðið og spillingu og annað slíkt,“ segir Jón Gunnar. Þannig er talið að um átta þúsund manns hafi komið saman á Austurvelli þann 15. nóvember til að mótmæla og var meðal annars krafist afsagnar bankastjórnar Seðlabankans og kosninga um vorið, eins og greint var frá á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir mótmælin. „Fundurinn fór friðsamlega fram en skyr og eggjum var kastað í Alþingishúsið eftir fundinn,“ sagði í myndatexta við forsíðumynd blaðsins. Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.vísir/vilhelm Fólk meira drifið áfram af hugmyndafræði heldur en persónulegu tapi Rannsókn Jóns Gunnars á Búsáhaldabyltingunni var umfangsmikil en árið 2016 gaf hann út bókina Economic Crisis and Mass Protest: The Pots and Pans Revolution in Iceland sem byggði á niðurstöðum rannsóknar hans. Rannsóknin var það sem kallað er tilviksrannsókn þar sem blandaðar aðferðir eru notaðar. Jón Gunnar lagði spurningakönnun fyrir 1000 manna úrtak á höfuðborgarsvæðinu og tók ítarleg viðtöl við skipuleggjendur mótmælanna, aðra mótmælendur og lögreglumenn, alls um 30 manns. Þá orðræðugreindi hann allar ræður sem hann komst í sem voru haldnar á Austurvelli haustið 2008 og í janúar 2009 auk þess sem hann skoðaði gögn lögreglu um þeirra mat á fjölda mótmælenda og hversu margir lögreglumenn voru sendir á staðinn á degi hverjum. Á meðal þess sem gögnin sýndu var hvað dreif fólk til að taka þátt í mótælunum. Jón Gunnar segir að fólk hafi fyrst og fremst verið drifið af hugmyndafræðilegum ástæðum. „Þetta var fólk sem var vinstra megin í pólitík, fólk sem hafði áhyggjur af lýðræðinu eða taldi að spilling væri útbreidd. Þessir þættir vógu mjög þungt í þátttökunni. Það vóg miklu minna hvort að fólk hefði tapað sjálft í hruninu, fólk var minna drifið af persónulegum vandræðum. Það vóg eitthvað, sérstaklega sá hópur sem taldi sig hafa farið miklu verr út úr hruninu en aðrir [...] Sá hópur var líklegur til að mæta. Þetta var mjög reitt fólk.“ Þá segist Jón Gunnar aldrei hafa getað greint það í sínum gögnum að stjórnmálaflokkar stæðu á bak við mótmælin. „Annað en það að þeir sem skipulögðu þessi mótmæli hafi gert það að sínu frumkvæði. Vissulega voru laugardagsfundirnir skipulagðar uppákomur en fólkið sem skipulagði þessar uppákomur, það voru ekki stjórnmálaflokkar þarna á bak við. [...] Það var til dæmis eindregin stefna til dæmis Harðar Torfasonar á sínum tíma að það ættu engir stjórnmálamenn að koma að þessum mótmælum. Það ættu engir stjórnmálamenn að koma og halda ræður. Þetta átti að vera fólkið að skilgreina og ramma inn þetta ástand á sínum forsendum.“ Mótmælendur gerðu aðsúg að bíl Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann yfirgaf stjórnarráðið þann 21. janúar 2009. Fimm dögum síðar baðst Geir lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.fréttablaðið/gva „Mjög djúp og sönn upplifun fyrir því að kapítalisminn væri krísan“ Sólveig Anna segir að kröfur mótmælenda í Búsáhaldabyltingunni hafi verið mjög margar og að mörgu leyti mjög misjafnar. Þannig hafi verið hópur fólks sem var með mjög formaðar kröfur sem sneru að lánamálum heimilanna. Svo var þarna fólk sem var bara að mótmæla því sem það upplifði sem spillingu í íslensku samfélagi, þessu mikla samkrulli stjórnmála og viðskiptalífsins. Ég upplifði það til dæmis mjög sterkt, það var mjög stór partur af því sem ég var að mótmæla, segir Sólveig Anna og bætir við að hún hafi líka tilheyrt hópi fólks sem var með andkapitalíska nálgun á mótmælin. „Vegna þess að við vorum komin inn í svona djúpa kreppu og krísu kapítalismans að þá væri komið þarna tækifæri fyrir fólk og samfélagið til að endurhugsa hvernig við vildum að samfélagið væri uppbyggt, hverra hagsmuna við vildum að væri gætt í samfélaginu og svo framvegis. Þannig að ef ég tala bara fyrir mig persónulega þá var það svona helst sá staður sem ég var að koma frá. Svona mjög djúp og sönn upplifun fyrir því að kapítalisminn væri krísan og við yrðum að bregðast við því stóra vandamáli.“ Óskilgreind reiði Jón Gunnar segir að þegar verið sé að tala um kröfur mótmælenda í Búsáhaldabyltingunni verði að hafa í huga að þegar fjöldamótmæli eru annars vegar þá sé ástandið í rauninni mjög óljóst. „Fólk er reitt. Það var frægt skilti sem mótmælandi setti á loft sem á stóð „Helvítis, fokking, fokk“ ekki satt? Óskilgreind „Ég er reiður af einhverjum ástæðum og ég get ekki alveg komið því í orð.“ Það eru svolítið skilaboðin með skiltinu. Hverjir voru það síðan komu því í orð? Það voru þeir sem héldu ræður og skrifuðu pistla og römmuðu inn hrunið. Fólk var að reyna að ramma inn hrunið og sá rammi sem verður ofan á, sérstaklega í mótmælunum, er að hrunið sé lýðræðiskrísa,“ segir Jón Gunnar. Kröfur fólks voru alls konar. „Það sem á endanum skiptir máli var hvernig skipuleggjendum mótmælanna tókst að sameina fólk á bak við mjög einfaldar kröfur. Ríkisstjórnina frá, Seðlabankastjórnina frá, og svo framvegis. Það voru þessar einföldu kröfur sem sameinuðu mótmælendur en mótmælendur voru með alls konar hugmyndir. [...] Líka um leið og þeim kröfum var mætt og ríkisstjórnin fór frá þá líka snardró úr þátttökunni.“ Arnar Rúnar Marteinsson er varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann stjórnar aðgerðasveit lögreglunnar og stýrði aðgerðum í Búsáhaldabyltingunni.vísir/vilhelm Hafði áhrif hversu fámenn lögreglan var Arnar Rúnar segir að lögreglan hafi ekki búist við fjöldamótmælum strax í byrjun hrunsins. Lögreglan hafi hins vegar verið meðvituð að þetta væru miklir óvissutímar. Þannig var til dæmis ekki vitað hvort að greiðslukort myndu virka þannig að það var viðbúið að það gæti orðið „kaosástand,“ eins og Arnar Rúnar orðar það. „Þannig að við vorum strax með aukinn viðbúnað vegna þessa og vorum tilbúnir til að bregðast við ef eitthvað væri. En línan var sú, og var ákveðin strax í upphafi, að við ætluðum að vera mjúkir, þannig séð. Við skildum vel reiði fólks þannig að við ætluðum að stilla allri valdbeitingu eins og við gætum, hafa allt í hófi,“ segir Arnar Rúnar. Það spilaði líka inn í strategíu lögreglunnar í mótmælunum hversu fámennt löregluliðið var. Stundum var svo mikill mannskapur og ástandið var ekki það gott að það hefði ekki verið forsvaranlegt að fara út í aðgerðir sem ekki sæi fyrir endann á. Við urðum að halda að okkur höndum. Það var betra að taka við einhverju hnjaski heldur en að fara út í aðgerðir sem voru ófyrirséðar afleiðingar. Jón Gunnar lýsir strategíu lögreglunnar sem svo að hún hafi gengið út á að ýfa ekki upp ástandið. Arnar Rúnar tekur undir það. „Það má segja það því við vorum ekki að sýna vöðvana þannig séð. Þegar það voru mótmælafundir á Austurvelli þá settum við kannski bara fullorðna lögreglumenn í úlpu út á völlinn og höfðum allt í lágmarki en vorum síðan með óeirðamennina baka til. Við vorum ekki að ögra fólki með því að hnykkla vöðvana framan í þá nema á þyrfti að halda. Við reyndum að leyfa bara fólki að nýta tjáningarfrelsi sitt en sýndum ekki mikinn styrk nema það væri nauðsynlegt.“ Dómsmálið sem höfðað var gegn níumenningunum vakti mikla athygli en öll voru þau sýknuð af ákæru fyrir brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Litu svo á að þau hefðu fullan rétt á að fara upp á þingpallana Eins og áður segir voru mótmælin ekki jafn fjölmenn í desember 2008 og þau höfðu verið í mánuðunum tveimur á undan. Hins vegar urðu þá tveir atburðir sem að vöktu mikla athygli, Kryddsíldarmótmælin sem áður er getið, og svo þegar hópur mótmælenda reyndi að komast upp á áhorfendapalla Alþingis. Níu þeirra voru síðar ákærðir fyrir árás á Alþingi og var Sólveig Anna ein þeirra. Níumenningarnir voru allir sýknaðir af ákæru fyrir brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Tveir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi, meðal annars fyrir að hindra þingverði í störfum þeirra, og þá voru tveir dæmdir til sektargreiðslu, þar á meðal Sólveig Anna, fyrir að hindra þingvörð í störfum sínum. Hópur fólks reyndi að komast upp á þingpallana þann 8. desember sem var mánudagur en hingað til höfðu mótmælendur nánast eingöngu komið saman á Austurvelli á laugardögum. Sólveig Anna segir að hennar hugsun hafi verið sú að það væri ekkert endilega sniðugt að vera alltaf föst á einum stað á laugardögum. „Heldur þyrfti að víkka þetta út, fara með þetta á aðra staði og gera þetta á þann hátt að þeir sem við vorum að mótmæla myndu meira átta sig á því að við værum þarna til þess að senda þeim skilaboð. Við litum svo á að við hefðum bara fullan rétt á að fara upp á þingpallana og það var það sem við vorum að fara að gera. Við ætluðum að komast upp á þingpallana til þess að vera sýnileg og svo til þess að lesa upp yfirlýsingu.“ Það kom hins vegar til átaka á milli mótmælenda og þingvarða sem meinuðu fólkinu aðgang að þingpöllunum. Alþingi sendi neyðarboð til lögreglu um aðstoð og eftir að lögreglan kom á staðinn urðu átökin verri að sögn Sólveigar Önnu. Ákæran kom mjög mikið á óvart Aðspurð hvort það hafi komið henni á óvart að hópnum hafi verið meinaður aðgangur að pöllunum og að lögregla hafi verið kölluð til segir hún svo ekki vera. „Nei, ef ég er bara alveg hreinskilin og horfi á þetta þá get ég ekki sagt að það hafi komið á óvart og ég skil að vissu leyti að fólk hafi verið mjög spennt, spennustigið var vissulega mjög hátt. En það sem kom mér á óvart voru viðbrögðin sem fylgdu. Ákæran og dómsmálið og öll sú brjálsemi, það kom mér mjög mikið á óvart. Mér fannst það mjög ömurlegt en líka fræðandi og upplýsandi að sjá hvernig yfirvaldið nálgaðist okkur sem eitthvað rosalegt vandamál í samfélaginu sem þyrfti að kenna mikla og þunga lexíu. Það kom mér mjög mikið á óvart en það var kannski barnaskapur í mér að halda að viðbrögðin yrðu einhvern veginn öðruvísi.“ Arnar Rúnar segir að málið hafi ekki verið rannsakað upphaflega sem árás á Alþingi heldur sem líkamsárás þar sem þingvörður hafði meiðst sem og lögreglumaður. „Síðan var þetta í rauninni nálgunin hjá okkur, við meðhöndluðum þetta eins og þetta væri líkamsárás, en þetta var ekki tekið í upphafi eins og þetta hefði verið árás á Alþingi, að þetta hefði verið skipulagt, enda vorum við ekki með þær upplýsingar í rauninni þegar við komum á staðinn, að þetta væri svona alvarlegt. Við sáum það ekki fyrr en bara á myndbandi að þetta gæti verið meira mál,“ segir Arnar Rúnar. Lögreglumenn stóðu vaktina við Hótel Borg á gamlársdag 2008 þegar mótmælendur söfnuðust þar saman vegna Kryddsíldarinnar. Áttu ekki von á aggressívum mótmælum við Hótel Borg Síðan voru það Kryddsíldarmótmælin sem urðu mun aggresívari en lögreglan átti von á. Arnar Rúnar segir að lögreglan hafi vitað af því að til stæða að mótmæla við Hótel Borg en taldi að mun færri myndu mæta en varð svo raunin. Lögreglan var því ekki með mikinn viðbúnað en Arnar Rúnar segir að það hafi líka spilað inn í að gamlárskvöld var framundan. „Þá þurfum við að vera með mikinn viðbúnað um nóttina þannig að það var mjög erfitt að fá mannskap. Það hefði verið vont fyrir okkur að taka mikinn mannskap út af þessum mótmælum því þá hefði nóttin orðið illa mönnuð í staðinn. [...] Þannig að við reyndum að stilla þetta, vera með lítinn viðbúnað.“ Arnar Rúnar segir lögregluna hafa farið á staðinn um morguninn til þess að skoða aðstæður og tryggt sér leið bakdyramegin að Hótel Borg frá Lækjargötu. Þar var hlið og fékk lögreglan lykil að því til að geta brugðist mjög hratt við. „Við vorum þarna á staðnum en þegar við ætlum að fara inn um hliðið þá passar lykillinn ekki almennilega. Þannig að við töfðumst aðeins þannig að þetta var mjög erfitt hjá fólkinu á Stöð 2 sem þurfti að vera í slagsmálum. En við vorum undirbúnir, með lágmarksviðbúnað og tryggt viðbragð, en það var langur tími, einhverjar mínútur, þar sem fólkið þurfti að standa í átökum við mótmælendur áður en við komum.“ Spurður út í það hvort að það hafi komið lögreglunni á óvart hversu aggressív mótmælinu urðu við Hótel Borg segir Arnar Rúnar svo vera. „Við áttum von á litlu, auðvitað hefðum við viljað hafa meiri mannskap, en ætlið þið að taka mannskapinn þarna og skilja nóttina eftir illa mannaða? Við vorum svolítið á milli steins og sleggju. Það hefði verið betra að hafa meiri mannskap strax og þá hefðum við getað brugðist miklu markvissara við en svona voru bara aðstæður á þessum tíma.“ „Fólk ætlaði að færa mótmælin nær þeim sem var verið að mótmæla“ Sólveig Anna segir að hún hafi ekki verið í hópi þeirra mótmælenda sem fóru inn á Hótel Borg. Hún hafi hins vegar verið þarna í hópi fólks fyrir utan og lýsir stemningunni svona: „Ég kom þarna til að taka þátt, við fórum í svona eins og blysför þarna að. Svo magnaðist þetta upp og stemningin var þessi, sem var mjög ríkjandi stemning, að þessi svona skil milli okkar, almennings, alþýðunnar og þeirra sem færu með völd væru ennþá alveg klárt til staðar. Ég held að mjög stór hópur af fólki sem var að mótmæla hafi litið svo á að með því sem hafði gerst, með þessari svona afhjúpun sem hafði orðið á íslenskri valda-og peningastétt þá væri ekkert sanngjarnt að viðhalda þessum skilum svona rosalega mikið. Þannig að þarna var þetta móment að fólk ætlaði að færa mótmælin nær þeim sem var verið að mótmæla og þá varð þetta spennuástand.“ Sólveig Anna lítur svo á að Kryddsíldarmótmælin hafi verið mjög mikilvægt augnablik í sögu Búsáhaldabyltingarinnar. Að því leyti að það datt ekki bara svona allt niður heldur var þessi stóra stund í þessari mótmælasögu. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að þetta var svona samfella fram að þessum stóru atburðum sem urðu þá þetta „climax“ á þessu öllu. Nýbreytni mjög mikilvæg í mótmælum „Climaxið“ eða hápunkturinn sem Sólveig Anna nefnir eru mótmælin sem urðu svo eftir áramótin þegar Alþingi kom saman á ný eftir jólahlé þann 20. janúar 2009. „Þá er þessi nýbreytni og nýbreytni er mjög mikilvæg í mótmælum. Þá segja skipuleggjendurnir „Komið með potta og pönnur, nú er þing að koma saman og við ætlum ekki að hittast á laugardegi heldur virkum degi.“ Þá breytist dýnamíkin, það er nýbreytni og spenna í loftinu og þá smellur þetta saman í þessum agressívu mótmælum, þessum árásargjörnu mótmælum sem eiga sér stað,“ segir Jón Gunnar. „Mestu mótmæli frá 1949,“ sagði á forsíðu Morgunblaðsins þann 21. janúar og var þar vísað í mótmælin á Austurvelli þann 30. mars það ár vegna aðildar Íslands að NATO. Sagði á forsíðu Morgunblaðsins að nokkur þúsund manns hefðu mótmælt á Austurvelli. Ítrekað hefði verið reynt að kveikja í Oslóartrénu en án árangurs þar til nokkrum ungmennum tókst að fella tréð upp úr miðnætti og draga það á bál sem logaði á miðjum vellinum. 21. janúar eftirminnilegasti dagurinn að mati lögregluvarðstjórans Arnar Rúnar segir að 21. janúar sé án efa eftirminnilegasti dagurinn í Búsáhaldabyltingunni. Þingfundur hófst klukkan 13:30 og voru mótmælendur mættir á Austurvöll upp úr klukkan eitt. Klukkan þrjú var síðan jarðarför í Dómkirkjunni. Bað lögreglan mótmælendur um að taka tillit til þess sem tóku vel í það og fóru af Austurvelli og að Stjórnarráðinu. „Þá hittist þannig á að forsætisráðherra var að fara út úr Stjórnarráðinu bakdyra megin í bíl. Fólk sá það og fór og umkringdi bílinn og réðst í rauninni á bílinn. Við sáum það, við vorum komnir þarna upp við Stjórnarráð líka þannig að við þurftum að taka þarna upp kylfur og taka á fólki til þess að það kæmist í burtu, það mátti litlu muna því það var svo mikill hiti í fólki. En síðan kom fólkið þarna niður eftir aftur eftir að jarðarförin var búin og það var farið að grýta Alþingishúsið,“ segir Arnar Rúnar. Hann telur að um tuttugu rúður hafi verið brotnar í Alþingishúsinu á meðan mótmælt var á Austurvelli fram undir klukkan sjö um kvöldið. Þá færðust mótmælin upp að Þjóðleikhúskjallaranum við Hverfisgötu þar sem Samfylkingarfélagið í Reykjavík kom saman til fundar til að ræða ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Á fundinum var samþykkt ályktun um að slíta samstarfinu. Búsáhaldabyltingin náði hámarki í janúar 2009 þegar þing kom saman á ný eftir jólahlé. Þúsundir komu þá saman á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórninni og ástandinu í samfélaginu nokkrum mánuðum eftir hrun.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM „Ofsaleg ólga í loftinu“ Sólveig Anna segir mótmælin á Hverfisgötunni hafa verið mögnuð og mikilvæg. Ef þau hefðu ekki verið sé alls óvíst hversu lengi ríkisstjórnin hefði haldið áfram. „Þarna áttu sér stað ýmsir minnisstæðir og fyndnir atburðir. Það er til dæmis búið að draga rauðan fána að húni og þá kemur hópur hlaupandi með svartan fána og flýta sér að draga hann að húni. Þannig að um stund þá blöktu þarna hlið við hlið við Þjóðmenningarhúsið annars vegar rauður fáni og hins vegar svartur fáni. Það var mjög magnað að horfa á það,“ segir Sólveig Anna en svarti fáninn hefur gjarnan verið notaður sem tákn anarkista og rauði fáninn sem tákn sósíalista og/eða kommúnista. Jón Gunnar segir ólgu hafa verið í loftinu þessa daga í janúar. „Þetta veldur líka ótta, ráðamenn eru óttaslegnir. Mótmælendur sitja um Þjóðleikhúskjallarann á meðan Samfylkingarfélag Reykjavíkur fundar inni í húsinu. Mikill ótti í húsinu, allir mótmælendurnir fyrir utan. Að hvaða niðurstöðu komist þið? Ætlið þið að hætta ríkisstjórnarsamstarfinu, ætlið þið að halda því áfram? Hvað gerist eiginlega ef þeir ætla að halda því áfram? Það var verið að kynda bál þarna fyrir utan, það voru þúsundir manns sem sungu og kyrjuðu þarna fyrir utan þannig að það er ofsaleg ólga í loftinu,“ segir Jón Gunnar. Arnar Rúnar lýsir aðstæðum sem svo að ekki hafi verið við neitt ráðið. Mikil læti hafi verið á staðnum, mótmælendur kveiktu stóran eld á götunni og slökkviliðið var með viðbúnað. Ákveðið að leyfa eldinum bara að loga á meðan ekki væri verið að kveikja í neinu öðru, að sögn Arnars Rúnars, en mótmælendur voru líka við Stjórnarráðið og enn voru einhverjir á Austurvelli. „Fólk fór líka að Stjórnarráðinu og það var verið að grýta steinum í það, það voru mölvaðar mjög margar rúður, skvett málningu á það og annað slíkt. Þannig að þetta dreifðist í rauninni á þrjá vettvanga, þetta var Austurvöllur, þetta var Stjórnarráðið og þarna við Þjóðleikhúskjallarann. Það er vont að vera með þrjá vettvanga og fólk var að flakka svolítið á milli,“ segir Arnar Rúnar. Fjöldi mótmælenda kom saman á Hverfisgötunni að kvöldi 21. janúar 2009 þar sem Samfylkingarfélagið í Reykjavík fundaði í Þjóðleikhúskjallaranum um ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK Notuðu táragas á Austurvelli í fyrsta sinn síðan 1949 Arnar Rúnar lýsir svo ástandinu eftir að mótmælendur fóru frá Þjóðleikhúskjallaranum og streymdu aftur niður á Austurvöll. Hann segir lögregluna hafa sent svolítið af mannskap heim því þingfundur átti að hefjast aftur að morgni og þá þurftu menn að vera til taks á ný. Þá segir hann að lögreglan hafi líka talið að mótmælin væru mögulega búin uppi við Þjóðleikhúskjallarann. En þá streymdi stór hluti, eða mikill fjöldi aftur, og þá byrjaði þetta af miklum krafti. Það var hiti í fólki og það var farið að grýta í okkur í stórum stíl. Við stóðum við vesturgaflinn á Alþingi og þar höfðu menn komist í einhverjar fornleifahleðslur. Þeir tóku grjót þaðan og grýttu í okkur. Við vorum orðnir fámennir og það gekk mikið á, segir Arnar Rúnar. Lögreglan var síðan orðin uppiskroppa með piparúða um miðnætti þar sem hún hafði notað mikið af úðanum yfir daginn. Þá var gripið til þess ráðs að nota táragas til að rýma Austurvöll en táragas hafði ekki verið notað þar síðan í NATO-mótmælunum 1949. „Þetta var ekki ásættanlegt ástand, þegar það er farið að fljúga svona mikið af grjóti, þetta er lífshættulegt, það voru ekki allir þarna með hjálma, þetta hefði getað lent í borgara, þetta var ekki ásættanlegt ástand, þannig að við fengum leyfi til þess að nota táragas sem hafði ekki verið notað á Austurvelli síðan 1949. Við fengum svoleiðis og náðum að hreinsa Austurvöllinn með þessu.“ Friðsöm mótmæli eða ekki? Fimm dögum síðar eða þann 26. janúar gekk Geir H. Haarde forsætisráðherra á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í kjölfarið fjöruðu mótmælin smám saman út. Jón Gunnar segir að Búsáhaldabyltingin hafi, þegar litið sé um öxl, verið ótrúlega friðsæl mótmæli. Fáir hafi meiðst og áætlun lögreglunnar að ýfa ekki upp ástandið hafi haft sitt að segja um hvernig mótmælin þróuðust. „Við getum borið það saman við hvernig sambærileg mótmæli þróuðust í öðrum löndum, eins og til dæmis í Grikklandi, þar sem lögreglan beitir allt öðruvísi aðferðum, eru með miklu betri tæki og miklu fjölmennari. Það hefur heilmikil áhrif á það hvernig mótmæli þróast,“ segir Jón Gunnar. Mótmælin horfa töluvert öðruvísi við Arnari Rúnari. „Nei, þau voru nú ekki friðsöm, það er engan veginn hægt að segja það. Við lentum í því við lögreglustöðina hvort það hafi verið í nóvember, að þá voru brotnar allar rúður hjá okkur og við þurftum að vera í óeirðabúnaði og með skildi hérna inni á lögreglustöðinni, það var sótt svo hart að okkur. Þannig að ég myndi alls ekki segja að það hafi verið á heildina litið friðsamt,“ segir Arnar Rúnar og bætir við að á meðan á mótælunum stóð hafi margir hótað því að kæra lögregluna fyrir ofbeldi. Það hafi hins vegar ekki komið neinar kærur. „Það sýnir held ég að við höfum farið mjög sparlega með valdbeitingu.“ Vert er að nefna að ein kona stefndi íslenska ríkinu til greiðslu miskabóta vegna handtöku lögreglu þann 20. janúar 2009. Konan stefndi ríkinu jafnframt vegna annarrar handtöku síðar sama ár, nánar tiltekið þann 21. maí, en hún fór fram á bæturnar vegna þess sem hún taldi harða framgöngu lögreglunnar við hana. Hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfum konunnar vegna handtökunnar í janúar 2009 en dæmdi henni 400 þúsund krónur í bætur vegna handtökunnar í janúar. Lögreglumenn standa vörð um Alþingishúsið í Búsáhaldabyltingunni í janúar 2009.FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN „Við vildum meina að við vorum öll í sama liði“ Arnar Rúnar segist ekki hafa tölu á því hversu margir lögreglumenn slösuðust í mótmælunum en segir það allt hafa verið minniháttar. Þá hefur hann heldur ekki tölu á því hversu margir mótmælendur slösuðust í átökum við lögregluna. „En ég veit að það slösuðust mótmælendur, það var beitt kylfum og annað, en þeir fóru bara ekki með málið lengra. Þeir lentu í hnjaski og átökum við okkur, það var alveg pottþétt, en ég held að það hafi ekki verið neitt alvarlegt.“ Aðspurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart í Búsáhaldabyltingunni segir Arnar Rúnar það hvað reiði fólks bitnaði á lögreglunni. „Við erum bara íbúar í þessu landi. Reiðin bitnaði á okkur. Það var ráðist hérna á lögreglustöðina, það var ráðist á okkur, hent grjóti í okkur og annað slíkt. Þetta kom á óvart. Við vildum meina að við værum öll í sama liði. Þó að við séum lögreglan þá erum við bara að vinna okkar vinnu en við vorum grýttir með grjóti og það var hellt yfir okkur málningu, kastað í okkur, talað um að það væri skítur og hland og allt svoleiðis, sem við fengum yfir okkur þarna. Okkur þótti það miður og þetta kom á óvart. Ég var ekki búinn að sjá það fyrir að ég ætti eftir að lenda í þessu þegar ég byrjaði hérna fyrir 30 árum síðan.“ Hinn 6. október næstkomandi eru tíu ár frá þeim degi þegar Geir. H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland. Í hönd fóru óvissutímar þar sem þjóðin streymdi niður á Austurvöll og mótmælti ríkisstjórninni, Seðlabankanum og ástandinu í þjóðfélaginu almennt. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar rýnir í hrunið næstu daga með ítarlegri fréttaröð. Rætt verður við fólk sem var í forystu í þjóðfélaginu á árunum fyrir hrun, fræðimenn sem hafa rannsakað orsakir og afleiðingar hrunsins sem og fólkið í landinu sem mótmælti og missti í hruninu. Fréttaskýringar Hrunið Tíu ár frá hruni Tengdar fréttir Tíu ár frá hruni: Þjóðnýtingin á Glitni sem aldrei varð að veruleika Á þessum degi fyrir sléttum tíu árum var tilkynnt um kaup ríkisins á 75 prósenta hlut í Glitni banka fyrir 84 milljarða króna. Af kaupunum varð þó aldrei og Glitnir rétt eins og hinir stóru bankarnir var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og fór í kjölfarið í slitameðferð. 29. september 2018 17:30 Tíu ár frá hruni: Neyðarlögin voru fordæmalaus á heimsvísu en björguðu Íslandi Neyðarlögin sem Alþingi samþykkti 6. október 2008 voru fordæmalaus lagasetning á heimsvísu en með því fékk Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir til að taka yfir starfsemi bankanna og skipta þeim upp i gamla og nýja banka. Þá fengu innistæður forgang fram yfir aðrar kröfur. 30. september 2018 18:30 Tíu ár frá hruni: Lánuðu öllum Norðurlandaþjóðunum nema Íslandi Í aðdraganda hrunsins 2008 leitaði Seðlabanki Íslands eftir aðstoð frá Seðlabanka Bandaríkjanna til að styrkja gjaldeyrisforða íslenska ríkisins í þeim ólgusjó sem var framundan en var ítrekað neitað. Á sama tíma fengu seðlabankar allra hinna Norðurlandanna slík lán. 28. september 2018 18:00 Mest lesið Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Innlent Hvít jól, gular viðvaranir og varasamt ferðaveður Innlent Lyklaskipti í máli og myndum: „Þetta er voldugur lykill“ Innlent Tvö tröllvaxin mál og sækja eigi tekjurnar í fiskinn Innlent Segir Helga Magnús óhæfan til að gegna embættinu Innlent Nýr flugvöllur opnar nýjar dyr fyrir Suður-Grænland Innlent „Ég fæ ekki séð hvaða rugl þetta er“ Innlent Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Innlent „Heimsins furðulegasti fiskur“ afhentur í fjármálaráðuneytinu Innlent Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Erlent
Það er álitamál hvort að Búsáhaldabyltingin hafi verið friðsæl mótmæli á heildina litið eður ei. Prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands sem rannsakað hefur mótmælin segir að þau hafi á endanum verið ótrúlega friðsæl. Fáir hafi til dæmis meiðst, en Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sá sem stýrði aðgerðum lögreglunnar í Búsáhaldabyltingunni, kveðst ekki líta svo á að um friðsöm mótmæli hafi verið að ræða. Þannig hafi reiði mótmælenda beinst að lögreglunni og framganga mótmælenda hafi komið á óvart. Þúsundir manna komu saman á Austurvelli haustið 2008 og í janúar 2009 til að mótmæla ríkisstjórninni, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og ástandinu almennt í samfélaginu eftir fall bankanna í október. Arnar Rúnar segir lögregluna hafa séð í hvað stefndi eftir mótmælin við Hótel Borg á gamlársdag 2008. Þannig hafi lögregluyfirvöld átt von á fjölmennum mótmælum þegar þing kom saman á ný þann 20. janúar 2009 og aldrei verið með meiri viðbúnað en þá. Þurftu að hætta útsendingu vegna skemmdarverka sem unnin voru á tæknibúnaði Á gamlársdag 2008 kom til átaka á milli mótmælenda annars vegar og lögreglu og starfsliðs Stöðvar 2 hins vegar. Mótmælendur höfðu komið saman við Hótel Borg vegna þess að þar voru forystumenn stjórnmálaflokkanna samankomnir fyrir hinn árlega þátt Stöðvar 2, Kryddsíldina. Á meðal þeirra sem voru inni á hótelinu var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Formaður hins ríkisstjórnarflokksins, Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, komst hins vegar ekki inn á Hótel Borg vegna mótmælanna en hann var seinna á ferð en aðrir formenn stjórnmálaflokkanna því hann hafði nýlokið við að taka upp áramótaávarp sitt. Mótmælin urðu til þess að beinni útsendingu Kryddsíldarinnar var hætt eftir að mótmælendur skemmdu útsendingarbúnað Stöðvar 2. Hópur þeirra hafði komist inn í anddyri salarins þaðan sem útsendingin var send. Forsíða Fréttablaðsins 9. október 2008. Erfitt fyrir lögreglu að sjá mynstur í mótmælunum „Við vorum alltaf að reyna að sjá eitthvað mynstur í þessu þannig að við vorum að ákveða hvernig við myndum bregðast við, hvað við þyrftum að hafa mikinn mannskap og annað slíkt. Það var svolítið erfitt að sjá mynstrin í þessu. Þegar það voru búin að koma ein hörkumótmæli, ofbeldi og eitthvað slíkt, þá kom oft eitthvað rólegt á milli. En svo smám saman var að aukast krafturinn í þessu. Við sáum í hvað stefndi eftir Kryddsíldina og áttum alveg von á þessu að þetta myndi gerast þarna við þingsetninguna og höfum aldrei verið með meiri viðbúnað en þá,“ segir Arnar Rúnar. Á heildina litið voru ekki margir sem mótmæltu í desember 2008. Þeir sem mótmæltu höfðu hins vegar mjög hátt og voru áberandi í fjölmiðlum að sögn Jóns Gunnars Bernburg, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem hefur rannsakað Búsáhaldabyltinguna ítarlega. Hann segir róttæku hópana hafa skipulagt sig og verið með rosaleg læti. Það eru fáir að mótmæla en þeir sem eru að mótmæla, hafa mjög hátt. Þeir eru í fjölmiðlum, lögreglan er að fást við þá, þannig að þeir halda mótmælunum svolítið lifandi, segir Jón Gunnar. Bubbi boðaði til mótmæla Fyrir áramót náði hins vegar fjöldi mótmælenda ákveðnu hámarki um miðjan nóvember en mótmælin hófust strax í október 2008 og það í sömu viku og neyðarlögin voru sett. Þannig boðaði tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens til mótmælafundar miðvikudaginn 8. október 2008 og sagði á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir að hátt í þúsund manns hefðu mætt á Austurvöll. Tíu dögum síðar, eða þann 18. október, boðaði svo hópur undir forystu Harðar Torfasonar, Kolfinnu Baldvinsdóttur, Dr. Gunna, Birgis Þórarinssonar og Andra Sigurðssonar til mótmæla á Austurvelli þar sem þess var krafist að Davíð Oddssyni, sem þá var seðlabankastjóri, yrði vikið frá störfum. Var talið að nokkur hundruð hefðu komið saman á þeim mótmælum. Sólveig Anna Jónsdóttir er í dag formaður Eflingar en hún tók virkan þátt í Búsáhaldabyltingunni á sínum tíma.vísir/vilhelm Reiðin ekki drifkrafturinn heldur löngunin til að breyta Sólveig Anna Jónsdóttir, sem kjörin var formaður Eflingar fyrr á þessu ári, tók virkan þátt í Búsáhaldabyltingunni og var með alveg frá byrjun. „Ég var bara að fara sem manneskjan ég af því að mér fannst þetta vera bara mjög mikilvægt og líka vegna þess að ég var kannski með svolítið uppsafnaða þörf frá dvöl minni í Bandaríkjunum til þess að mótmæla af því að ég hafði orðið mjög svona pólitískt meðvituð þar undir viðbjóðslegri stjórn George W. Bush og hans glæpahyskis. Ég hafði líka upplifað mjög sterkt hvað stéttaskiptingin og kapítalisminn var rosalega skaðlegur samfélaginu. Ég var líka búin að velta fjármálavæðingunni og því öllu fyrir mér þannig að ég var bara svona mjög tilbúin til þess að mótmæla því sem ég sá, svona kerfisbundið vandamál orsakað af kapítalismanum, nýfrjálshyggjunni og fjármálavæðingunni,“ segir Sólveig Anna. Aðspurð hvort hún muni hvernig henni leið þarna fyrstu vikurnar í október segir Sólveig Anna að hún hafi verið rosalega spennt. „Ég man mjög vel eftir því að hafa bæði verið á einhverri rosalegri hraðferð að reyna að setja mig inn í allt sem var að gerast. Ég var bæði náttúrulega bara að vinna og að sinna heimili en svo var ég líka að reyna að setja mig inn í hlutir sem voru flóknir og ég hafði ekkert verið að fylgjast neitt mjög vel með áður. En ég man svona mest eftir því að hafa verið spennt. Kannski ekki einu sinni svo rosalega áhyggjufull þó að vissulega hafi ég verið áhyggjufull og svo þegar maðurinn minn missti vinnuna stuttu seinna þá dýpkuðu þær áhyggjur mjög mikið.“ Hún segist ekki hafa verið sorgmædd. „Auðvitað fann ég oft til reiði en ég myndi segja að fyrst og fremst var ég bara mjög mótiveruð í það að taka þátt og reiðin var ekki drifkrafturinn fyrst og fremst heldur löngunin til þess að sjá hvort það væri kannski hægt að breyta einhverju.“ Ólíkir hópar komu saman til að mótmæla Jón Gunnar segir að það veki verulega athygli að aktívistar hafi strax í upphafi hrunsins byrjað að skipuleggja mótmæli. Þau hafi hins vegar ekki verið mjög fjölmenn. „Þannig að það sem gerist í október og nóvember er að smám saman eykst fjöldi mótmælenda á þessum laugardagsfundum, borgarafundum, og nær hámarki seinni part nóvember. Þá eru þessir fundir orðnir risastórir og þar eru ólíkir hópar að koma saman. Það eru umhverfisverndarsinnar, femínistar, anarkistar, en líka nýjar raddir sem eru að tala um lýðræðið og spillingu og annað slíkt,“ segir Jón Gunnar. Þannig er talið að um átta þúsund manns hafi komið saman á Austurvelli þann 15. nóvember til að mótmæla og var meðal annars krafist afsagnar bankastjórnar Seðlabankans og kosninga um vorið, eins og greint var frá á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir mótmælin. „Fundurinn fór friðsamlega fram en skyr og eggjum var kastað í Alþingishúsið eftir fundinn,“ sagði í myndatexta við forsíðumynd blaðsins. Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.vísir/vilhelm Fólk meira drifið áfram af hugmyndafræði heldur en persónulegu tapi Rannsókn Jóns Gunnars á Búsáhaldabyltingunni var umfangsmikil en árið 2016 gaf hann út bókina Economic Crisis and Mass Protest: The Pots and Pans Revolution in Iceland sem byggði á niðurstöðum rannsóknar hans. Rannsóknin var það sem kallað er tilviksrannsókn þar sem blandaðar aðferðir eru notaðar. Jón Gunnar lagði spurningakönnun fyrir 1000 manna úrtak á höfuðborgarsvæðinu og tók ítarleg viðtöl við skipuleggjendur mótmælanna, aðra mótmælendur og lögreglumenn, alls um 30 manns. Þá orðræðugreindi hann allar ræður sem hann komst í sem voru haldnar á Austurvelli haustið 2008 og í janúar 2009 auk þess sem hann skoðaði gögn lögreglu um þeirra mat á fjölda mótmælenda og hversu margir lögreglumenn voru sendir á staðinn á degi hverjum. Á meðal þess sem gögnin sýndu var hvað dreif fólk til að taka þátt í mótælunum. Jón Gunnar segir að fólk hafi fyrst og fremst verið drifið af hugmyndafræðilegum ástæðum. „Þetta var fólk sem var vinstra megin í pólitík, fólk sem hafði áhyggjur af lýðræðinu eða taldi að spilling væri útbreidd. Þessir þættir vógu mjög þungt í þátttökunni. Það vóg miklu minna hvort að fólk hefði tapað sjálft í hruninu, fólk var minna drifið af persónulegum vandræðum. Það vóg eitthvað, sérstaklega sá hópur sem taldi sig hafa farið miklu verr út úr hruninu en aðrir [...] Sá hópur var líklegur til að mæta. Þetta var mjög reitt fólk.“ Þá segist Jón Gunnar aldrei hafa getað greint það í sínum gögnum að stjórnmálaflokkar stæðu á bak við mótmælin. „Annað en það að þeir sem skipulögðu þessi mótmæli hafi gert það að sínu frumkvæði. Vissulega voru laugardagsfundirnir skipulagðar uppákomur en fólkið sem skipulagði þessar uppákomur, það voru ekki stjórnmálaflokkar þarna á bak við. [...] Það var til dæmis eindregin stefna til dæmis Harðar Torfasonar á sínum tíma að það ættu engir stjórnmálamenn að koma að þessum mótmælum. Það ættu engir stjórnmálamenn að koma og halda ræður. Þetta átti að vera fólkið að skilgreina og ramma inn þetta ástand á sínum forsendum.“ Mótmælendur gerðu aðsúg að bíl Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann yfirgaf stjórnarráðið þann 21. janúar 2009. Fimm dögum síðar baðst Geir lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.fréttablaðið/gva „Mjög djúp og sönn upplifun fyrir því að kapítalisminn væri krísan“ Sólveig Anna segir að kröfur mótmælenda í Búsáhaldabyltingunni hafi verið mjög margar og að mörgu leyti mjög misjafnar. Þannig hafi verið hópur fólks sem var með mjög formaðar kröfur sem sneru að lánamálum heimilanna. Svo var þarna fólk sem var bara að mótmæla því sem það upplifði sem spillingu í íslensku samfélagi, þessu mikla samkrulli stjórnmála og viðskiptalífsins. Ég upplifði það til dæmis mjög sterkt, það var mjög stór partur af því sem ég var að mótmæla, segir Sólveig Anna og bætir við að hún hafi líka tilheyrt hópi fólks sem var með andkapitalíska nálgun á mótmælin. „Vegna þess að við vorum komin inn í svona djúpa kreppu og krísu kapítalismans að þá væri komið þarna tækifæri fyrir fólk og samfélagið til að endurhugsa hvernig við vildum að samfélagið væri uppbyggt, hverra hagsmuna við vildum að væri gætt í samfélaginu og svo framvegis. Þannig að ef ég tala bara fyrir mig persónulega þá var það svona helst sá staður sem ég var að koma frá. Svona mjög djúp og sönn upplifun fyrir því að kapítalisminn væri krísan og við yrðum að bregðast við því stóra vandamáli.“ Óskilgreind reiði Jón Gunnar segir að þegar verið sé að tala um kröfur mótmælenda í Búsáhaldabyltingunni verði að hafa í huga að þegar fjöldamótmæli eru annars vegar þá sé ástandið í rauninni mjög óljóst. „Fólk er reitt. Það var frægt skilti sem mótmælandi setti á loft sem á stóð „Helvítis, fokking, fokk“ ekki satt? Óskilgreind „Ég er reiður af einhverjum ástæðum og ég get ekki alveg komið því í orð.“ Það eru svolítið skilaboðin með skiltinu. Hverjir voru það síðan komu því í orð? Það voru þeir sem héldu ræður og skrifuðu pistla og römmuðu inn hrunið. Fólk var að reyna að ramma inn hrunið og sá rammi sem verður ofan á, sérstaklega í mótmælunum, er að hrunið sé lýðræðiskrísa,“ segir Jón Gunnar. Kröfur fólks voru alls konar. „Það sem á endanum skiptir máli var hvernig skipuleggjendum mótmælanna tókst að sameina fólk á bak við mjög einfaldar kröfur. Ríkisstjórnina frá, Seðlabankastjórnina frá, og svo framvegis. Það voru þessar einföldu kröfur sem sameinuðu mótmælendur en mótmælendur voru með alls konar hugmyndir. [...] Líka um leið og þeim kröfum var mætt og ríkisstjórnin fór frá þá líka snardró úr þátttökunni.“ Arnar Rúnar Marteinsson er varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann stjórnar aðgerðasveit lögreglunnar og stýrði aðgerðum í Búsáhaldabyltingunni.vísir/vilhelm Hafði áhrif hversu fámenn lögreglan var Arnar Rúnar segir að lögreglan hafi ekki búist við fjöldamótmælum strax í byrjun hrunsins. Lögreglan hafi hins vegar verið meðvituð að þetta væru miklir óvissutímar. Þannig var til dæmis ekki vitað hvort að greiðslukort myndu virka þannig að það var viðbúið að það gæti orðið „kaosástand,“ eins og Arnar Rúnar orðar það. „Þannig að við vorum strax með aukinn viðbúnað vegna þessa og vorum tilbúnir til að bregðast við ef eitthvað væri. En línan var sú, og var ákveðin strax í upphafi, að við ætluðum að vera mjúkir, þannig séð. Við skildum vel reiði fólks þannig að við ætluðum að stilla allri valdbeitingu eins og við gætum, hafa allt í hófi,“ segir Arnar Rúnar. Það spilaði líka inn í strategíu lögreglunnar í mótmælunum hversu fámennt löregluliðið var. Stundum var svo mikill mannskapur og ástandið var ekki það gott að það hefði ekki verið forsvaranlegt að fara út í aðgerðir sem ekki sæi fyrir endann á. Við urðum að halda að okkur höndum. Það var betra að taka við einhverju hnjaski heldur en að fara út í aðgerðir sem voru ófyrirséðar afleiðingar. Jón Gunnar lýsir strategíu lögreglunnar sem svo að hún hafi gengið út á að ýfa ekki upp ástandið. Arnar Rúnar tekur undir það. „Það má segja það því við vorum ekki að sýna vöðvana þannig séð. Þegar það voru mótmælafundir á Austurvelli þá settum við kannski bara fullorðna lögreglumenn í úlpu út á völlinn og höfðum allt í lágmarki en vorum síðan með óeirðamennina baka til. Við vorum ekki að ögra fólki með því að hnykkla vöðvana framan í þá nema á þyrfti að halda. Við reyndum að leyfa bara fólki að nýta tjáningarfrelsi sitt en sýndum ekki mikinn styrk nema það væri nauðsynlegt.“ Dómsmálið sem höfðað var gegn níumenningunum vakti mikla athygli en öll voru þau sýknuð af ákæru fyrir brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Litu svo á að þau hefðu fullan rétt á að fara upp á þingpallana Eins og áður segir voru mótmælin ekki jafn fjölmenn í desember 2008 og þau höfðu verið í mánuðunum tveimur á undan. Hins vegar urðu þá tveir atburðir sem að vöktu mikla athygli, Kryddsíldarmótmælin sem áður er getið, og svo þegar hópur mótmælenda reyndi að komast upp á áhorfendapalla Alþingis. Níu þeirra voru síðar ákærðir fyrir árás á Alþingi og var Sólveig Anna ein þeirra. Níumenningarnir voru allir sýknaðir af ákæru fyrir brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Tveir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi, meðal annars fyrir að hindra þingverði í störfum þeirra, og þá voru tveir dæmdir til sektargreiðslu, þar á meðal Sólveig Anna, fyrir að hindra þingvörð í störfum sínum. Hópur fólks reyndi að komast upp á þingpallana þann 8. desember sem var mánudagur en hingað til höfðu mótmælendur nánast eingöngu komið saman á Austurvelli á laugardögum. Sólveig Anna segir að hennar hugsun hafi verið sú að það væri ekkert endilega sniðugt að vera alltaf föst á einum stað á laugardögum. „Heldur þyrfti að víkka þetta út, fara með þetta á aðra staði og gera þetta á þann hátt að þeir sem við vorum að mótmæla myndu meira átta sig á því að við værum þarna til þess að senda þeim skilaboð. Við litum svo á að við hefðum bara fullan rétt á að fara upp á þingpallana og það var það sem við vorum að fara að gera. Við ætluðum að komast upp á þingpallana til þess að vera sýnileg og svo til þess að lesa upp yfirlýsingu.“ Það kom hins vegar til átaka á milli mótmælenda og þingvarða sem meinuðu fólkinu aðgang að þingpöllunum. Alþingi sendi neyðarboð til lögreglu um aðstoð og eftir að lögreglan kom á staðinn urðu átökin verri að sögn Sólveigar Önnu. Ákæran kom mjög mikið á óvart Aðspurð hvort það hafi komið henni á óvart að hópnum hafi verið meinaður aðgangur að pöllunum og að lögregla hafi verið kölluð til segir hún svo ekki vera. „Nei, ef ég er bara alveg hreinskilin og horfi á þetta þá get ég ekki sagt að það hafi komið á óvart og ég skil að vissu leyti að fólk hafi verið mjög spennt, spennustigið var vissulega mjög hátt. En það sem kom mér á óvart voru viðbrögðin sem fylgdu. Ákæran og dómsmálið og öll sú brjálsemi, það kom mér mjög mikið á óvart. Mér fannst það mjög ömurlegt en líka fræðandi og upplýsandi að sjá hvernig yfirvaldið nálgaðist okkur sem eitthvað rosalegt vandamál í samfélaginu sem þyrfti að kenna mikla og þunga lexíu. Það kom mér mjög mikið á óvart en það var kannski barnaskapur í mér að halda að viðbrögðin yrðu einhvern veginn öðruvísi.“ Arnar Rúnar segir að málið hafi ekki verið rannsakað upphaflega sem árás á Alþingi heldur sem líkamsárás þar sem þingvörður hafði meiðst sem og lögreglumaður. „Síðan var þetta í rauninni nálgunin hjá okkur, við meðhöndluðum þetta eins og þetta væri líkamsárás, en þetta var ekki tekið í upphafi eins og þetta hefði verið árás á Alþingi, að þetta hefði verið skipulagt, enda vorum við ekki með þær upplýsingar í rauninni þegar við komum á staðinn, að þetta væri svona alvarlegt. Við sáum það ekki fyrr en bara á myndbandi að þetta gæti verið meira mál,“ segir Arnar Rúnar. Lögreglumenn stóðu vaktina við Hótel Borg á gamlársdag 2008 þegar mótmælendur söfnuðust þar saman vegna Kryddsíldarinnar. Áttu ekki von á aggressívum mótmælum við Hótel Borg Síðan voru það Kryddsíldarmótmælin sem urðu mun aggresívari en lögreglan átti von á. Arnar Rúnar segir að lögreglan hafi vitað af því að til stæða að mótmæla við Hótel Borg en taldi að mun færri myndu mæta en varð svo raunin. Lögreglan var því ekki með mikinn viðbúnað en Arnar Rúnar segir að það hafi líka spilað inn í að gamlárskvöld var framundan. „Þá þurfum við að vera með mikinn viðbúnað um nóttina þannig að það var mjög erfitt að fá mannskap. Það hefði verið vont fyrir okkur að taka mikinn mannskap út af þessum mótmælum því þá hefði nóttin orðið illa mönnuð í staðinn. [...] Þannig að við reyndum að stilla þetta, vera með lítinn viðbúnað.“ Arnar Rúnar segir lögregluna hafa farið á staðinn um morguninn til þess að skoða aðstæður og tryggt sér leið bakdyramegin að Hótel Borg frá Lækjargötu. Þar var hlið og fékk lögreglan lykil að því til að geta brugðist mjög hratt við. „Við vorum þarna á staðnum en þegar við ætlum að fara inn um hliðið þá passar lykillinn ekki almennilega. Þannig að við töfðumst aðeins þannig að þetta var mjög erfitt hjá fólkinu á Stöð 2 sem þurfti að vera í slagsmálum. En við vorum undirbúnir, með lágmarksviðbúnað og tryggt viðbragð, en það var langur tími, einhverjar mínútur, þar sem fólkið þurfti að standa í átökum við mótmælendur áður en við komum.“ Spurður út í það hvort að það hafi komið lögreglunni á óvart hversu aggressív mótmælinu urðu við Hótel Borg segir Arnar Rúnar svo vera. „Við áttum von á litlu, auðvitað hefðum við viljað hafa meiri mannskap, en ætlið þið að taka mannskapinn þarna og skilja nóttina eftir illa mannaða? Við vorum svolítið á milli steins og sleggju. Það hefði verið betra að hafa meiri mannskap strax og þá hefðum við getað brugðist miklu markvissara við en svona voru bara aðstæður á þessum tíma.“ „Fólk ætlaði að færa mótmælin nær þeim sem var verið að mótmæla“ Sólveig Anna segir að hún hafi ekki verið í hópi þeirra mótmælenda sem fóru inn á Hótel Borg. Hún hafi hins vegar verið þarna í hópi fólks fyrir utan og lýsir stemningunni svona: „Ég kom þarna til að taka þátt, við fórum í svona eins og blysför þarna að. Svo magnaðist þetta upp og stemningin var þessi, sem var mjög ríkjandi stemning, að þessi svona skil milli okkar, almennings, alþýðunnar og þeirra sem færu með völd væru ennþá alveg klárt til staðar. Ég held að mjög stór hópur af fólki sem var að mótmæla hafi litið svo á að með því sem hafði gerst, með þessari svona afhjúpun sem hafði orðið á íslenskri valda-og peningastétt þá væri ekkert sanngjarnt að viðhalda þessum skilum svona rosalega mikið. Þannig að þarna var þetta móment að fólk ætlaði að færa mótmælin nær þeim sem var verið að mótmæla og þá varð þetta spennuástand.“ Sólveig Anna lítur svo á að Kryddsíldarmótmælin hafi verið mjög mikilvægt augnablik í sögu Búsáhaldabyltingarinnar. Að því leyti að það datt ekki bara svona allt niður heldur var þessi stóra stund í þessari mótmælasögu. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að þetta var svona samfella fram að þessum stóru atburðum sem urðu þá þetta „climax“ á þessu öllu. Nýbreytni mjög mikilvæg í mótmælum „Climaxið“ eða hápunkturinn sem Sólveig Anna nefnir eru mótmælin sem urðu svo eftir áramótin þegar Alþingi kom saman á ný eftir jólahlé þann 20. janúar 2009. „Þá er þessi nýbreytni og nýbreytni er mjög mikilvæg í mótmælum. Þá segja skipuleggjendurnir „Komið með potta og pönnur, nú er þing að koma saman og við ætlum ekki að hittast á laugardegi heldur virkum degi.“ Þá breytist dýnamíkin, það er nýbreytni og spenna í loftinu og þá smellur þetta saman í þessum agressívu mótmælum, þessum árásargjörnu mótmælum sem eiga sér stað,“ segir Jón Gunnar. „Mestu mótmæli frá 1949,“ sagði á forsíðu Morgunblaðsins þann 21. janúar og var þar vísað í mótmælin á Austurvelli þann 30. mars það ár vegna aðildar Íslands að NATO. Sagði á forsíðu Morgunblaðsins að nokkur þúsund manns hefðu mótmælt á Austurvelli. Ítrekað hefði verið reynt að kveikja í Oslóartrénu en án árangurs þar til nokkrum ungmennum tókst að fella tréð upp úr miðnætti og draga það á bál sem logaði á miðjum vellinum. 21. janúar eftirminnilegasti dagurinn að mati lögregluvarðstjórans Arnar Rúnar segir að 21. janúar sé án efa eftirminnilegasti dagurinn í Búsáhaldabyltingunni. Þingfundur hófst klukkan 13:30 og voru mótmælendur mættir á Austurvöll upp úr klukkan eitt. Klukkan þrjú var síðan jarðarför í Dómkirkjunni. Bað lögreglan mótmælendur um að taka tillit til þess sem tóku vel í það og fóru af Austurvelli og að Stjórnarráðinu. „Þá hittist þannig á að forsætisráðherra var að fara út úr Stjórnarráðinu bakdyra megin í bíl. Fólk sá það og fór og umkringdi bílinn og réðst í rauninni á bílinn. Við sáum það, við vorum komnir þarna upp við Stjórnarráð líka þannig að við þurftum að taka þarna upp kylfur og taka á fólki til þess að það kæmist í burtu, það mátti litlu muna því það var svo mikill hiti í fólki. En síðan kom fólkið þarna niður eftir aftur eftir að jarðarförin var búin og það var farið að grýta Alþingishúsið,“ segir Arnar Rúnar. Hann telur að um tuttugu rúður hafi verið brotnar í Alþingishúsinu á meðan mótmælt var á Austurvelli fram undir klukkan sjö um kvöldið. Þá færðust mótmælin upp að Þjóðleikhúskjallaranum við Hverfisgötu þar sem Samfylkingarfélagið í Reykjavík kom saman til fundar til að ræða ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Á fundinum var samþykkt ályktun um að slíta samstarfinu. Búsáhaldabyltingin náði hámarki í janúar 2009 þegar þing kom saman á ný eftir jólahlé. Þúsundir komu þá saman á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórninni og ástandinu í samfélaginu nokkrum mánuðum eftir hrun.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM „Ofsaleg ólga í loftinu“ Sólveig Anna segir mótmælin á Hverfisgötunni hafa verið mögnuð og mikilvæg. Ef þau hefðu ekki verið sé alls óvíst hversu lengi ríkisstjórnin hefði haldið áfram. „Þarna áttu sér stað ýmsir minnisstæðir og fyndnir atburðir. Það er til dæmis búið að draga rauðan fána að húni og þá kemur hópur hlaupandi með svartan fána og flýta sér að draga hann að húni. Þannig að um stund þá blöktu þarna hlið við hlið við Þjóðmenningarhúsið annars vegar rauður fáni og hins vegar svartur fáni. Það var mjög magnað að horfa á það,“ segir Sólveig Anna en svarti fáninn hefur gjarnan verið notaður sem tákn anarkista og rauði fáninn sem tákn sósíalista og/eða kommúnista. Jón Gunnar segir ólgu hafa verið í loftinu þessa daga í janúar. „Þetta veldur líka ótta, ráðamenn eru óttaslegnir. Mótmælendur sitja um Þjóðleikhúskjallarann á meðan Samfylkingarfélag Reykjavíkur fundar inni í húsinu. Mikill ótti í húsinu, allir mótmælendurnir fyrir utan. Að hvaða niðurstöðu komist þið? Ætlið þið að hætta ríkisstjórnarsamstarfinu, ætlið þið að halda því áfram? Hvað gerist eiginlega ef þeir ætla að halda því áfram? Það var verið að kynda bál þarna fyrir utan, það voru þúsundir manns sem sungu og kyrjuðu þarna fyrir utan þannig að það er ofsaleg ólga í loftinu,“ segir Jón Gunnar. Arnar Rúnar lýsir aðstæðum sem svo að ekki hafi verið við neitt ráðið. Mikil læti hafi verið á staðnum, mótmælendur kveiktu stóran eld á götunni og slökkviliðið var með viðbúnað. Ákveðið að leyfa eldinum bara að loga á meðan ekki væri verið að kveikja í neinu öðru, að sögn Arnars Rúnars, en mótmælendur voru líka við Stjórnarráðið og enn voru einhverjir á Austurvelli. „Fólk fór líka að Stjórnarráðinu og það var verið að grýta steinum í það, það voru mölvaðar mjög margar rúður, skvett málningu á það og annað slíkt. Þannig að þetta dreifðist í rauninni á þrjá vettvanga, þetta var Austurvöllur, þetta var Stjórnarráðið og þarna við Þjóðleikhúskjallarann. Það er vont að vera með þrjá vettvanga og fólk var að flakka svolítið á milli,“ segir Arnar Rúnar. Fjöldi mótmælenda kom saman á Hverfisgötunni að kvöldi 21. janúar 2009 þar sem Samfylkingarfélagið í Reykjavík fundaði í Þjóðleikhúskjallaranum um ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK Notuðu táragas á Austurvelli í fyrsta sinn síðan 1949 Arnar Rúnar lýsir svo ástandinu eftir að mótmælendur fóru frá Þjóðleikhúskjallaranum og streymdu aftur niður á Austurvöll. Hann segir lögregluna hafa sent svolítið af mannskap heim því þingfundur átti að hefjast aftur að morgni og þá þurftu menn að vera til taks á ný. Þá segir hann að lögreglan hafi líka talið að mótmælin væru mögulega búin uppi við Þjóðleikhúskjallarann. En þá streymdi stór hluti, eða mikill fjöldi aftur, og þá byrjaði þetta af miklum krafti. Það var hiti í fólki og það var farið að grýta í okkur í stórum stíl. Við stóðum við vesturgaflinn á Alþingi og þar höfðu menn komist í einhverjar fornleifahleðslur. Þeir tóku grjót þaðan og grýttu í okkur. Við vorum orðnir fámennir og það gekk mikið á, segir Arnar Rúnar. Lögreglan var síðan orðin uppiskroppa með piparúða um miðnætti þar sem hún hafði notað mikið af úðanum yfir daginn. Þá var gripið til þess ráðs að nota táragas til að rýma Austurvöll en táragas hafði ekki verið notað þar síðan í NATO-mótmælunum 1949. „Þetta var ekki ásættanlegt ástand, þegar það er farið að fljúga svona mikið af grjóti, þetta er lífshættulegt, það voru ekki allir þarna með hjálma, þetta hefði getað lent í borgara, þetta var ekki ásættanlegt ástand, þannig að við fengum leyfi til þess að nota táragas sem hafði ekki verið notað á Austurvelli síðan 1949. Við fengum svoleiðis og náðum að hreinsa Austurvöllinn með þessu.“ Friðsöm mótmæli eða ekki? Fimm dögum síðar eða þann 26. janúar gekk Geir H. Haarde forsætisráðherra á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í kjölfarið fjöruðu mótmælin smám saman út. Jón Gunnar segir að Búsáhaldabyltingin hafi, þegar litið sé um öxl, verið ótrúlega friðsæl mótmæli. Fáir hafi meiðst og áætlun lögreglunnar að ýfa ekki upp ástandið hafi haft sitt að segja um hvernig mótmælin þróuðust. „Við getum borið það saman við hvernig sambærileg mótmæli þróuðust í öðrum löndum, eins og til dæmis í Grikklandi, þar sem lögreglan beitir allt öðruvísi aðferðum, eru með miklu betri tæki og miklu fjölmennari. Það hefur heilmikil áhrif á það hvernig mótmæli þróast,“ segir Jón Gunnar. Mótmælin horfa töluvert öðruvísi við Arnari Rúnari. „Nei, þau voru nú ekki friðsöm, það er engan veginn hægt að segja það. Við lentum í því við lögreglustöðina hvort það hafi verið í nóvember, að þá voru brotnar allar rúður hjá okkur og við þurftum að vera í óeirðabúnaði og með skildi hérna inni á lögreglustöðinni, það var sótt svo hart að okkur. Þannig að ég myndi alls ekki segja að það hafi verið á heildina litið friðsamt,“ segir Arnar Rúnar og bætir við að á meðan á mótælunum stóð hafi margir hótað því að kæra lögregluna fyrir ofbeldi. Það hafi hins vegar ekki komið neinar kærur. „Það sýnir held ég að við höfum farið mjög sparlega með valdbeitingu.“ Vert er að nefna að ein kona stefndi íslenska ríkinu til greiðslu miskabóta vegna handtöku lögreglu þann 20. janúar 2009. Konan stefndi ríkinu jafnframt vegna annarrar handtöku síðar sama ár, nánar tiltekið þann 21. maí, en hún fór fram á bæturnar vegna þess sem hún taldi harða framgöngu lögreglunnar við hana. Hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfum konunnar vegna handtökunnar í janúar 2009 en dæmdi henni 400 þúsund krónur í bætur vegna handtökunnar í janúar. Lögreglumenn standa vörð um Alþingishúsið í Búsáhaldabyltingunni í janúar 2009.FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN „Við vildum meina að við vorum öll í sama liði“ Arnar Rúnar segist ekki hafa tölu á því hversu margir lögreglumenn slösuðust í mótmælunum en segir það allt hafa verið minniháttar. Þá hefur hann heldur ekki tölu á því hversu margir mótmælendur slösuðust í átökum við lögregluna. „En ég veit að það slösuðust mótmælendur, það var beitt kylfum og annað, en þeir fóru bara ekki með málið lengra. Þeir lentu í hnjaski og átökum við okkur, það var alveg pottþétt, en ég held að það hafi ekki verið neitt alvarlegt.“ Aðspurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart í Búsáhaldabyltingunni segir Arnar Rúnar það hvað reiði fólks bitnaði á lögreglunni. „Við erum bara íbúar í þessu landi. Reiðin bitnaði á okkur. Það var ráðist hérna á lögreglustöðina, það var ráðist á okkur, hent grjóti í okkur og annað slíkt. Þetta kom á óvart. Við vildum meina að við værum öll í sama liði. Þó að við séum lögreglan þá erum við bara að vinna okkar vinnu en við vorum grýttir með grjóti og það var hellt yfir okkur málningu, kastað í okkur, talað um að það væri skítur og hland og allt svoleiðis, sem við fengum yfir okkur þarna. Okkur þótti það miður og þetta kom á óvart. Ég var ekki búinn að sjá það fyrir að ég ætti eftir að lenda í þessu þegar ég byrjaði hérna fyrir 30 árum síðan.“ Hinn 6. október næstkomandi eru tíu ár frá þeim degi þegar Geir. H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland. Í hönd fóru óvissutímar þar sem þjóðin streymdi niður á Austurvöll og mótmælti ríkisstjórninni, Seðlabankanum og ástandinu í þjóðfélaginu almennt. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar rýnir í hrunið næstu daga með ítarlegri fréttaröð. Rætt verður við fólk sem var í forystu í þjóðfélaginu á árunum fyrir hrun, fræðimenn sem hafa rannsakað orsakir og afleiðingar hrunsins sem og fólkið í landinu sem mótmælti og missti í hruninu.
Tíu ár frá hruni: Þjóðnýtingin á Glitni sem aldrei varð að veruleika Á þessum degi fyrir sléttum tíu árum var tilkynnt um kaup ríkisins á 75 prósenta hlut í Glitni banka fyrir 84 milljarða króna. Af kaupunum varð þó aldrei og Glitnir rétt eins og hinir stóru bankarnir var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og fór í kjölfarið í slitameðferð. 29. september 2018 17:30
Tíu ár frá hruni: Neyðarlögin voru fordæmalaus á heimsvísu en björguðu Íslandi Neyðarlögin sem Alþingi samþykkti 6. október 2008 voru fordæmalaus lagasetning á heimsvísu en með því fékk Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir til að taka yfir starfsemi bankanna og skipta þeim upp i gamla og nýja banka. Þá fengu innistæður forgang fram yfir aðrar kröfur. 30. september 2018 18:30
Tíu ár frá hruni: Lánuðu öllum Norðurlandaþjóðunum nema Íslandi Í aðdraganda hrunsins 2008 leitaði Seðlabanki Íslands eftir aðstoð frá Seðlabanka Bandaríkjanna til að styrkja gjaldeyrisforða íslenska ríkisins í þeim ólgusjó sem var framundan en var ítrekað neitað. Á sama tíma fengu seðlabankar allra hinna Norðurlandanna slík lán. 28. september 2018 18:00