Tónlist

Föstudagsplaylisti Sóleyjar

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Sóley Stefánsdóttir hljóðskáld.
Sóley Stefánsdóttir hljóðskáld. Fréttablaðið
Föstudagslaganna vörður að þessu sinni er Sóley Stefánsdóttir tónlistargúrú.

Hún er geysivinsæl tónlistarkona, og á dygga aðdáendur víðs vegar um heim. Hún vinnur nú að nýrri plötu. 

„Hún átti til að byrja með að vera fyrir harmónikku og rödd en í miðju ferlinu fékk ég óvæntan áhuga á hljóðgervlum og er nú að prófa mig áfram með svoleiðis í bland við harmónikku, mellótron og þeremín,“ segir Sóley um plötuna sem er í vinnslu. 

„Þessi plata þarf á miklu rými að halda þannig og ég er að reyna að spila bara á hljóðfæri sem ég hef aldrei spilað áður á og þar með sleppa píanóinu eins mikið og ég get.“

Sóley ætlar að halda áfram að semja fram að Airwaves, spila þá alveg glænýtt sett og sjá hvert það leiðir sig. 

„Planið er svo að taka plötuna upp í janúar einhversstaðar útálandi á tveimur vikum og leyfa því að koma sem kemur. Smá improv. Þetta er alveg ný leið fyrir mig að semja og taka upp, það heldur heilanum virkum að að ögra sér og læra á nýja hluti.“

Þó platan sé ekki tilbúin er Sóley með nokkuð skýra mynd af útkomunni, telur að platan verði „algjörlega súrrealísk blanda af femínisma, ímynduðum hliðarveruleika og svo endalokum heimsins. Einhversskonar Thelma and Louise hitta David Lynch og Stanley Kubrick í kaffi til að diskútera og niðurstaðan er engin, að sjálfsögðu.“

Auk sinnar eigin plötu er hún að klára plötu með Láru Rúnars sem hún pródúserar ásamt Alberti Finnbogasyni og að vinna að tónlist fyrir stuttmyndina Blóðmeri eftir Dominique Gyðu Sigrúnardóttur.

Hún spilar hér og þar á næstunni, á Extreme Chill 9. september, og svo eitthvað erlendis í kjölfarið.

Spurð út í lagavalið segir hún að listinn sé „bara eitthvað næs í bland við meira næs. Ýmist hip hop í bland við popp, rokk, jazz og tilraunatónlist, allt sem eyrun þurfa á að halda á föstudegi!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.