Sport

Íslensk kona heimsmeistari í tvíþraut

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir kemur hér í mark.
Guðlaug Edda Hannesdóttir kemur hér í mark. Mynd/Twitter/@triathlonlive
Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir vann í dag til gullverðlauna á heimsmeistaramóti í þríþraut á Fjóni í Danmörku.

Edda var að keppa í tvíþraut (Aquathlon) sem er sambland af sundi og hlaupi. Hún var fljótust allra og vann þar glæsilegan sigur. Keppnin er hluti af Aquathlon leikunum og er haldið af Alþjóðaþríþrautarsambandinu.

Guðlaug Edda synti fyrst einn kílómetra og hljóp síðan í framhaldinu 5 kílómetra. Edda var ekki fyrst eftir sundið en var sterkari en allar hinar á sprettinum.

Edda kom í mark á 31 mínútu og 15 sekúndum og var hún 48 sekúndum á undan bresku stelpunni Hannah Kitchen. Þriðja var síðan Vida Medic frá Serbíu.





Guðlaug Edda Hannesdóttir fékk nýverið styrk frá Ólympíusamhjálpinni en hún hefur sett stefnuna á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Þetta var aðeins önnur keppni hennar eftir að hún féll illa í keppni fyrr í sumar og fékk heilahristing. Það er gaman að sjá hana koma svona sterka til baka eftir það.


Tengdar fréttir

Þríþrautakona og lyftingakona meðal íslenskra keppenda á ÓL í Tókýó 2020?

Ísland gæti átt bæði þríþrautakonu og lyftingakonu á næstu Ólympíuleikum sem fara fram í Tókýó í Japan eftir tvö ár. Þetta má lesa út úr nýjum samningum Ólympíusamhjálparinnar við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafólks þeirra vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×