Lífið

Veitti viðtal með köttinn á öxlunum og kippti sér ekkert upp við það

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kötturinn Lisio og eigandi hans, sagnfræðingurinn Jerzy Targalski.
Kötturinn Lisio og eigandi hans, sagnfræðingurinn Jerzy Targalski. Mynd/Skjáskot
Viðtal hollenska fréttaskýringarþáttarins Nieuwsuur við pólska sagn- og stjórnmálarýninn Jerzy Targalski hefur vakið mikla athygli undanfarna daga, þökk sé heimilisketti fræðimannsins.

Brot úr viðtalinu fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla nú um helgina en Targalski var fenginn í þáttinn til að ræða brottrekstur hæstaréttardómara í Póllandi eftir að umdeild lög um starfsaldur dómaranna voru samþykkt þar í landi á dögunum.

Það var þó ekki efni viðtalsins sem reyndist uppspretta skemmtunar netverja heldur köttur Targalski, Lisio. Í miðju viðtalinu, sem tekið var upp á heimili Targalski, gerði Lisio sér lítið fyrir og klifraði upp á herðar eiganda síns. Þar sveiflaði hann rófunni framan í myndavélina og sleikti eyra Targalski, sem kippti sér ekkert upp við vinahót kattarins og gerði hvergi hlé á máli sínu.

Klippu úr umræddu viðtali má sjá hér að neðan.

Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem kötturinn Lisio veitir eiganda sínum félagsskap í sjónvarpsviðtali, líkt og sjá má í spilaranum hér að neðan, en í fyrra skiptið var kötturinn þó ekki jafnframhleypinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.